Um þessar mundir á Thatcherismi íslenskra húsnæðismála tvítugsafmæli. Í ár eru tveir áratugir frá því íslenska verkamannabústaðakerfið var lagt niður. Tímabilið sem tók við má með réttu kenna við Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Englands.
Kenningar hennar, Milton Friedmans og Ronald Reagans náðu mikilli útbreiðslu á vesturlöndum upp úr 1980. Á Íslandi stóð Thatcher trúboðið í háblóma í lok síðustu aldar. Mantran var að hið opinbera stíga til hliðar. Og hleypa alvitrum og skapandi markaðsöflum að sem flestum sviðum þjóðfélagsins.
Einkaaðilar skyldu leysa allt betur, skilvirkara og ódýrara en hið opinbera. Það átti sérstaklega við um húsnæðismál og fjármál. Á Íslandi var í kjölfarið tekin kröpp hægri beygja í húsnæðispólítík. Einkavæðing íslensku bankanna hófst um svipað leyti. Það ferli fylgdi trúarkenningum Thatcher fullkomlega.
Í Söguspegli lagði Thatcherisminn félagslega Húsnæðispólítík Englands í rúst. Arfleifð Thatcher í Englandi er tvíþætt: Húsnæðislaus kynslóð sem kallast „Generation Rent“. Þessi kynslóð er dæmd til lífstíðar á ónýtum okurleigumarkaði. Eftir að umfangsmikil „Non profit“ húsnæðispólítík eftirstríðsáranna var lögð niður, hófst hækkunarferli sem hefur læst heila kynslóð úti í Enskum húsnæðismálum.
Hinn hluti arfsins er fámennur hópur landlorda sem hefur Enskan leigumarkað í vasanum.
Heilt á litið gæti ofangreind atburðalýsing alveg eins átt við Ísland. Á tveimur strjálbýlum eyjum í Atlantshafi, með nægt landrými voru búnar til húsnæðiskreppur. Eftir sömu uppskrift. Á báðum stöðum var sama kynslóð sett út á gaddinn í húsnæðismálum . Á Íslandi færðu stjórnvöld bönkum, byggingarverktökum og bröskurum húsnæðismarkaðinn á silfurfati. Þegar svo bankakerfið hrundi tók það með sér sama markað í fallinu eins og samvaxinn tvíbura.
Enn blómstrar Thatcher trúboðið á Íslandi. Hugmyndafræðin lifir enn góðu lífi. Nýjasta birtingarmynd þess er fyrirlestur haldinn af hagfræðingi á fundi hjá Leigusala á leið á markað. Líklega var erindið kostað af sama leigusala.
Efnislega snerist fyrirlesturinn um að láta íslenska landlorda í friði. Og að hið opinbera eigi ekki að byggja og reka leiguhúsnæði í samkeppni við sömu leigulorda. Þeir skulu sitja einir að sínum leigjendum. Hið opinbera skal með aðgerða og afskiptaleysi sínu að sjá til að leigjendur hafi ekki í önnur hús að venda. Svo lordarnir geti okrað á þeim í friði. Það er einmitt það sem íslensk yfirvöld hafa gert síðustu áratugi. Í raun má kalla fyrirlesturinn eins konar óð, eða afmælisávarp íslenska Thatcher tímabilsins.
Það er komin áratuga reynsla á opinbert afskiptaleysi af leigumarkaði landsins. Íbúafjöldi í nútíma braggahverfum höfuðborgarsvæðisins eykst stöðugt. Hækkun á húsnæðisverði slær heimsmet. Allar launahækkanir leigjenda hverfa í gin leigulordanna. Með fádæma skammsýni seldu stjórnvöld fákeppnisfélögum stór eignasöfn af íbúðarhúsnæði í ríkiseigu. Þessi aðferðarfræði er alveg á hvolfi við lönd í kring um okkur með þroskaðan leigumarkað. Þar eru opinber leigufélög höfð ráðandi í verðmyndun í krafti stærðarinnar. Á Íslandi er opinber leigumarkaður enn í fullkomnu skötulíki samanborið við nágrannalöndin.
Til að setja mismuninn í samhengi : hugsum okkur eitt augnablik að td. Reykjanesbær væri með sama úrval af opinberu leiguhúsnæði og svipað stór bær í Svíþjóð. Þá væru allar íbúðir og flestar byggingar á varnarliðssvæðinu í eigu sveitarfélagsins. Og leigðar út til almennings á hóflegum verðum. Á Höfuðborgarsvæðinu væru þá ca 20.000 íbúðir í eigu og rekstri sveitarfélaga svæðisins. Þar af uþb 10.000 íbúðir í Reykjavík. Með íbúum úr öllum stigum þjóðfélagsins. Án tekjutakmarkana.
Er leiðin út úr íslensku húsnæðiseklunni virkilega að íslensk stjórnvöld láti leigumarkaðinn og Lordana afskiptalausa ? Og hagi sér alveg þveröfugt í við nágrannalöndin í húsnæðismálum ? Miðað við áratuga og aldalanga reynslu þeirra af öflugum opinberum leigumarkaði ?
Er ekki komið nóg af Thatcher heilkenninu á Íslandi ? Er ekki kominn tími til að byggja upp opinberan leigumarkað sem þolir samanburð við Skandinavíu ?
Lífeyrissjóðir geta svo látið leigulordana í friði. Lordarnir geta átt sín eignasöfn,eða keypt og selt hvor öðrum. Verkefni lífeyrissjóðana næstu misserin er að koma íslenskum almenningi í öruggt húsaskjól. Á eðlilegu verði. Án milliliða.
Þessi pistill er kostaður af greinarhöfundi.