Mál sem snertir mig
Ég þekki þessi mál vel af eigin reynslu. Sonur okkar átti við forhúðarsýkingar að stríða ítrekað frá 7 ára aldri. Meðferð með sterakremi og sýklalyfjakremi, fyrst á Íslandi og síðar í Þýskalandi, bar ekki árangur. Læknarnir í Þýskalandi sannfærðu okkur um að forhúðin þyrfti að fara, annars gætu sýkingarnar valdið verulegum vandræðum.
Læknirinn á barnaskurðstofu spítalans sagði okkur að þeir gerðu þrjá umskurði á hverjum virkum degi. Samtals eru það meira en 600 umskurðir á ári. Flestir eru af heilsufarsástæðum eins og hjá okkur, en mjög löng eða þröng forhúð getur verið arfgeng. Aðrir umskurðir eru vegna trúar- eða menningarhefða og þá þurfa foreldrar að bera kostnaðinn.
Staðreyndir um umskurð
Eins og nær allir drengir af minni kynslóð sem eru fæddir í Bandaríkjunum – hvað sem trú eða trúleysi líður – er ég sjálfur umskorinn. Það hræddi mig því ekki að þurfa að láta umskera son minn.
Umskurður er stundum forvarnaraðgerð og stundum umskiptaathöfn (e. rite of passage). Í gegnum aldirnar hafa margir og margvíslegir menningahópar umskorið drengi. Umskurður er mjög algengur í dag í Bandaríkjunum, Afríku, Kóreu, og Filippseyjum og þekkist líka í öðrum engilsaxneskum löndum. Þar líta margir málsmetandi læknar á hann sem forvarnarráðstöfun sem kemur í veg fyrir þjáningu og sjúkdóma seinna á ævinni hjá ákveðnu hlutfalli stráka. Þá er umskurður hluti af íslamskri menningu, gyðingdómi sem og menningu kristinna í norðausturhluta Afríku. Forvarnargildi umskurðar er samofið menningarlegu gildi hans. Mann grunar að umskurður hafi fest sig í sessi sem hefð hjá ákveðnum trúarhópum vegna þess að hann minnkar tíðni sjúkdóma.
Hefur umskurður drengja heilsufarslega kosti nú sem fyrr? Já. Það viðurkenna jafnvel læknar sem eru á móti umskurði. Helsti kosturinn er að hann kemur í veg fyrir sýkingar í typpinu og forhúðinni (e. balanitis og posthitis). Í stuttu máli: Hefði sonur minn fæðst í Bandaríkjunum og verið umskorinn fljótlega eftir fæðingu, hefðum við ekki þurft að ganga í gegnum þetta sársaukafulla ferli þegar hann var orðinn eldri. Er hægt að meðhöndla svona sýkingar án þess að grípa til umskurðar? Oft, en alls ekki alltaf.
Og umskurður hefur fleiri kosti. Krabbamein í typpinu er sjaldgæft krabbamein, en það er algengara meðal óumskorinna karlmanna. Þá eru áreiðanlegar rannsóknir sem sýna að umskurður lækkar tíðni alnæmis (sérstaklega vegna smits við kynmök), sem og tíðni fáeinna annarra kynsjúkdóma. Vegna þessa hefur umskurður drengja orðið algengari í Afríku undanfarin ár.
Er umskurður nýfæddra drengja hættulegur eða skaðlegur? Aðgerðinni fylgir einhver hætta á sýkingum – en það á við um allar aðgerðir. Þessi hætta er þó minni háttar í vestrænum samfélögum. Augljóslega er aðgerðin sársaukafull án deyfingar. Nú til dags fer aðgerðin vanalega fram með deyfingu á spítölum. Aðgerðin sjálf, á nýfæddum drengjum og í höndum fagmanna, er frekar lítið mál. Svo hefur umskurður ekki áhrif á kynlíf (ólíkt „umskurði“ kvenna), og engin neikvæð áhrif á lífið yfirleitt. Milljónir umskorinna Bandaríkjamanna lifa góðu lífi og sakna forhúðar sinnar ekki neitt.
