- Færð hafa verið gild rök fyrir núverandi staðarvali og það sé besti kosturinn í stöðunni. Vandaðar staðarvalsgreiningar hafa verið unnar allt frá árið 2001. Einnig hafa ýmsar forsendur verið endurskoðaðar og aðlagaðar að þörfum og viðhorfum á hverjum tíma. Ávallt frá árinu 2002 hefur afstaða aðila verið sú að besta staðsetningin sé við Hringbraut þar sem Landspítali er með stærstan hluta starfseminnar í dag. Búið er að skipuleggja lóð fyrir starfsemina, færa Hringbraut og gera allar þær samþykktir sem þarf á svæðaskipulagi, aðalskipulagi og deiliskipulagi svæðisins.
Sagan
Árið 1863 lagði Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp á Alþingi um sjúkrahús sem þjóna myndi öllu landinu. Frumvarpið hlaut ekki framgang í það skiptið. Nokkrum áratugum seinna hófu konur baráttu fyrir byggingu Landspítala og vildu með því minnast kosningaréttar kvenna árið 1915. Það bar þann ávöxt að 15. júní 1926 lagði Alexandría drottning Dana hornstein að spítalanum. Bygging spítalans sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni tók 4 ár og hýsti í upphafi handlækningadeild og lyflækningadeild. Gamla bygging Landspítala er nú friðuð á ytra byrði.
Landspítali – háskólasjúkrahús sameinaður spítali Fossvogs og Hringbrautar var formlega stofnaður í Borgarleikhúsinu 16. maí árið 2000.
Staðarval fyrir nýjan sameinaðan spítala
Árið 2000 var byrjað fyrir alvöru að undirbúa byggingu sameinaðs nýs spítala. Vegna lítillar innlendrar þekkingar/reynslu við skipulag og byggingu spítala var strax farið í það að leita eftir erlendum óháðum sérfræðingum til að skoða þessi mál með íslenskum aðilum. Reynt var að hafa sama skipulag á staðarvalsákvörðunum eins og í öðrum löndum. Fá ráðgjafa til að gera þarfagreiningu og gefa álit, taka saman kosti og galla mismunandi staðsetninga, skoða kosti í samvinnu við sérfræðinga og hagsmunaaðila, skoða áætlanir um mannfjölgun og borgarskipulag og taka síðan ákvörðun í framhaldi af því.
Í fyrsta lagi var leitað til ráðgjafa/verkfræðistofunnar Ementor og henni fengið það hlutverk að þarfagreina verkefnið. Skýrsla frá þeim kom út árið 2001 „Functinal Development Plan“.
Þessi verkfræðistofa sem var afsprengi frá Ernst&Young gerði þarfagreiningu á því hvernig spítalastarfsemin myndi þróast bæði ef horft yrði til skamms tíma og til lengri tíma. Hún tekur tölulega á öllum deildum spítalans, skoðar mögulegan fjölda sjúklinga, lækna, hjúkrunarfólks, fermetra sem þarf fyrir starfsemi hverrar deildar til framtíðar og svo framvegis. Í lok skýrslunnar eru ráðleggingar Ementors um langtímaáætlun að ef ekki borgaði sig að byggja nýjan spítala frá grunni, væri betra að byggja við starfsemina í Fossvogi. Rökin voru þessi:
- Hægt að byggja án þess að trufla núverandi spítalastarfsemi
- Ekki þyrfti að rífa byggingar
- Hægt að byggja í skrefum næstu áratugi
- Fjarlægð frá Háskólanum er ekki of mikil
- Barna-, kvenna, krabbameins og blóðmeinafræði gætu verið áfram á Hringbraut í amk. 10-25 ár til viðbótar (skýrsla Ementor bls 82).
Ementor töluðu m.a. um Vífilsstaði í tengingu við nýjan spítala og töldu það gott byggingarland, en þó með svipuðum annmörkum og síðar komu í skýrslu White arkitekta sem unnið var að um svipað leyti.
