Við höfum öll orðið fyrir miklum áhrifum af þeim hrikalegu frásögnum af kynferðislegu ofbeldi sem MeToo hreyfingin hefur leyst úr læðingi. Þær sögur sem við höfum heyrt, nú síðast af konum af erlendum uppruna, undirstrika eina ömurlegustu vídd þessa máls sem er misnotkun á valdastöðu, líkamlegum eða félagslegum yfirburðum sem eru notaðir til hins ítrasta til að níðast á þeim sem veikari standa.
Kynfræðsla verði aukin í grunnskólum
Við verðum að skapa kröftugt mótvægi gegn klámvæðingunni inni í skólakerfinu og þar þurfum við m.a. að efla félagsfærni og þjálfa börn í jákvæðum, friðsamlegum samskiptum sem byggja á virðingu. Sú áhersla er sterk í nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar sem kynnt verður á næstunni. Samhliða því þurfum við að auka verulega kynfræðslu í grunnskólum og þar höfum við í skóla- og frístundaráði nýlega samþykkt að setja í gang tilraunaverkefni um kynfræðslu í tveimur grunnskólum, Seljaskóla í Breiðholti og Foldaskóla í Grafarvogi, sem byggir á samstarfi grunnskóla, félagsmiðstöðvar og heilsugæslunnar í hverfinu.
Nú stendur upp á okkur að tryggja að vakningin verði að varanlegri byltingu og tryggja að íslenskt samfélag verði aldrei aftur jarðvegur fyrir kerfisbundið ofbeldi. Verkefnið er til þriggja ára og mun auka verulega hlut kynfræðslu í skólastarfinu. Stefnan er sú að nýta þessa vinnu til að þróa námsefni sem síðan mun standa öllum grunnskólum borgarinnar til boða. Og það er lærdómurinn sem við þurfum að draga af umræðu síðustu vikna – almenn kynfræðsla við hæfi barna og ungmenna í samhengi við áherslu á félagsfærni og sjálfseflingu þarf að verða ríkur þáttur í skóla- og frístundastarfi allra barna í borginni.
Höfundur er formaður skóla- og frístundaráðs og frambjóðandi til 3. sætis í flokksvali Samfylkingarinnar.