Vega kostir eða gallar þyngra?
Stór spurning í umræðunni um umskurð er hvort heilsufarslegir kostir umskurðar seinna í lífinu (sem eru, tölfræðilega, minniháttar) vega þyngra en ókostir aðgerðarinnar (sem eru líka minniháttar).
Hlutlægt svar við þessari spurningu er erfitt að finna. Það er hægt að færa rök með og á móti og skoðanir lækna virðast oft fara eftir uppruna og tilfinningum, hérlendis sem annars staðar. Margir læknar segja að jákvæðar afleiðingar umskurðar réttlæti það að umskera alla drengi eftir fæðingu. Aðrir segja að ávinningur þess að umskera sé ekki nógu mikill. Þegar tilgangurinn er að hræða fólk segja þeir stundum hryllingssögur um staka umskurði sem mistókust, en þessar sögur líkjast þeim sem við heyrum frá andstæðingum bólusetningar. Allir geta líka gúglað hryllingsljósmyndir um forhúðarsýkingar.
Kanadíska heilbrigðiskerfið gerði fyrir nokkrum árum ítarlega og vandaða skýrslu um umskurð drengja. Í lokaorðum þeirrar skýrslu er komist að þeirri hófstilltu niðurstöðu að kostir og gallar þess að umskera jafnast meira eða minna út. Kanadískir foreldrar eigi því að ákveða hvað þeim finnist best fyrir börnin sín, en kerfið ætti ekki að þrýsta á þá til að gera annað eða hitt. Þessi stefna er reist á vísindalegum rannsóknum og hefur þann aukakost að hún skapar ekki andúð þeirra menningarhópa sem eru með langa hefð fyrir umskurði.
Þessi umræða bendir til mótsagnar í frumvarpinu. Flutningsmenn þess vilja banna umskurð nema „af heilsufarslegum ástæðum.” En sumir læknar telja að heilsufarsástæður mæli alltaf með því að umskera nýfædda drengi.
Andstaða við umskurð á Norðurlöndum
Síðustu ár hefur átt sér stað herferð gegn umskurði drengja á Norðurlöndum. Mig grunar að vanþekking, misskilningur og sleggjudómar leiki hér stórt hlutverk. Fáir karlmenn á Norðurlöndunum eru umskornir og fáar konur hafa þekkt umskorna karlmenn. Fólk virðist upplifa umskurð sem eitthvað mjög framandi og ógnandi, og virðist ekki skilja muninn á „umskurði“ drengja og stúlkna.
Öfl sem höll eru undir útlendingaandúð og/eða þjóðernishyggju láta oftar en ekki rödd sína heyrast hæst í þessum efnum. Umræðan nú ber því miður þjóðernissinnaðan keim, sem ég tel hættulegan. Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er til dæmis vísað til „gyðinga og múslima“ en þess er ekki getið að að flestir drengir í Afríku eða Bandaríkjunum eru umskornir, af ástæðum sem tengjast ekki trú. Fjölmargir drengir sem tilheyra hvorki trúfélögum múslima né gyðinga eru umskornir á hverju ári. Samt setur RÚV aftur og aftur ljósmyndir af rétttrúuðum rabbínum við fréttir um umskurð.
Viðhorfið til umskurðar innan heilbrigðisstéttarinnar á Íslandi virðist frekar þröngt. Það hefur til dæmis lengi verið grein á Vísindavefnum eftir hjúkrunarfræðing sem leggst eindregið gegn umskurði. Í greininni er tekið mjög djúpt í árinni en myndin sem þar er dregin upp samrýmist engan veginn minni upplifun (ekki frekar en milljóna umskorinna karlmanna um allan heim). Hún verður að flokkast sem áróður frekar en miðlun vísinda. Höfundur hennar virðir fjölda vísindalegra greina og rannsókna beinlínis að vettugi.
Háttvirtu Alþingismenn, ég hvet ykkur til að sækjast eftir dýpri, víðsýnni og hlutlægari þekkingu á umskurði drengja. Þetta kann að virðast ykkur einfalt og lítið mál, en svo er ekki – langt í frá.
