Fyrir ekki fyrir svo löngu spurði skeleggur menningarritstjóri á RÚV vini sína á samfélagsmiðlum eftirfarandi spurningar: „Hvaða listaverk - leikrit, mynd, lag eða bók - manstu eftir að hafi síðast haft raunveruleg áhrif á þig; gladdi þig, grætti, hrærði eða ögraði - nokkurn veginn allt nema að vekja leiða?“
Auðvitað spruttu upp ýmsar minningar. Persónulega man ég eftir að hafa staðið gersamlega á öndinni við að upplifa The Visitors eftir Ragnar Kjartansson og finna fyrir gleðitárum renna niður kinnar. Yfir hinu sammannlega, hinu einlæga sjónarhorni listamanns og samstarfsfólks hans að fanga gleðina í hinu hversdagslega en um leið stórkostlega. Samsöngurinn í hægri uppbyggingu, sem sýndi hve sérstök við erum öll sem einstaklingar - en um leið svo lík sem heild. Magnað.
En að því sögðu var það þó ein bók sem kom upp í hugann, þegar ég las þessa spurningu fyrst. Bók sem væri tæplega hægt að flokka sem listaverk, eða alltént ekki sem fagurbókmenntir. En þessi bók uppfyllti allar kröfur á listanum; hún gladdi mig og grætti, hrærði og ögraði. Þessi bók heitir Streetfight: Handbook for an Urban Revolution og er eftir Janette Sadik-Khan, fyrrverandi samgöngumálastjóra New York-borgar. Þessi bók er í stuttu máli talin til skyldulesefnis fyrir fólk sem hefur áhuga á borgarmálum. Og ætti að vera skyldulesefni fyrir fólk sem fjallar um borgarmál.
Já, þessi grein er að fara þangað. En þetta er áhugavert, ég lofa!
Borgarbylting lífsgæða
Sadik-Khan var yfirmaður samgöngumála í New York frá 2007 til 2013. Bókin sem hún skrifaði er leiðarvísir í borgarhönnun, eða öllu heldur borgarendurhönnun. Hún er einnig ævisöguleg, þar sem í bókinni má lesa um baráttu Sadik-Khan fyrir betri borg. Þær hindranir sem hún þurfti að yfirstíga og um þann áróður sem var notaður gegn henni.
Breytingarnar sem henni eru þakkaðar mættu gríðarlegri mótspyrnu frá fréttamiðlum. Sérstaklega frá þeim sem teljast til hægri vængsins en í raun frá fjölmörgum körlum sem þóttust vita betur. Frá hagsmunaaðilum í olíu-og bílaiðnaðinum. Frá pólitískum andstæðingum. Aðilum sem höfðu á sínum snærum ógrynni fjármagns, ógrynni úrræða til að gera lítið úr öllu því sem hún stóð fyrir. (Var notað gegn henni að hún er kona? Ójá).
En sko. Besta er... Yfirgnæfandi meirihluti borgarbúa lýstu yfir ánægju með hennar störf. Fólkið sjálft studdi þær breytingar sem hún stóð fyrir og taldi þær jákvæðar.
Meðal þessara breytinga var að umbreyta malbikuðum illa nýttum götum í almannarými. Torg og græn svæði. Þar sem verslun og menning blómstrar. Þetta gerði hún á yfir 60 stöðum í borginni. Hún lagði áherslu á fjárfestingar í innviðum borgarinnar sem myndu hvetja til fjölbreyttari samgöngumáta. Hún lagði yfir 90 kílómetra af hjólastígum og gerði forgangsakreinar fyrir strætisvagna á sjö fjölförnustu leiðum borgarinnar (í raun #borgarlína). Hún lagði grunninn að CitiBike, hjólapóstum þar sem jafnt borgarbúar og gestir í New York geta fengið lánuð hjól sem er svo skilað á næsta póst. Í dag eru 12.000 slík hjól í umferð í New York.
