Nú styttist í kosningar og flokkar farnir að velja á sína lista með mismunandi aðferðum. Hjá okkur Pírötum verður prófkjör. Við höfum ekki fengið mikið pláss í fjölmiðlum hingað til en það er samt ekki þannig að við sitjum auðum höndum. Málefnastarf er í fullum gangi og smátt og smátt er að myndast heildstæð stefna flokksins. Við förum vandlega yfir gögn og rannsóknir áður en stefnan er sett. Við erum komin vel á veg með stefnu í skipulagsmálum og húsnæðismálum en ég held því fram fullum fetum að innan okkar raða sé mesta þekkingin þegar kemur að bygginga- og húsnæðismálum. Ég hef verið að hlusta á frambjóðendur annarra flokka tjá sig um þessi mál og hefur mér þótt þekkingin þar vera heldur rýr á þessum málefnum. Fjölmiðlar eiga það sameiginlegt að velja aðeins þekktu andlitin og því eigum við svolítið erfitt uppdráttar við að koma okkur á framfæri.
Ég hef nú þegar skrifað nokkra pistla um húsnæðismál og fjalla þeir flestir um framleiðslugetu byggingariðnaðarins. Í meistararitgerð minni í fjármálahagfræði um framleiðslugetuna í íslenskum byggingariðnaði bar ég framleiðnina á Íslandi saman við Noreg en útkoman var okkur heldur óhagstæð. Við erum með um 66% af framleiðni Norðmanna. Ég bar einungis saman byggingu á uppsteyptum fjölbýishúsum. Þessi útkoma er nokkuð áhugaverð í ljósi þess að nú hefur verið lýst yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Ég hef lengi verið að benda á þetta en alveg frá því að ég fór í gagnasöfnun á sínum tíma þá blasti þetta strax við.
Fyrir um ári síðan fór ég á fund hjá Íbúðalánasjóði þar sem til umfjöllunar var áætlun um húsnæðisuppbyggingu á næstu árum. Eftir fundinn benti ég á að áætlanirnar myndu ekki standast vegna þess að framleiðslugetan væri ekki nægjanleg í hagkerfinu. Núverandi framleiðni væri ekki nógu góð auk þess sem við glímdum við skort á faglærðu og reynslumiklu vinnuafli á íslenskum byggingamarkaði. Enda hefur það komið í ljós nú ári seinna að ég hafði nokkuð til míns máls þar sem einungis 1800 íbúðir voru byggðar á öllu landinu í fyrra.
Á Íslandi helst í hendur vanþekking á framleiðslugetu í byggingariðnaði og skortur á virðingu við iðn- og verknám. Virðing fyrir iðn-og verknámi er einmitt stór þáttur í því af hverju framleiðnin er ekki betri. Af hverju ættu ungmenni að fara í iðnnám ef samfélagið metur það ekki að verðleikum? Frá 2009 höfum við byggt um rúmlega 7.700 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Ef við værum með sömu framleiðslugetu og Norðmenn hefðu hins vegar 4.000 fleiri íbúðir verið byggðar. Við værum sumsé búin að minnka skortinn allverulega á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir okkur að framleiðni skiptir mjög miklu máli.
Þegar ég hef verið að hlusta á frambjóðendur tjá sig um húsnæðismál þá fæ ég það á tilfinninguna að þeir hafi ekki kynnt sér málin alveg til hlítar. Vandamálið er ekki lóðaskortur heldur hverjir eiga að byggja á þessum lóðum. Einnig hefur hótelbygging haft veruleg ruðningsáhrif á byggingu íbúðabygginga. Vinnuafl sem er að vinna við hótelbyggingar er ekki að vinna við íbúðabyggingar. Vinnuafl sem er að vinna í Kópavogi getur ekki verið að vinna í Reykjavík. Þetta eru takmarkaðir framleiðsluþættir sem erfitt er eða nánast ómögulegt er að auka til skamms tíma nema með innflutningi á vinnuafli frá Evrópu. Við erum hins vegar í samkeppni við önnur Evrópulönd um þetta vinnuafl því það er víða skortur á íbúðum í Evrópu. Pólverjar eru að reyna fá sitt fólk heim því uppgangurinn þar er mikill þessa stundina.
Hvað er þá til ráða? Stutt og einfalt svar er ný framleiðslutækni. Alveg frá því ég sá í hvað stefndi með skortinn á íbúðum og svo þegar ég fékk niðurstöðurnar úr rannsókninni minni þá var mér það ljóst að það eina sem við gætum gert væri að tileinka okkur nýja framleiðslutækni. Þessi framleiðslutækni er til í nágrannalöndum okkar og þess vegna er engin þörf á því að finna upp hjólið. Hafa verður þó í huga að tækninýjunar hafa áhrif. Ef framleiðnin er ekki nógu góð með núverandi byggingatækni eins og ég hef komið inn á, þá getur ný byggingatækni rutt þeirri gömlu úr vegi. Einnig fer það eftir magni hve mikið þessi nýja byggingatækni myndi hafa áhrif á markaðsvirði þeirra íbúða sem nú þegar eru til staðar á markaði.
En öll hljótum við að vera sammála um að þetta ástand er ekki viðunandi. Við þurfum að sýna skynsemi á næstu árum með nýfjárfestingar og reyna að koma í veg fyrir mikil ruðningsáhrif á uppbyggingu íbúða á sama tíma og við fjárfestum í nýrri framleiðslutækni.
Höfundur er fjármálahagfræðingur og sækist eftir öðru sæti á lista Pírata í Reykjavík.