Hvað eigum við að gera?
Fyrir tveimur árum lagði þingmaður fram fyrirspurn um umskurð til heilbrigðisráðherra (sjá 145. löggjafarþing, 539. mál). Ráðherrann var þeirrar skoðunar að það ætti alltaf að nota deyfingu við umskurð á nýfæddum drengjum, og einnig að umskurður ætti ávallt að fara fram á spítölum, ekki í heimahúsum. Þetta er hófstillt skoðun sem nánast allir geta tekið undir. Svona eru reglurnar víða, til dæmis í Þýskalandi.
Regla af þessu tagi er í eðlilegu samræmi við vísindalegar framfarir. Á tuttugustu öld töldu heiðarlegir læknar, í góðri trú, að umskurður væri best framkvæmdur án deyfingar. Þeim fannst skammvinnur sársauki ásættanlegt verð fyrir heilsufarskosti umskurðar. Í dag eru vísindamenn meðvitaðri um sársaukann sem nýfæddir drengir upplifa við aðgerðina. Ef við höldum að sársaukinn sé of mikill, þá eru réttmæt viðbrögð ekki að banna umskurð. Við eigum frekar að krefjast þess að sársaukanum sé haldið í lágmarki þegar aðgerðin fer fram. Í rauninni er þetta þegar gert hérlendis.
Að öðru leyti eiga íslenskir foreldrar sem ákveða að umskera drengi sína að vera lausir við áhyggjur um að lenda á Litla-Hrauni. Þeir sem hafa illan bifur á umskurði þurfa hvorki að umskera börnin sín né styðja umskurð að öðru leyti.
Ég er ekki að segja að Íslendingar ættu að byrja að umskera drengi sína, jafnvel þótt það feli í sér kosti. Ég var (og er) alveg sáttur við að það er engin hefð fyrir umskurði á Norðurlöndunum. Sem faðir fylgdi ég íslenskum venjum og lét ekki umskera nýfæddan son minn. En ég myndi ekki heldur lýsa umskurði sem hræðilegum, óskiljanlegum, eða óréttlætanlegum.
Umskurður nýfæddra drengja er hvort eð er svo sjaldgæfur á Íslandi að bann við honum væri táknrænt. Þeir örfáu foreldrar sem kjósa að umskera drengi sína eftir fæðingu fara til útlanda til þess, og myndu halda því áfram væri bann í gildi.
Óskynsamleg rök á móti
Ég las frétt þar sem sagði að umskornir drengir „geti upplifað kvíða og einangrun“ á Íslandi vegna þess að þeir eru ólíkir öðrum. En þetta eru ónothæf rök á móti umskurði. Jafnvel þótt við bönnum umskurð án heilsufarsástæðna verða sumir strákar á Íslandi alltaf umskornir, annaðhvort vegna sýkinga eða vegna þess að þeir fæddust erlendis. Það kallar ekki á að banna umskurð og þar með stigmatísera þessa stráka enn meir, heldur á smá fræðslu um að líkamar eru margvíslegir – og að það er í lagi að ekki séu allir eins!
Sú hugmynd að umskurður brjóti „gegn réttindum ungra drengja“ og að við eigum að „virða sjálfsákvörðunarrétt barna og banna umskurð á drengjum nema í þeim tilvikum sem drengur, sem náð hefur nægilegum aldri og þroska til að skilja hvað felst í aðgerðinni, veitir samþykki sitt“ er sjálfsagt vel meint en ekki minni rökleysa fyrir það.
Einn vandinn við þessa hugmynd er að ákvörðun fullorðins karlmanns um að láta umskera sig er allt annars eðlis en ákvörðun foreldra um nýfæddan son sinn. Hjá nýburum er aðgerðin minna mál og drengirnir muna ekki eftir henni. Aðgerðin á eldri börnum eða fullorðnum fer fram í fullri svæfingu og krefst þess að tekið sé frí frá skóla eða vinnu í allt að viku. Ef við bönnum umskurð nýfæddra drengja, þá erum við, í nafni sjálfsákvörðunarréttar, í rauninni að reyna að útrýma umskurði og banna þá heiðarlegu skoðun að hann bæti lýðheilsu.
