Mikil umræða hefur skapast um aksturskostnað þingmanna að undanförnu, réttilega. Það er að ýmsu að huga í þessum efnum. Það er fullkomlega eðlilegt að þingmenn fái endurgreiddan útlagðan kostnað vegna starfa sinna, hvort sem um er að ræða flug, hótel, bílaleigubíl eða akstur. Það er hins vegar að sama skapi mikilvægt að um endurgreiðslu á slíkum kostnaði gildi skýrar reglur. Það er líka augljóst að gera á þá sjálfsögðu kröfu til þingmanna að þeir fari eftir þeim reglum sem gilda. Síðast en ekki síst eiga slíkar reglur augljóslega að vera í takt við það sem almennt gengur og gerist í þjóðfélaginu. Sú er því miður ekki raunin í dag og með þeim sérreglum sem gilda um aksturskostnað þingmanna má segja að þingmenn séu að þiggja skattfrjálsar tekjur langt umfram útlagðan kostnað. Það er ótækt.
Vandinn er nefnilega ekki aðeins skortur á gagnsæi á greiðslum til þingmanna, eða að þingmenn fari ekki eftir þeim reglum sem þeir hafa sett sér sjálfir. Vandinn er einnig sá að skattaleg meðferð á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar þingmanna er í einhverjum tilvikum önnur en almenningur þarf að sæta. Þingmenn hafa til dæmis sett sér aðrar og rýmri reglur um skattalega meðferð ökutækjastyrks.
Af hverju þingmenn hafa sett sér aðrar reglur en gilda um allan almenning kann ég ekki skýringar. Það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt. Um skattfrelsi á endurgreiddum kostnaði eiga að gilda sömu reglur fyrir þingmenn og allan almenning.
Það þarf að endurskoða reglurnar – ekki aðeins framkvæmd þeirra
Þegar ráðist verður í endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi væri því ágætt að hafa eftirfarandi viðmið í huga:
- Gagnsæi þarf að ríkja um þessar greiðslur og því á að birta þær allar opinberlega. Um þetta virðist ríkja ágæt samstaða meðal þingmanna nú.
- Reglurnar verða að vera í samræmi við reglur Ríkisskattstjóra hvað endurgreiðslu á útlögðum kostnaði og skattskyldu starfstengdra hlunninda varðar. Þar vantar nokkuð upp á samanber dæmið hér að ofan.
- Augljóslega eiga þingmenn að fara eftir þeim reglum sem settar eru. Að sama skapi á Alþingi ekki að endurgreiða þingmönnum útlagðan kostnað umfram þær reglur sem gilda. Af þeim dæmum sem birt hafa verið opinberlega er ljóst að svo er því miður ekki.
- Síðast en ekki síst á það ekki vera sjálfdæmi þingmanna hversu mikinn kostnað þeir geta mögulega fengið endurgreiddan. Það eiga að vera einhver efri mörk á „dugnaði“ þingmanna. Þá er einnig eðlilegt að settur sé skýrir rammi um mörkin milli starfa þingmanna og almenns pólitísks starfs, t.d. þátttöku í innri viðburðum flokka, prófkjörum og síðast en ekki síst kosningabaráttu. Alþingi á ekki að endurgreiða útlagðan kostnað vegna þátttöku þingmanna í kosningabaráttu eða prófkjöri. Þá ríkir ekki jafnræði í stöðu þeirra sem eru innan þings eða utan.
Vonandi næst samstaða um það á Alþingi að endurskoða þetta fyrirkomulag þannig að fullt traust geti ríkt um störf þingmanna hvað þetta varðar. Hér á ekki að leika neinn vafi á að greiðslur sem þessar séu innan allra eðlilegra marka og að reglur þingsins þar að lútandi séu í samræmi við þær reglur sem gilda um slíkar greiðslur fyrir allan almenning.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.