Í júní 1953 gerði alþýða manna í Austur-þýska alþýðulýðveldinu uppreisn. Þegar búið var að brjóta hana á bak aftur með aðstoð sovéska hersins lét formaður austur-þýska rithöfundasambandsins dreifa flugriti á Stalinallee í Berlín. Í því stóð að alþýðan hefði brugðist trausti stjórnvalda og þyrfti nú að einhenda sér í að öðlast það á ný. Bertold Brecht orti þá stutt ljóð sem endaði á spurningunni hvort ekki lægi beinna við að setja bara alþýðuna af og kjósa aðra.
Traust og virðing
Því oftar sem kannanir sýna að Íslendingar beri afar takmarkað traust til Alþingis, (um þrisvar sinnum minna en það sem þekkist gagnvart þingum annarra Norðurlanda), þeim mun oftar heyrum við ráðherra og þingmenn taka svo til orða „að auka þurfi traust á stjórnmálum“ án þess að farið sé í saumana á ástæðunni. Hvers vegna er það svona lítið? Af hverju vantreystir yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar Alþingi?
„Fólk treystir ekki stjórnmálamönnum" segir Katrín Jakobsdóttir í viðtali við breska blaðið The Guardian og segir brýnt að breyta því. Þá segir hún marga á vinstri vængnum enn vera henni reiða fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þeim tveimur flokkum, sem flæktastir eru í hneykslismálin sem felldu tvær síðustu ríkisstjórnir . . . „Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum, og fólk treystir í raun ekki íslenskum stjórnmálamönnum," segir Katrín og segist hafa á því fullan skilning. .„Ég lái þeim það ekki. En nú þurfum við að finna út úr því hvernig við getum byggt upp traust í stjórnmálunum á nýjan leik." (RÚV)
Vissulega hefur „mikið gengið á í íslenskum stjórnmálum” og vantraustið pínlegt. En hér eins og endranær er forsætisráðherrann ekki með fókusinn á eigin ábyrgð og síns flokks. Athyglinni er beint að „þeim tveimur flokkum, sem flæktastir eru í hneykslismálin sem felldu tvær síðustu ríkisstjórnir . . . “
Það gildir jafnt um einstaklinga og hópa, við höfum öll sterka tilhneigingu til að bera virðingu fyrir þeim sem virða okkur og sömuleiðis að snúa baki við þeim sem sýna okkur varanlegt virðingarleysi. Og þá má spyrja: Getur verið að Alþingi treysti hvorki þjóðinni né virði? Jafnvel að það sýni henni varanlegt virðingarleysi?
Lýðræðisskilningur
Eftir Hrun fór af stað umfangsmesta og vandaðasta lýðræðisferli Íslandssögunnar. Hófst með þúsund manna þjóðfundi og endaði (í bili að minnsta kosti) á þjóðaratkvæðisgreiðslunni 2012 um meginatriðin i drögum að nýrri stjórnarskrá. Tveir af hverjum þremur svöruðu þessari spurningu játandi: Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Sem sé mjög ríflegur meirihluti. 82% vildu að náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeigu, væru þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 66% vildu jöfnun atkvæðisréttar og 71% vildu auka beint lýðræði. Það er því engin leið að halda því fram að þjóðin hafi verið hikandi í þessari atkvæðagreiðslu fremur en í þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave.
Niðurstaðan kom til kasta sama þings og efnt hafði til atkvæðagreiðslunnar. Og nú reyndi á allt í senn, traustið, virðinguna og lýðræðisskilninginn. Viðbrögð þingsins og þar með skilaboðin til þjóðarinnar voru og eru enn: 1) Við þurfum ekki að taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslu sem er aðeins ráðgefandi, 2) við berum afar takmarkaða virðingu fyrir niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar og tillögum Stjórnlagaráðs og 3) við treystum ykkur ekki til verka af þessu tagi. Þarf ekki að taka það fram að frumvarp að nýrri stjórnarskrá hefur ekki séð dagsins ljós og er ekki heldur á döfinni. Formaður Sjálfstæðisflokksins staðfestir það: „Það er engin ný stjórnarskrá.” Aðeins sú gamla.
Eins og til að undirstrika vantraustið stendur nú til, að frumkvæði nýrrar ríkisstjórnar og forsætisráðherra, að „núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili.” Það verður „skoðað” hvort þjóðin fái aðkomu að þessari þverpólitísku endurskoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu(m) eða ekki. Og til að ekki fari á milli mála að hverju er stefnt „í breiðri sátt” þá hefur forsætisráðherra valið sér sem aðstoðarmann og verkefnisstjóra varaþingkonu Sjálfstæðisflokksins sem hefur sagst vera „frekar íhaldssöm þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni, en auðvitað tel ég rétt að þingheimur ræði með hvaða hætti og hvaða ákvæðum sé rétt að ráðast í breytingar.“ Núverandi varaformaður og ritari Sjálfstæðisflokksins orðar þetta nýlega tæpitungulaust: „Við þurfum að ræða það hvort þjóðin eigi að koma að breytingum á stjórnarskránni.“ Við þurfum m. ö. o. að ákveða hvort og þá hvaða vald þjóðin felur okkur!
Danska konungsvaldið hefur varla orðað þetta betur á sínum tíma.
