Það er merkileg lunda hjá stjórnarliðum að kalla það pólitískt skítkast að spyrja þá eðlilegra spurninga um stórmál sem gerast í íslenskri stjórnsýslu. Á Alþingi í vikunni spurði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar einn þriggja leiðtoga ríkisstjórnarinnar, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra einfaldrar spurningar og fékk yfir sig það svar að hann væri með pólitískt skítkast.
Spurningin var einföld. Vissi Bjarni Benediktsson af því að verið væri að flytja hergögn ýmist í gegnum íslenska lofthelgi eða með íslenskum flugvélum. Bjarni gat brugðist við spurningunni á tvo vegu. Játandi eða neitandi. Vissi hann þetta eða vissi hann það ekki. Hann var forsætisráðherra þar til síðla árs 2017. Hann er fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en ráðherra þess flokks fór fyrir samgönguráðuneyti í síðustu og þarsíðustu ríkisstjórn, en um er að ræða ráðuneyti Samgöngustofu sem veitir leyfi til hergagnaflutninga íslenskra flugfélaga. Það er því fullkomlega eðlilegt að spyrja hann að því hvað hann vissi um þessa flutninga sem áttu sér stað með sérstakri undanþáguheimild íslenskra stjórnvalda. Slíka undanþáguheimild þurftu íslensk stjórnvöld að veita vegna þess að meginreglan er að slíkur hergagnaflutningur sé með öllu óheimill. Ísland er herlaust land. Við höfum skyldum að gegna í alþjóðasamstarfi og því hvílir skylda á íslenskum stjórnvöldum að hafa eftirlit með hvaða undanþáguheimildir er verið að veita gegn meginreglum alþjóðasamninga sem við höfum fullgilt. Í því tilviki sem hér er um að ræða hefur Samgönguráðherra framselt vald sitt til Samgöngustofu sem afgreiddi leyfið án aðkomu ráðherra fram í október sl þegar starfsmaður stofnunarinnar ákvað að spyrja ráðuneytið út í hergagnaflutninga til Venesúela. Um var að ræða táragas sem flytja skyldi þangað og þá kveiknuðu að því er virðist í fyrsta sinn, viðvörunarbjöllur sem gerði það að verkum að ákveðið var að bera þessa leyfisveitingu undir samgönguráðuneytið. Samgönguráðuneytið leitaði álits utanríkisráðuneytis sem gaf neikvæða umsögn og því var leyfi til lendingar hér á landi með farminn ekki veitt. Höfðu þá hergagnaflutningar staðið yfir án afskipta ráðherra amk. frá árinu 2008 og mögulega fyrr.
Vert er að benda á að fjallað hefur verið um þessa flutninga í erlendum fjölmiðlum. Þrátt fyrir það hafi íslensk stjórnvöld ekkert gert til að rannsaka hvað átt hefur sér stað með þeirra leyfi. Íslenskir ráðamenn geta ekki skýlt sér á bakvið að þeir vissu ekkert af þessu. Stjórnvöld hafa rannsóknarskyldu. Þeir hafa eftirlitsskyldu og það er óboðlegt að ráðuneyti fylgist ekki með hvort farið sé á svig við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands með veitingum leyfa á undanþágu. Hver er staðan með aðra alþjóðasamninga? Telja íslenskir ráðamenn mögulega betra að spyrja ekki, svo hægt sé að skýla sér á bakvið það að þeir hafi bara ekkert vitað?
Í þessu eins og öðru er svo ekki hægt að agnúast út í þá sem í dag gagnrýna þessi vinnubrögð og spyrja spurninga. Það er okkar skylda að tryggja að stjórnkerfið virki og starfað sé eftir lögum og reglum og það verða ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur bara að sætta sig við.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.