Jákvæð og góð líkamsmynd hefur verið tengd við góða líðan og heilbrigði. Mikilvægt er að stuðla að bættri líkamsmyndar hjá börnum og unglingum þar sem algengi slæmrar líkamsmyndar er ennþá nokkuð há hér á landi þótt vísbendingar séu um örlitlar breytingar til batnaðar í þeim málum.
Rannsóknir sýna að þær fyrirmyndir sem börn og unglinga hafa t.d úr teiknimyndum, tónlistarmyndböndum og Instagram geta haft mikil áhrif á þróun líkamsmyndar og líðan.
Mikil áhersla er lögð á grannan og/eða stæltan líkamsvöxt og má rekja þróun slæmrar líkamsmyndar til þess og hve ólíkt það útlit er raunverulegu útliti barna og unglinga. Mjög fá börn líkjast sínum fyrirmyndum og eru því mörg börn að bera sig saman við útlit sem fæst þeirra geta nokkurn tímann öðlast.
Börn og unglingar fá daglega skilaboð frá samfélaginu um hvaða útlit og vaxtarlag þykir fallegra og eftirsóknarverðara en annað. Umræður um útlit og mikilvægi þess og neikvætt umtal um aukakíló ná til barna. Fitu- og útlitstal á heimilinu fara einnig sjaldnast fram hjá börnum.
Fræðimenn hafa einnig velt fyrir sér áhrifum leikfanga og sögupersóna í barnaefni og áhrif þeirra á mótun líkamsmyndar, þar sem börn og unglingar bera sig saman við þær persónur. Útlit þessara persóna er ólíkt útliti flestra, til að mynda eiga mörg börn Barbie dúkku en telja má nær ómögulegt fyrir börn að líta út líkt og Barbie dúkka. Svipað má segja um bardagamennina sem börn jafnan leika sér með og áhrif þeirra á líkamsmynd.
Undanfarna ártugi hefur útlit ýmissa leikfanga breyst og orðið mun óraunhæfari; Barbie hefur grennst, G.I Joe er mun vöðvameiri en hann var áður og Pony hestarnir frægu hafa greinilega verið sendir í megrun. Star Wars persónur, Turtles Ninjurnar og X-man hetjur hafa einnig gjörbreyst á undanförnum árum. Leikföng og barnaefni sem er sérstaklega markaðssett fyrir drengi hefur stækkað og vöðvamassinn aukinn til muna. Efni sem markaðssett er fyrir stúlkur eins og Barbie og Pony hefur á sama tíma breyst mikið. Barbie hefur grennst og fríkkað og Pony hestarnir góðu hafa grennst, lengst og fengið vel „beauty filterað“ andlit.
Rannsóknir benda til þess að þetta óraunhæfa útlit leikfanga og persóna í barnaefni geti haft neikvæð áhrif á líðan. Börn lýsa t.d meiri óánægju með eigin líkamsvöxt eftir örstuttan leik með grönnu Barbie dúkkunum meðan sömu áhrif finnast ekki þegar börn leika með annars konar dúkkur. Svipaðar niðurstöður hafa fundist í rannsóknum á bardagamanna leikföngum.
Ólíkt hugmyndum margra þá eru endalausu skilaboðin um hinn fullkomna granna og stælta líkama ekki hvati til heilbrigðari lífshátta. Skilaboðin geta ýtt undir þróun slæmrar líkamsmyndar sem hefur áhrif á heilsu og lífsvenjur. Þessi slæma líkamsmynd getur til að mynda haft þau áhrif að við hugsum verr um líkama okkar og grípum til óheilbrigðra megrunaraðgerða sem hafa slæm áhrif á heilsu og líðan, bæði til lengri og skemmri tíma. Einnig getur slæm líkamsmynd ýtt undir kvíða, þunglyndi og leitt til annarra geðrænna vanda.
Þar sem jákvæð líkamsmynd er mjög mikilvæg fyrir bætta líðan og heilsu barna er nauðsynlegt að skoða betur tengsl þeirra skilaboða sem börn og unglinga fá frá samfélaginu og áhrif þeirra á þau.
Þriðjudaginn 13. mars fögnum við Degi líkamsvirðingar. Í tilefni af deginum verður boðið upp á ókeypis fræðslu á Cafe Meskí kl. 20:00 um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir.
Verið öll velkomin!
Höfundur er sálfræðikennari og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu.