Fréttir herma að Tryggingamiðlun Íslands ætli að selja eitt verka sinna úr seríunni Ragnarök eftir Diðrik Jón Kristófersson. Heyrst hefur að uppboðshaldaranum hefði þótt verkið full glannalegt og ekki áttað sig á því hverjir hefðu smekk fyrir því. En sem kurteis fagmaður með meiru, var hann tilbúinn að koma verkinu að á næsta uppboði hjá Gallerí Fold, þar sem það verður að líkum selt í byrjun mars. Þar mun verkið hanga innan um klassísk verk af kennileitum sem þjóðin kannast jafn vel við og Seðlabankann og miðbæinn í Reykjavík. Af þessu má sjá að þótt að listin geti verið mikils virði þá er smekkur manna misjafn og því alltaf gott að hafa opinn huga eins og uppboðshaldarinn.
Kannski er ekki nema von að uppboðshaldarinn hafi ekki áttað sig í hvelli, enda minna verkin í seríunni Ragnarrök á hlutverkaleiki eins og Forgotten Realms og þá list sem maður gjarnan sér að prýðir albúmum þungrokksveita, til dæmis eins og þeirrar Týrs þeirrar færeysku.
Listmálarinn sjálfur sem kallar sig Nekron er slíku sannarlega kunnur og spilar þyngra rokk en gengur og gerist að mig minnir í hljómsveitinni RÁN, auk þess að skrifa lærðar ritgerðir og hefur nælt sér í M.Art.Ed gráðu við Listaháskóla Íslands.
Þessar merku upplýsingar fengu mig til að hugsa um framtíðina. Hvernig kemur ungur maður sér fyrir í veröldinni? Hvers er að vænta fyrir æsku landsins?
Ein mikilvægasta spurningin er: Í hverju eru verðmætin fólgin? Og hvernig varðveitum við þau og ávöxtum til komandi kynslóða? Það þarf opin huga til þess að finna fjársjóð utan við eigin smekk. Eins þarf seiglu og einbeittan vilja til að kynna sér hlutina svo að maður stundi stöðugan lærdóm og nái að fást við breytingarnar.
Samkvæmt grein í Viðskiptablaðinu sem birtist 25. janúar síðastliðinn og bar titilinn „Umsvif sjóðanna of mikil“ eru íslenskir lífeyrissjóðir í vandræðum af því þeir geta ráðið allt of miklu á örsmáum innanlandsmarkaði.
Þá skiptir smekkurinn um hagrænar aðferðir fjármálafræðinnar orðið nær engu í fjárfestingastefnu af því að innanlandsmarkaðurinn er of smár miðað við fjárhæðirnar og hættan á slæmum ákvörðunum vegna tengsla eða erfiðleika við áhættudreifingu orðin of mikil.
Miðað við hinn stóra heim eru fjárfestingamöguleikar innanlands takmarkaðir, en mig minnir að ég hafi lært einhverntíma í skóla að í áhættudreifingu bæri að huga að allavega 20 -30 ólíkum hagsvæðum eða geirum; iðnaði, landssvæðum. Þá til þess að eiga von á því að draga sem einhverju næmi að ráði úr áhættu. Var þá miðað við tölfræðilega nálgun á upplýsingar. En kannski var það bara vitleysa, seinni tíma tölfræði rannsóknir nefna töluna 60 en þá er verið að miða við ólík fyrirtæki. Ég man eftir allskonar þumalputtareglum hvað slíkt varðar nú þegar ég skrifa en litlu af því sem virtist vera líkt náttúruvísindunum. Enda var ég við nám í stjórnunar, stjórnmála og heimspekideild þar sem viðskipta- og hagfræði töldust til félagsvísinda. Það að átta sig á því þótti upphaf viskunnar á þeim sviðum. En hver veit ? Einn náunginn skrifaði bók sem heitir Svarti svanurinn af því hann græddi alltaf á því að veðja á að ofur ólíklegir hlutir gerðust reglulega og hefðu gríðar miklar afleiðingar sem væru góðar eða slæmar.
Það er greinilega mikil þörf á því fyrir alla Íslendinga að hugsa um verðmæti, fyrirtæki og fjármál á skapandi hátt næstu árin.
Sjálfum finnst mér að þurfi að hugsa um heildina.