Kostirnir í stöðinni
Þótt þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit væri ráðgefandi en ekki bindandi og meirihlutinn afar naumur, hvarflaði ekki að nokkrum stjórnmálamanni að hunsa niðurstöðuna. Forsætisráðherrann, sem látið hafði undan þrýstingi og efnt til atkvæðagreiðslunnar þótt hann væri mótfallinn útgöngu Breta úr ESB, hann viðurkenndi einfaldlega ósigurinn og sagði af sér. Aðrir yrðu að sjá um framkvæmdina. Og þetta er ekkert einsdæmi. Þess eru engin dæmi í þróuðum lýðræðisríkjum að niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið hunsaðar með öllu og komið fyrir í skúffum viðkomandi þings. Ísland er brautryðjandi á þessu sviði. Þar sem stjórnmála- og lýðræðisþroskinn er meiri leyfa stjórnmálamenn sér ekki að sveigja grunnreglurnar í átt að geðþótta og gerræði. Þeir sem reyna það dæma sig úr leik.
Þjóðaratkvæði er bindandi þegar stjórnvöld skuldbinda sig til að fylgja niðurstöðunni í einu og öllu. Í þróuðum lýðræðisríkjum hefur almennt verið lagður sá skilningur í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að stjórnvöld hafi visst svigrúm til breytinga en alls ekki að virða niðurstöðuna að vettugi. Oft hefur þó munurinn á þessu tvennu enginn verið, eins og núna síðast í Bretlandi þar sem stjórnvöld bregðast við eins og þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið bindandi.
Framkvæmdin reynist nú bresku stjórninni erfið. Ýmislegt bendir til að hinn lýðræðislegi meirihluti hafi ekki hugsað málið til enda. Og þá sýnir sig að stjórnin á aðeins um tvennt að velja í þröngri stöðu. Annaðhvort að keyra úrsögnina í gegn hvað sem það kostar eða vísa málinu aftur til þjóðarinnar. Að segja við ESB: Við erum hætt við, við meintum ekkert með þessu! – það er “ómöguleiki” – og þá ekki síður að segja við kjósendur: Ljótu fíflin þið, við tökum ekkert mark á ykkur og þurfum þess ekki heldur því atkvæðagreiðslan var aðeins ráðgefandi!
Siðmenning og lýðræði kunna að virðast eftirsóknarverður kokteill. En hann er greinilega ekki fyrir alla. Og alls ekki fyrir þjóðþing sem hvorki njóta trausts né eru þess umkomin að auðsýna fólki traust og virðingu.
Fullt eða sanngjarnt
Sú leið sem ríkisstjórn og alþingi hafa nú markað – að „núgildandi stjórnarskrá verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili” – er ekki til þess fallin „að byggja upp traust í stjórnmálunum á nýjan leik" eins og Katrín Jakobsdóttir telur brýnt. Þvert á móti. Þær þverpólitísku nefndir sem tekið hafa þessa endurskoðun að sér eru orðnar nokkuð margar. Og enn er sú gamla til bráðabirgða eins og hún var 1944. Ein nefndin enn og það með enn einum íhaldssömum stýrimanni? Og það m.a.s. “í breiðri sátt” sem reynslan er fyrir löngu búin að sýna að næst ekki um stjórnarskrár í lýðræðisríkjum. Stjórnarskrá Sovétríkjanna var samþykkt í breiðri sátt, gott ef ekki alsátt. En aðeins eitt dæmi nægir til sýna fram á varanlegt ósætti sem hvorki verður að sátt né breiðri sátt, hvorki í nefnd né utan nefndar.
Að „fullt verð” komi fyrir afnot af auðlindum þjóðarinnar segir í tillögum Stjórnlagaráðs. Þessu var andmælt í þinginu og stungið upp á „sanngjörnu verði” (sem þýddi í raun að hver ný ríkisstjórn gæti ákveðið verðið). Samkvæmt könnunum og atkvæðagreiðslunni 2012 styðja um 80% þjóðarinnar „fullt verð”, stórútgerðin, valda- og eignastéttin og kerfisflokkarnir á þinginu vilja „sanngjarnt verð” eða jafnvel ekkert, aðeins gjald sem eigandinn hefði ekkert um að segja. Hvar er sá kraftaverkamaður eða kona í hópi sáttasemjara sem í þessu eina máli getur gert öll dýrin í skóginum að vinum?
Þessi fyrirhugaða endurskoðun á stjórnarskránni gömlu er annaðhvort útópískir draumórar eða meðvituð tilraun til að drepa málinu á dreif eina ferðina enn. Nema hvort tveggja sé. Flokkarnir þrír sem að þessu standa eru vissulega allir hallir undir ríkjandi kerfi en mishallir og misverseraðir í aðferðafræðinni. Það sem gerir þá að samvöxnum þríburum í þessu máli er afstaða þeirra til fullvalda þjóðar, vantraustið gagnvart henni og viðvarandi virðingarleysi. Ef lýðræðisskilningurinn væri eitthvað í ætt við þann breska ættu þeir ekki um neitt annað að velja en taka til við tillögur Stjórnlagaráðs. Ekki endilega að samþykkja þær allar óbreyttar staf fyrir staf. En veigamiklar breytingar væri ekki hægt að gera á þeim án þess að bera þær undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þar með væri komið eðlilegt samtal milli þings og þjóðar og í það minnsta vísir að gagnkvæmri virðingu og trausti.
En það fer ekki á milli mála að meirihluti alþingismanna – að minnsta kosti frá 2012 og til dagsins í dag – lítur svo á að þjóðinni sé hvorki treystandi til að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá né að þjóðin hafi lýðræðislegan rétt til þess með beinum hætti. Fari nú svo að þjóðin sætti sig ekki við þetta og verði með einhverskonar uppsteyt, kannski eftir nokkra áratugi enn undir þeirri gömlu, hvort getur það þá ekki orðið verðugt umræðu- og tillöguefni á hinu háa Alþingi að setja þessa vanhæfu þjóð bara af og kjósa aðra?