Á sama tíma og Ementor var að ljúka við sína skýrslu var fengin til ráðgjafar White arkitektastofa frá Gautaborg. Sú stofa skilaði skýrslu í desember 2001 sem hét : „Analys av möjligheterna att utveckla sjukhuset vid Hringbraut, Fossvogur och Vifilsstadir“. Þar er m.a. byggt á tölulegum gögnum úr Ementor skýrslunni og farið nánar ofan í saumana á mögulegum byggingarplönum/útfærslum fyrir nýjan spítala við Hringbraut, í Fossvogi og á Vífilsstöðum. Meðal annars hvernig væri hægt að útfæra byggingar á hverjum stað fyrir sig, hversu mikið þyrfti að byggja miðað við starfsemi á hverjum stað, sameiningu á einn stað eða nýjan spítala, auk þess að skoða kosti og ókosti hvers staðar.
Þar setja White arkitektar fram 4 valkosti sem allir hafa sína kosti og galla.
- Hringbraut I (79 þús. fermetra nýbyggingar í fjórum skrefum, nota hluta eldri bygginga)
- Hringbraut II (85 þús. fermetra nýbyggingar í tveimur skrefum, nota hluta eldri bygginga)
- Fossvogur
- Vífilsstaðir
Með þessar niðurstöður í farteskinu hefst síðan nefnd um framtíðarskipulag spítalans handa við að skoða þá möguleika sem eru til staðar og hvernig þær hugmyndir samrýmast hugmyndum um uppbyggingu og skipulag höfuðborgarsvæðisins.
- Spurningar sem nefndin þurfti að spyrja sig voru margar t.d.:
- Hversu mikið ætlum við að byggja og hversu hratt?
- Hvað kostar að byggja á hverjum stað, hver er sparnaðurinn til langs tíma litið?
- Hverjir eru kostirnir og gallarnir við að byggja á hverjum stað?
- Hvernig eru samgönguásarnir við mismunandi staðsetningar?
- Hvernig er með aðgengi að mismunandi stöðum?
- Hvernig verður íbúaþróun m.t.t. skipulags höfuðborgarsvæðisins?
- Hversu margir nota spítalann á dag?
- Hversu margir verða notendur framtíðinni?
- Hvernig verður með aðra uppbyggingu á svæðinu?
- Hvernig kemur fólk á spítalann?
- Hvenær kemur fólk á spítalann?
- Hversu margir nemendur verða á spítalanum?
- Hversu margir kennarar verða á spítalanum líka?
- Hvað með bílastæði
- Hvað með strætó
- Hvað með þyrluflug
- Hvað með sjúkraflug
- Hvað með sjúkrabíla
Til þess að svara þessum og miklu fleiri spurningum voru fengnir á fund tugir sérfræðinga sem þurftu síðan að vinna áfram að svörum við þessum spurningum.
Á endanum, eftir 28 nefndarfundi, auk vinnufunda með sérfræðingum hér heima og erlendis, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýjar spítalabyggingar við Hringbraut og væru kostir þess að hafa hann þar fleiri en að hafa hann á öðrum stöðum sem skoðaðir voru. Hægt er að hafa mismunandi skoðanir á þessari ákvörðun, en það getur enginn mótmælt því að þessi vinna var gerð á mjög sambærilegan hátt og í öðrum löndum í kringum okkur og niðurstaða fengin eftir tveggja ára yfirlegu. Ef velja á spítalanum nýjan stað frá grunni, þarf að fara í gegnum svipaða vinnu.
Umræðan um staðarvalsákvörðunina hefur verið byggð á vanþekkingu, ýktum talnaútreikningum, hagræðingu staðreynda með því að benda eingöngu á kosti annarra staða og sleppa göllunum, auk ranghugmynda og einföldunar á ferli staðarvalsgreiningar fyrir nýja spítala.
Frá þessum tíma hefur staðarvalið verið metið aftur og aftur og í hvert einasta skipti sem sest hefur verið faglega yfir þetta mál hefur niðurstaðan verið sú sama.
Þegar kostir og gallar hverrar staðsetningar eru settir í samhengi verður Hringbraut alltaf ofan á og bygging nýs spítala á nýjum stað ekki komið alvarlega til skoðunar og verið sífellt óraunhæfari valkostur.
Nýjar byggingar við Hringbraut
Byggingaframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut og rannsóknarhús sem mun hýsa rannsóknarstarfsemi spítalans og háskólans eru að hefjast á þessu ári eftir margra ára undirbúning. Byggingarframkvæmdum við sjúkrahótelið er að ljúka og undirbúningsvinnu vegna skipulags meðferðarkjarna og rannsóknarhúss er að ljúka. Tuga mannára vinnu við verkefnið m.a. starfsmanna spítalans, verkfræðinga, arkitekta og fleiri aðila liggja nú þegar að baki þessarar innri og ytri skipulagsvinnu.