Og vitið þið hvað? Þetta bar árangur. Auðvitað! Umferð gengur betur nú en nokkru sinni fyrr. Umferðaröryggi er meira um leið og lífsgæði hafa aukist. Þessar breytingar höfðu einnig í för með sér fjárhagslegan ávinning fyrir borgina. Beint og óbeint. Mislæg gatnamót og aukaakreinar heyrðu sögunni til. Enda engin þörf fyrir. Hugsiði ykkur alla milljarðana sem sparast, sem hægt er að verja í þarfari hluti eins og menntun barna, umönnun aldraðra eða menningarstarf um alla borg.
Endurtekin saga. Aftur og aftur og aftur og aftur og aftur
En til hvers að rifja þetta upp, hér og nú? Ástæðan er ef til vill aukinn áhugi fólks á samgöngu-og skipulagsmálum. Ef fram heldur sem horfir verður það eitt helsta, ef ekki helsta, hitamálið í komandi sveitarstjórnarkosningum, í öllu falli á höfuðborgarsvæðinu. Það væri því ekki úr vegi, að fjölmiðlafólk sem kýs að fjalla um slík mál myndi sýna fræðunum aukinn áhuga, því það er jú fjölmiðlafólkið sem þarf að miðla staðreyndum - og passa um leið að sigta út kjaftæðið. Nóg er til af því. Ábyrgðin er mikil og það verður að sýna efninu tilhlýðilega virðingu.
Það er nefnilega nokkuð spaugilegt að fylgjast með þessu. Fjölmiðlaumfjöllun sem fer fram um borgarmál er oftar en ekki afgreidd án nokkurrar aðkomu sérfræðinga. Eða þar sem fólk út í bæ fær að hafa jafnháa rödd og fólk sem hefur helgað borgarfræðum náms-og starfsferil sinn. Flest erum við væntanlega sammála um að þetta er gallinn við fjölmiðla í víðari skilningi. Að sjálfsögðu höfum við öll skoðanir sem eiga rétt á að heyrast. En við verðum að gera greinarmun á áliti sérfræðinga annars vegar, og leikmanna hins vegar. Og við verðum að sigta kjaftæðið frá þegar því er að skipta.
Fólk þráir nefnilega að skilja umhverfi sitt betur. Hvers vegna er verið að þétta borgina? Hvað græðir fólk á því? Þetta er nefnilega ekki eitthvað hugðarefni eða óútskýrt áhugamál einhverra vinstri sinnaðra pólitíkusa? Alls ekki. Þetta er þverpólitísk og fræðileg niðurstaða sem er verið að framkvæma um allan heim. Þétta byggð, bæta almenningssamgöngur. Um þetta fjallar meira að segja World Economic Forum, að bíllinn sem samgöngumáti hafi runnið sitt skeið. Þetta er nú ekki meiri jaðarskoðun en það. Á Íslandi hafa allir stærstu hagsmunaaðilar á húsnæðismarkaði áttað sig á þessu. Allir viðskiptabankarnir, Reitir, Gamma, Samtök atvinnulífsins. Meira að segja Hagar hafa sett þá stefnu að hætta að opna nýjar verslanir í útjaðri hverfa. Verslanir verða hér eftir innan hverfa, til að auðvelda fólki að nálgast verslun og þjónustu í næsta nágrenni. Það er hins vegar hulin ráðgáta hvers vegna Samtök iðnaðarins hafa tekið vandræðalega einarða afstöðu á móti þéttingu byggðar. Greining frá Byggingarfulltrúa hefur sýnt að byggingartíminn er skemmri á þéttingarsvæðum, þvert á það sem SI hefur haldið fram. Þar að auki er mun umhverfisvænna að byggja á landi sem hefur þegar verið brotið undir byggð. Þar er hægt að nýta innviði sem eru þegar til staðar. Gatnakerfi, holræsakerfi, rafmagn, vatnsveitukerfi, skóla, leikskóla. Að brjóta nýtt land undir ný hverfi á jaðri borgarinnar er ótrúlega kostnaðarsamt og skilur eftir sig djúpt, óafturkræft vistspor. Þetta mætti alveg koma fram öðru hverju þegar um umfjöllun birtist um þéttingu byggðar.