Kannski er okkar helsta von um bjarta fjárhagslega framtíð og getu til greiðslu eftirlauna einmitt í sprotafyrirtækjum. En þau eru mjög áhættusöm. Skapandi greinar hafa skilað okkur ótrúlega miklu eins og skýrsla sem ég sá hjá Útón árið 2010 um hagræn áhrif þeirra sýndi augljóslega. Í hvorutveggja er áhættan þó mjög mikil. Og ég minnist ekki á ferðamennina af því ég hef áhyggjur af innviðunum og tel að þá beri að ræða á meiri dýpt en minnst rétt á þá hér.
Niðurstaða mín er sú að ég sem einstaklingur komist ekki hjá því að hugsa um fjármál, smekk og verðmæti og geti ekki varpað ábyrgðinni yfir á aðra.
Ég get ekki ætlast til þess að bankinn eða lífeyrissjóðirnir hugsi fyrir mig eða sinni mér fullkomlega. En ég veit líka að því fleiri sem við hugsum um þessa hluti þeim mun meiri líkur eru á góðum lausnum sem geta nýst mörgum.
Ég mun sem einstaklingur til dæmis taka mið af viðvörun Fjármálaeftirlitsins sem kom út þann 31. janúar um að ég sem almenningur eigi að vara mig á Bitcoin og „sýndarfé“ og tek undir viðvörunina um stórkostlega áhættu. Um leið segi ég: „halló! Ég verð að kanna þetta!“
Bitcoin og sýndarfé er einn fárra möguleika í nútímanum á meiriháttar kerfis breytingum. Þar er á ferðinni að hluta til möguleikinn á lýðræðisvæðingu peninga og beinum samskiptum um verðmæti. Blockchain tæknin er komin til að vera. Þetta finnst mér Hyperledger Línux sjóðsins sýna best um þessar mundir. En Hyperledger er opin tölvu forritunarmáls grunnur sem að er ætlaður til þess að nýta blockchain tækni fyrir fyrirtæki í mjög víðum skilningi og ekki eingöngu fyrir rafmynnt. Þ.e.a.s. allt sem lýtur að viðskiptastraumum á Internetinu. En stórfyrirtæki eins og Airbus, American Express, Deutsche Börse Group, Daimler, Hitachi, IBM, Intel, SAP, J.P. Morgan og NEC eru öll orðin félagar í Hyperledger stofnun Linux sjóðsins.
Ég veit að Fjármálaeftirlitið vill vel og ég hvet ykkur öll til þess fara varleg en samt til þess að skoða og hugsa um blockchain tæknina. Ég á sjálfur enn í fullu fangi með að skilja þetta allt saman en ég veit að þessar tæknibreytingar eru þær sem eru hvað mest spennandi fyrir íslensku þjóðina sem verður líkast til að taka það upp á sína arma að aðstoða lífeyrissjóðina við áhættudreifingu. Enda sinna stjórnendur þeirra verki sem krefst mikillar útsjónarsemi, heilinda og meiri ábyrgðar gagnvart fámennu samfélagi en marga grunar.
Mig hefur oft langað að eiga fallegt Caravaggio málverk eins og það sem sýnir Pál Postula mæta Kristi en það er alls ekki líklegt að ég geti auðveldlega „reddað því“ á næstunni. Ætli slíkt gæti nokkurn tíma orðið raunhæft markmið í eignastýringu hjá almennum ungum Íslendingi?
Ég gæti best trúað því að verði örtröð á uppboði Gallerí Foldar í marsmánuði þar sem eitt fárra þjóðlegra þungarokk málverka nútíma listar verður boðið upp. Kannski fer það á verði yfir milljón. Ætli félagar úr Dimmu og Skálmöld keppist við að bjóða í það? Hver veit. Ég get ekki látið vera að hugsa til Basquiat í öllu þessu samhengi en hann náði að hræra í hlutunum og ná heimsfrægð í Bandaríkjunum tvítugur um 1980. Hann var listamaður sem lét strauma úr m.a. hip hopi, jazzi, klassískri list og frönskum ljóðum bræða saman á striga. Því miður dó hann ungur. En það má með sanni segja að rétt áður en hann birtist hefði það þótt ofur ólíklegur viðburður að list sem hans yrði til og að eitt málverka hans yrði síðar selt sem dýrasta verk bandarísks listamanns sem farið hefði á uppboði. En ég veit það að þó að sumt haldist við líði þá eru breytingarnar líkast meiri en við getum nokkurn tíma ímyndað okkur. Og núna og ekki seinna er tíminn til þess að skoða og læra.
Höfundur er MSc. í alþjóðamarkaðsfræði og stjórnun, tryggingaráðgjafi og markþjálfi