Meðferðarkjarninn verður aðalbygging nýs spítala við Hringbraut og er mikið gleðiefni að stefnt er að því að taka þá nýbyggingu í notkun árið 2023.
Í meðferðarkjarnanum verður sameinuð mestöll bráðastarfsemi spítalans s.s. bráðamóttökur, skurðstofur og gjörgæsla. Þar verða um 220 einmenningsrými fyrir sjúklinga.
Við byggingu nýs meðferðarkjarna er sjúklingurinn í fyrirrúmi og allar sjúkrastofur eru einmenningsstofur í stað 4-6 manna stofa. Sjúkrarúmum á nýjum spítala mun fjölga um 48 þrátt fyrir þetta og inni þeirri tölu eru ekki þau 75 herbergi sem verða á nýja sjúkrahótelinu né heldur öll þau rúm sem verða til staðar á nýrri sameinaðri bráðamóttöku og á gjörgæslu.
Starfsmannafjöldi á spítalanum við Hringbraut
Ýmsar tölur hafa verið á kreiki varðandi fjölda þeirra starfsmanna, nemenda, sjúklinga, gesta og annarra sem á spítalann koma.
Hér á eftir eru grófar tölur um mannfjölda á spítalanum eins og hann er núna. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á þeim tölum til ársins 2023.
Á dagvinnutíma í miðri viku er mesti fjöldi starfsmanna sem mætir til vinnu um 1.500 á Hringbraut og um 700 í Fossvogi eða samtals um 2.200 starfsmenn.
Sjúklingum sem koma á spítalann má að megninu til skipta í tvennt. Þá sem koma á bráðamóttökur spítalans sem eru 250-300 manns á dag og þá sem koma á dag- og göngudeildir sem eru 1.200 til 1.300 manns á dag (ársskýrsla LSH).
Gestir til inniliggjandi sjúklinga eru um 700 á dag og langflestir þeirra koma eftir kl. 16.00. Nemar í starfsnámi á deildum spítalans eru um 400 - 600 á hverjum tíma. Nemendur í starfsnámi eru 1.800 í heildina á heilu ári en eru ekki allir í einu á spítalanum.
Þetta eru samtals um 5- 6.000 manns sem koma á spítalann á hverjum virkum degi á 24 tímum. Til samanburðar má nefna að við HÍ og HR eru fastráðnir starfsmenn um 2.000 og skráðir nemendur a.m.k. um 15.000 og í Kringlunni eru 10-12.000 gestir á dag og milli 5-700 starfsmenn.
Umferðarmál við spítalann
Margir hafa skrifað um og rætt umferðarmál við Landspítala og látið sem Landspítalinn eigi sök á umferðarvandanum sem hrjáir alla borgina snemma að morgni og seinni hluta dags. Þetta er alrangt eins og ofangreindar tölur bera með sér. Þeir sem hafa getu til að skoða þessi umferðarmál ofan í kjölinn komast að því að Landspítalinn hefur lítið sem ekkert með umferðarálagið að gera.
Landspítalinn hefur á undanförnum árum aftur og aftur gert ferðavenjukannanir hjá starfsfólki, nemum, sjúklingum og gestum, til að ná utan um hvernig fólk ferðist til og frá spítalanum.
Starfsmenn koma í 75% tilfella á bíl í vinnuna yfir vetrarmánuðina (69% keyra sjálfir og 6% fá far með öðrum) en þeim fækkar niður í 61% á sumrin (57% keyra sjálfir og 4% fá far með öðrum) (Ferðavenjukönnun Landspítala 2016). Ef miðað er við hærri töluna, þá eru það rúmlega 1.400 manns sem koma í vinnu á Landspítala á bíl. Þessir einstaklingar eru langflestir mættir í vinnu rétt fyrir eða um kl. 8 á morgnanna og hafa því lítil áhrif á morgunumferðarteppuna austur í bæ sem tengist háskólunum.
Sama er að segja um þá 400-600 nemendur sem mæta á spítalann, 57% þeirra mæta á bíl eða fá far með öðrum en þeir mæta ekki allir klukkan átta. Það fer eftir því hvenær þeir eru í bóklegu námi í framhaldsskóla eða háskóla.