Setjum okkur í alþjóðlegt samhengi
Þetta er endurtekin saga. Þegar kemur að umræðum um Borgarlínu, sem dæmi, er í raun hægt að gera copy/paste á umræður sem fóru fram um Bybanen, léttlestarkerfi Björgvinjar í Noregi. Sú borg er um margt lík höfuðborgarsvæðinu, bæði hvað varðar stærð og veðurfar. Og þar hafði fólki verið lofað léttlest um árabil. Vegna pólitísks þrýstings var hins vegar ákveðið, á 9. áratug síðustu aldar, að skattleggja ökumenn einkabíla til að eiga fyrir miklum nýfjárfestingum í stofnvegakerfinu umhverfis borgina. Umferðin var orðin svo slæm. Tveimur áratugum síðar kom í ljós að umferðin hafði ekkert skánað. Hún var verri ef eittthvað var. Verkefnið um Bybanen var samþykkt 2005 og mótbárurnar voru þær nákvæmlega sömu og eru hér á landi. Eða, úr sömu átt. Frá Íhaldsmönnum (norska Framsóknarflokknum) og frá háværum einstaklingum sem fengu skyndilega að láta allt flakka í fjölmiðlum. Þetta er alveg hreint ótrúlegt. Nákvæmlega eins! Það er rétt að taka fram að í dag ríkir auðvitað mikil og yfirgnæfandi ánægja með Bybanen. Umferð er betri fyrir alla samgöngumáta, mengun er minni og fólk hefur fleiri valkosti. Búið er að leggja 21 km af léttlestarkerfi sem verður aukið enn meira nú á næstu árum.
Það myndi spara heilmikinn tíma og þras um borgarmál ef við gætum hugað að þróuninni í kringum okkur. Hvað er verið að gera í samanburðarlöndum okkar? Hver hefur árangurinn verið? Ef við tökum fréttir úr miðbænum sem dæmi, þá er alltaf sama sagan. Það er alltaf hægt að gera frétt úr því þegar einn verslunareigandi kvartar yfir því að opnað sé fyrir gangandi fólk á Laugavegi. Jújú, þetta skapar spennu og er alveg örugglega lesið. En hvar er fréttin frá fréttaritara RÚV í Noregi? Gæti hann vinsamlegast staðið á Karl Johans gate í Ósló og spurt fólk, mjög blákalt og einfaldlega: „Myndirðu ekki vilja fá bílaumferð hingað aftur?“ Það er kannski ekkert leyndarmál, en það eru ekki nema rétt tveir áratugir síðan opnað var fyrir fólk en lokað fyrir bíla. Sömu spurningar má reyndar spyrja í Kaupmannahöfn, þar sem bílaumferð var á Strikinu allt til 1965. Hve mörg myndu vilja fá þá umferð aftur? Ég bara spyr.
Þetta þarf nefnilega ekki að vera svona erfitt. Sérfræðingar um borgarmál eru víða og það er eftirspurn eftir því að skilja borgarfræðin betur. Og það er til gnótt af frábæru lesefni. Hvað er það sem raunverulega bætir lífið, umhverfið í kringum okkur? Til sérfræðinga má alltaf leita og fólk verður ekki fyrir vonbrigðum. Því, ykkur að segja, þá eru þessi fræði alveg yfirgengilega skemmtileg. Þau geta nefnilega glatt og grætt, ögrað og hrært, og það allt í senn.
Ef þið ætlið bara að lesa eina bók í ár, lesið þá þessa bók. Mæli með.