Ég er á því að línulegar samgöngur tilheyri ekki fortíðinni, þrátt fyrir að Eyþór Arnalds haldi öðru fram í nýlegu viðtali. Það er þó ekki ætlun mín að leggja sérstaklega út frá þessum orðum hans hér enda er hann margsaga þessa daga. Annars er kannski engin furða að pólitíkus haldi þessu fram enda mjög í tísku að afneita öllu línulegu um þessar mundir og því upplagt að stökkva á vinsældavagninn. Línulegt sjónvarp er jú að hverfa, línu-símar og línur bara svona almennt yfirteknar af þráðlausri tækni.
Ég er mikill StarTrek aðdáandi og hef séð marga hluti sem kynntir voru til sögunnar í þeim þáttum verða að veruleika. Þar má nefna spjaldtölvur, farsíma og sneiðmyndatæki. Engu að síður held ég að fjarflutningspallarnir sem þar eru notaðir (teleport) og tryggja þráðlausa fólksflutninga séu ekki alveg á næsta leiti – því miður Eyþór.
Þannig að línulegir fólksflutningar verða hluti raunveruleikans enn um sinn og ólínulegar samgöngur bíða betri tíma.
Það er mun nærtækara vandamál í núinu hversu beinar þessar línur eru, hvert þær liggja og hvernig þær þjóna íbúum. Fyrir íbúa í úthverfum borgarinnar eru samgöngumál nefnilega oftar en ekki kjarninn í daglegu lífi og almenningssamgöngur eru stór hluti þess kjarna.
Þjónusta Strætó er oft bitbeinið í úthverfunum og raunar víðar. Þessa dagana er verið að breyta þjónustu strætó í Staðahverfinu í Grafarvogi sem þýðir örugglega þjónustuskerðingu fyrir einhverja og bót fyrir aðra. Svipað átti sér stað fyrir ekki svo löngu í Árbænum þegar strætóleið sem gekk þaðan upp í Breiðholt var lögð af. Sem formaður hverfisráðs kallaði ég fulltrúa strætó á fund ráðsins og þegar við höfðum kveinað í nokkra stund dró viðkomandi upp excel skjal. Þar sást að fáir nýttu sér þessa leið og hún því óhagkvæm í rekstri. Lögmál hagfræðinnar höfðu talað og við vorum kjaftstopp um stund. En hvað með þá sem þó nýttu vagninn, hvað áttu þeir að gera? Nú ganga, keyra, hjóla eða vera mjög lengi á leiðinni í strætó vegna flókinna skiptinga.
Að mörgu leyti hefur þjónusta Strætó batnað þegar flutningur fólks, frá úthverfum vestur í bæ og öfugt, er annars vegar. Þá hefur núverandi stjórn Strætó komið til móts við úthverfin með endurlífgun næturstrætó – sem er til mikilla bóta fyrir úthverfabúa. Það sem hins vegar stendur eftir er þjónustan á milli úthverfanna sem hefur heldur minnkað á síðustu árum. Norður-suður samgönguöxullinn á milli þessara hverfa er að versna, en austur – vestur (úr úthverfi og niður í bæ) er í lagi. Þannig er orðið erfitt að taka strætó á milli Grafarvogs, Grafarholts, Árbæjar og Breiðholts. Það sama á raunar við víðar í borginni um almenningssamgöngur þvert á þennan austur-vestur meginöxul samgangnanna. Staðreyndin er hins vegar sú að mikið af fólki í úthverfum sækir þjónustu og frístundir á milli hverfanna, jafnvel frekar en niður í bæ. Mikið af þessari þjónustu er jafnframt á vegum, eða styrkt af borginni. Ég er viss um að margir íbúar úthverfanna kannast við örvæntinguna sem fylgir því að skutla krökkum á æfingu í Egilshöll, eða skólahljómsveit í Breiðholti á háannatíma og svo mætti lengi telja.
Það er deginum ljósara að línulegar samgöngur Strætó um úthverfin þurfa að vera til staðar. Með tilkomu borgarlínu ætti þetta raunar að verða auðveldara þar sem hún mun taka yfir fyrrnefndan meginöxul samgangnanna (vestur-austur) og tengja auk þess saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Þá er hægt að byggja upp tíðar tengingar innan og á milli hverfa sem tengjast síðan inn á borgarlínuna.
Þangað til verður að grípa til aðgerða! Ef akstur strætó á milli úthverfa er óhagkvæm lausn þarf að hafa í huga að bygging mannvirkja til þess að þjónusta íbúana í hverju hverfi er dýr, þar eru bygging íþróttahalla og sundlauga nærtæk dæmi. Mætti ekki líta á aðrar lausnir til þess að bæta ástandið. Hvernig væri að treysta og samtvinna net frístundavagnanna og styðja íþróttafélögin frekar við rekstur þeirra. Auka einnig samnýtingu með öðrum kostum sem fyrir eru eins sundrútum á vegum skólanna sem keyra nú um borgina. Með þessu móti gætu frístundavagnar þjónað fleiri gerðum frístunda en þeir gera nú. Þetta myndi vissulega ekki leysa öll vandamál en ég er sannfærður um að þetta myndi minnka þörf margra á skutli barna í einkabílum og þar með draga úr amstri og umferð.
Höfundur er formaður hverfisráðs Árbæjar.