Umferðarteppan niður í bæ stendur frá 7:45 til 9:15 (stundum frá 07:30 ef umferð er þung við kópavogsbrúnna úr Garðabæ og Hafnarfirði). Allan daginn frá 09:15 þar til 07:45 næsta morgun er greiðfært (án umferðarteppu) fyrir alla umferð niður að Hringbraut auk þess sem vel yfir 100.000 manns dvelja þar, læra og starfa innan 3,5 kílómetra frá Landspítalanum á hverjum virkum degi. Enginn annar staður á höfuðborgarsvæðinu býr yfir þessum ótvíræðu kostum.
Nálægð við háskólana
Ein af ástæðunum fyrir því að Hringbraut var valin fyrir staðsetningu spítalans tengist nálægðinni við háskólana. Það er mikið gleðiefni að loksins sé verið að fara af stað með uppbyggingu heilbrigðisvísindahúss Háskóla Íslands, vísindagarða tengda líftækni og heilbrigðisvísindum í samvinnu háskólanna og Landspítala. Nýsköpun og vísindastarfsemi fær byr undir báða vængi og suðupottar nýrra hugmynda munu leiða af sér ný sprotafyrirtæki, einkaleyfi, sérfræðiþekkingu og hagvöxt þjóðinni til heilla.
Margar spurningar hafa komið upp og fullyrðingar gefnar til að reyna að afvegaleiða almenning og ná pólitískum stuðningi við nýjar staðarvalsgreiningar og hætta við framkvæmdir við Hringbraut.
- Er hægt að ljúka staðarvali, skipulagsvinnu, hönnun og byggingu nýs spítala jafn hratt eða fyrr en að ljúka uppbyggingu við Hringbraut?
Svarið er Nei. Það er mat Framkvæmdasýslu ríkisins, Skipulagsstofnunar og fjölmargra sérfræðinga að þetta muni seinka framkvæmdum um a.m.k. 10-15 ár. Nýr spítali yrði ekki tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2031-2035 ef byrjað er upp á nýtt. Öll þau dæmi sem SBSBS og fylgismenn þeirra hafa nefnt um hraðan tíma við staðarval, skipulag og byggingu spítala í Danmörku, Noregi og Bretlandi hafa verið röng og þeim samtökum bent á það aftur og aftur. Fyrirmyndarspítalinn í Hilleröd, sem hringbrautarandstæðingar hafa notað sem dæmi um hraða uppbyggingu spítala, fór í staðarákvörðun 2009 og hann verður í fyrsta lagi afhentur 2022 og er nú þegar kominn fram úr fjárhagsáætlunum.
- Sparast 60 milljarðar í samgöngukostnað við að hafa spítalann austar í borginni eins og sumir halda fram?
- Svarið eru Nei. Útreikningar sem voru lagðir til grundvallar voru kolrangir, bæði hvað varðar fjölda bílferða eins og áður var rakið, vegalengdir starfsfólks frá vinnustað, vegalengdir notenda, fjölda daga sem reiknað var með sem og kostnað á hvern kílómetra.
- Er betra að byggja hærra upp í loftið en þær 6 hæðir auk kjallara sem eru í meðferðarkjarna við Hringbraut?
Svarið er Nei. Þessi rök voru oft notuð gegn staðsetningu við Hringbraut af því að þar sé ekki hægt að byggja hærra út af flugvellinum. Þótt erfitt sé að líkja sjúkrahúsi við hefðbundna verksmiðju, þá er margt líkt með vinnuferlum og þar. Mikill kostur er að brjóta ekki upp einstaka einingar á milli hæða eins og gjörgæslu, myndgreiningar og skurðstofur. Staðreyndin er sú að flestar þjóðir í Evrópu byggja nýja spítala á breiddina. Markmiðið með slíkum byggingum er að ná sem mestu hagræði fyrir sjúklinga og minnka alla flutninga með þá upp og niður í lyftum. Nútíma spítali notar róbóta til að annast flutninga á lyfjum, þvotti og öðrum vörum á milli staða og hver deild er meira og minna sjálfbær með sína starfsemi. Meðferðarkjarninn verður á 7 hæðum sem er mjög sambærilegt og nýjar spítalabyggingar á Norðurlöndum.
