Reykjavíkurborg og Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) vinna saman að því að tryggja öryggi barna og ungmenna í íþróttastarfi. Á fundi okkar þann 1. febrúar var farið yfir þjónustusamning borgarinnar við íþróttafélögin þar sem kemur fram að fjárveitingar til félaganna eru skilyrtar við að virk jafnréttisstefna og siðareglur séu til staðar hjá hverju félagi og þar er einnig tekið fram að íþróttafélögum beri að fylgja mannréttinda- og forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.
Það er mikilvægt að stefnur séu ekki bara orð á blaði heldur sé fólk meðvitað um þær og noti í daglegu starfi. Að til séu viðbragðsreglur um hvernig bregðast skuli við ef reglum og stefnum er ekki fylgt. Í kjölfar frásagna íþróttakvenna af ofbeldi, áreiti og kynjaðri mismunum er ljóst að nauðsynlegt er að fara yfir allt skipulagt íþróttastarf, greina áhættur og bregðast við. Orð og skjöl gera ekkert eitt og sér og fram undan er vinna við að fara yfir og tryggja að þær reglur sem settar eru virki í raun fyrir alla og að íþróttafélögin viti hvernig bregðast skuli við komi upp slík mál. Fræðsla fyrir þjálfara, foreldra og stjórnendur íþróttafélaga, yfirferð á siða- og viðbragðsreglum sem og virkt heilsueflingarstarf eru lykilþættir í starfinu fram undan.
Íþróttasamfélagið og mikilvægi þess
Íþróttahreyfingin samanstendur af íbúum, almenningi sem hefur áhuga á íþróttum, stundar íþróttir eða á börn sem gera það. Við myndum öll í sameiningu íþróttasamfélagið og við verðum því öll að taka höndum saman um að búa börnunum okkar öruggt umhverfi í íþróttastarfi sem og í annarri frístund sem börnin okkar stunda. Rannsóknir hafa sýnt að þátttaka í íþróttum og virkri frístund hefur mikið forvarnagildi gegn neyslu vímuefna og reykingum auk þess sem hreyfingin sjálf gerir börnum gott. Það er því á margan hátt mikilvægt að þessir aðilar finni fyrir öryggi og viti hvert eigi að leita sé öryggi þeirra ógnað.
Heilsueflandi umhverfi barna í Reykjavík
Öll börn eiga að fá að njóta sín í öruggu umhverfi. Með verkefninu „Opinskátt um ofbeldi“, sem innleitt verður í alla leik-, grunnskóla og frístund í Reykjavík munum við opna umræðu um börn og ofbeldi, fræða börnin um bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi og þjálfa þá sem vinna með börnum í að taka á slíkum málum ef þau koma upp. Sömu þjálfun þurfa allir sem vinna með börnum að fá og að því munum við í sameiningu stefna borgin og íþróttahreyfingin. Við höfum þegar tekið stór skref í að trygga öryggi barna t.a.m með öflugri forvarnavinnu, breyttu verklagi hvað varðar umönnunn barna sem upplifa heimilisofbeldi. Heilsueflingar- og forvarnarstarf innan hverfa og skólasamfélagsins tekur til ofbeldisforvarna því börn eiga rétt á æsku án áreitni eða ofbeldis og það er okkar sameiginlega samfélagslega verkefni að tryggja þeim það.
Höfundur sækist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík.