Mikinn hafa ýmsir farið að undanförnu vegna slaks árangurs íslenskra barna í lestri og er það vitaskuld áhyggjuefni að þau mælist svona slök miðað við börn í öðrum löndum. Verra er þó að tilhneigingin til þess að hengja bakara fyrir smið hefur látið vel á sér kræla og á skólakerfið íslenska að sögn mestu sökina, það er ekki nógu vel skipulagt, fjármagnað eða eitthvað þaðan af síðra. Skólakerfið sér vissulega um að kenna börnum grunnatriði lestrar, en þjálfunin fer fram inni á heimilunum. Foreldrar sem ekki lesa fyrir börnin sín (líka eftir að þau eru orðin stautlæs) og láta þau fá síma eða spjaldtölvu í staðinn bera meiri ábyrgð. Lestur í og fyrir skóla er skylda og leiðindi, en lestur með foreldrum er unaður og samskipti. Gefur auga leið að sá eða sú sem því venst að lesa af yndi og ánægju með sínum nánustu verður betur læs en þau sem gapa yfir síma eða spjaldtölvu.
En latir foreldrar eru ekki einu sökudólgarnir, sennilega bara fórnarlömb íslenskra stjórnvalda sem vanræktu móðurmálið með eftirminnilegum hætti á þessari öld og gildir þá einu hverjir voru við stjórnvölinn. Mikið hefur verið rætt um stöðu íslenskunnar í tölvuheimi frá því þau apparöt tóku að ryðja sér rúms og í upphafi var hið menningarlega viðbragð eins og áður í Íslandssögunni þegar ný tæknibylting gjörbreytti aðstæðum fyrir tungumálið. Þannig var það að þegar ritöld hófst, tóku Íslendingar upp á því að skrifa á íslensku, þýðingar, nytjatexta og skáldskap. Sama gerðist þegar prentverkið var tekið upp. Aftur var brugðist við þegar útvarpstæknin kom til sögunnar og íslenskt útvarp varð til. Kvikmyndin var fyrsta klúðrið, þar fengu menn danska texta og prógrömm í þýðingar stað áratugum saman. En síðan kom hið íslenska sjónvarp og með því íslenskur texti og þá sáu kvikmyndahúsin sér allt í einu fært að gera það sama. Íslenskt sjónvarp var menningarlegt viðbragð við nýrri tækni og merkilegt nokk, um það ríkti algjörlega þverpólitísk sátt.
En svo komu tölvurnar og ekki síst tölvuleikir sem börnin laðast að. Þá voru komnir svokallaðir „frjálshyggjutímar“ og ekki mátti íþyngja innflytjendum tölvuleikja sem kostuðu formúu með því að láta þá þýða þá. Hefði einhver vogað sér að segja það á tíunda áratug síðustu aldar hefðu menn líkast til kallað viðkomandi kommúnista eða eitthvað þaðan af skelfilegra. Reyndar var það svo að flest ríki Vesturlanda, sem meta menningarlegt fullveldi sitt að jöfnu við hið pólitíska, fengu þessa leiki þýdda, vissulega oft í krafti stærðar markaðar, en Íslendingar gátu vel lagt þá kvöð á að tölvuleikir væru á íslensku. Til dæmis tókst að fá Microsoft til að íslenska stýrikerfi sitt. Það var ekki gert með tölvuleikina og síðar meir munu menn ef til vill greina það sem upphafið að endalokum íslenskunnar, því ég gæti vel trúað því að ef íslensk börn væru prófuð í lestri á ensku núna, þá kæmu þau betur út í PISA.
Og nú eftir að Netið tröllríður öllu og íslenskir einkareknir fjölmiðlar kvarta yfir því að þurfa texta íslenskt efni í samkeppni við erlendar efnisveitur bólar heldur ekki á nokkru menningarlegu viðbragði, engri viðleitni til að svara þessum áskorunum tímans, það verða bara einhver „lestrarátök“ og kannski verður Vaskurinn tekinn af bókum svona um það leyti sem það er hætt að skipta máli. Og já, við getum sagt ísskápnum að afþíða sig á íslensku eftir að komin er máltækni til þess. Spurningin er bara hvort nokkur nennir að nota íslenskuna til að tala við ísskápinn sinn.
Þótt seint sé í rassinn gripið eru enn til leiðir til að svara þessum áskorunum sem íslenskan stendur frammi fyrir og þær hafa verið kynntar stjórnvöldum og öðrum, en þær kosta peninga og samstöðu, nokkuð sem ekki er fyrir hendi þegar kemur að hagsmunum íslenskrar tungu, það eina sem henni er boðið upp á núna er fagurgali og sýndarmennska sem engu skilar þegar öllu verður á botninn hvolft.