Samantekt
Í þessari samantekt eru dregin fram helstu atriði varðandi undirbúning framkvæmda við áframhaldandi uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Öllum spurningum er langt í frá svarað, en reynt að drepa á því helsta og leiðrétta alvarlegustu athugasemdirnar og rangfærslurnar sem komið hafa fram.
Hringbrautarverkefni Landspítalans er gríðarlega umfangsmikið og hefur staðsetningin við Hringbraut verið endurmetin nokkrum sinnum frá því ákvörðun var tekin um staðsetningu árið 2003. Ef fara á í þessa vinnu enn einu sinni þarf fyrst að fara í val á ráðgjöfum, innlendum og erlendum og búa til þær forsendur sem vinna skal eftir. Það þarf að ræða við fjölda hagsmunaaðila áður en þær forsendur eru settar fram og það vinnst ekki nema í nánu samstarfi við stærstu hagsmunaaðilana svo sem Landspítala, heilbrigðisyfirvöld, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Vegagerðina, Orkuveitu Reykjavíkur, Strætó og svo síðast en ekki síst framkvæmdavaldið og Alþingi, svo nokkrir aðilar sé taldir upp. Svona verkefni um nýtt óháð og faglegt staðarval tekur að lágmarki eitt til tvö ár ef t.d. er miðað við reynslu af sambærilegum verkefnum. Þingsályktunartillaga sem liggur fyrir um að fara enn og aftur í svokallaða óháða, faglega staðvalsgreiningu og ljúka þeirri vinnu í maí 2018, fyrir borgarstjórnarkosningar, lýsir vel skilningsleysi flutningsmanna þingsályktunartillögunnar.
Frá því árið 2001 er búið að vinna að þessu verkefni mjög faglega og ýmsar forsendur verið endurskoðaðar og aðlagaðar að þörfum og viðhorfum á hverjum tíma. Ávallt frá árinu 2002 hefur niðurstaða aðila verið sú, að besta staðsetningin sé við Hringbraut þar sem LSH er með stærstan hluta starfseminnar í dag.
Biðtími eftir nýjum spítala er orðin allt of langur, en mundi lengjast um a.m.k.10-15 ár ef byrja á upp á nýtt. Fjárfesting sem tapast er upp á marga milljarða króna og algjörlega útilokað að sjá það fyrir að ný staðsetning réttlæti það tjón, ekki eingöngu fjárhagslegt, sem heilbrigðiskerfið og almenningur mun verða fyrir. Auk þess væru skuldbindandi samningar í uppnámi. Ef ekki er góð samstaða um verkefnið hjá ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og fjármagn tryggt til verksins við uppbyggingu á nýjum stað nánast frá upphafi til enda, þá verða tafir enn meir, jafnvel 20 ár. Verkefnið væri í raun í algjörri óvissu. Starfsfólk, sjúklingar og allur almenningur mundi líða fyrir þessa töf og starfsmenn í meira mæli hverfa til annarra starfa hér á landi eða erlendis. Kjarnastarfsemi íslenskrar heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisvísinda og kennslu væri verulega ógnað.
Þegar á reynir verður sú leið að sjálfsögðu ekki farin að hefja byggingu nýs Landspítala á nýjum stað. Niðurstaða skoðunar á því getur ekki orðið önnur en að halda áfram með verkefnið við Hringbraut. Það verður aftur á móti verulegt tjón og ekki síst áfall fyrir starfsmenn og aðra sem standa að þessu verkefni, ef það er sett út af sporinu þótt ekki sé nema í nokkur misseri. Það er full ástæða til að vara við lýðskrumi eða falsfréttum um þetta verkefni þar sem samfélagsmiðlar og fjölmiðlar eru nýttir til hins ýtrasta. Fyrir faglega og lýðræðislega vinnu og ákvarðanatöku m.a. á Alþingi má slíkt ekki gerast. Hitt er svo annað mál að sjálfsagt er að fara að vinna við það að meta og taka frá stað fyrir annan spítala og heilbrigðistengda þjónustu sem yrði annars konar en bráðasjúkrahús og háskólasjúkrahús. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.
Þorkell Sigurlaugsson er viðskiptafræðingur og Hans Guttormur Þormar er líffræðingur, vísinda- og uppfinningamaður.