Að umskera eða umskera ekki er auk þess ekki eina ákvörðunin sem foreldrar taka, óhjákvæmilega, um líkama barna sinna. Með því að umskera nýfæddan dreng eru foreldrar að „brjóta gegn réttindum hans“ á svipaðan hátt og þeir gera með því að bólusetja hann, láta fjarlægja hálskirtla, setja rör í eyru, gefa lyf sem hafa mögulegar aukaverkanir, gefa börnum vatn eða tannkrem með flúor, eða kaupa lýsi. Allar þessar ákvarðanir eru umdeilanlegar og hafa kosti og galla. Í öllum slíkum tilfellum eru foreldrarnir þó að reyna að veita barninu réttindi til að lifa með minni áhættu á alvarlegum sjúkdómum eða fötlunum. Þess vegna tökum við foreldrar áhættu af þessu tagi. Og af þeim sökum gengur frumvarpið alltof langt með því að segja að umskurður sé einfaldlega „brot á mannréttindum drengja.“
Auk þess bendir ekkert til að þeir þingmenn, sem vilja banna umskurð á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar, telji rétt að banna líka aðrar líkamsbreytingar á ósjálfráða börnum. Að gata eyrun hefur ekkert heilsufarslegt gildi en felur í sér talsverða hættu á fylgikvillum. Að lengja háls ungra stúlkna með málmhringjum (eins og í norðvesturhluta Taílands) bætir ekki heilsu þeirra og er ekki óalgengara á Íslandi en umskurður nýfæddra drengja. Að einblína á umskurð drengja og jafnvel refsa með sex ára fangelsisvist (meira en brennuvargar eða bankastjórar fá!) bendir til þess að fordómar og útlendingaandúð séu frekar á ferð hér en gagnrýnin hugsun.
Lokaorð
Umskurður drengja er löglegur í öllum löndum heims. Svo virðist sem sumir hérlendis taki því með sérstöku stolti að Ísland verði hugsanlega fyrst ríkja til að samþykkja bann. Slíkt væri þó mun meiri hneisa fyrir Ísland heldur en margur hér virðist gera sér grein fyrir. Hin Norðurlöndin og Þýskaland hafa hafnað tilraunum til að banna umskurð. Í Noregi var það aðallega Framfaraflokkurinn (flokkur hægriöfgamanna sem er á móti innflytjendum) sem beitti sér fyrir banni. Ef Ísland verður eina landið til að banna umskurð, mun það ekki sýna okkur Íslendinga í góðu ljósi.
Frekar hófsamur læknir að nafni Andrew Freedman birti pistil í tímaritinu Pediatrics árið 2016 um umskurð. Hann ráðlagði þeim sem eru á móti umskurði að nálgast málið ekki með reiði, dómsmálum, átökum, lagafrumvörpum, fordómum, bönnum, eða ýkjum. Þeir sem vilja vinna gegn umskurði drengja ættu frekar að nota orku sína á jákvæðan hátt. Þeir mættu reyna að hafa áhrif á þá sem vilja halda í umskurð með uppbyggilegum hætti og gagnkvæmri virðingu, ekki sleggjudómum og glæpavæðingu. Ef það er vinsælt að hafa forhúð, þá mun fólk halda í hana. Á Íslandi hefur forhúðin alltaf verið vinsæl og sigur hennar örugglega í höfn.
Í rauninni efast ég um að umskurður drengja sé nokkurt vandamál á Íslandi. Til hvers er frumvarpið þá? Alþingi ætti að sinna málum sem raunverulega herja á íslensk börn og foreldra og grafa undan réttindum þeirra á hverjum degi. Það væri óskandi að jafn öflug og dýnamísk umræða færi fram um raunveruleg brot gegn börnum og sú sem nú hefur logað á Íslandi um umskurð drengja.
Höfundur er dósent við NTNU, norska tækni- og vísindaháskólann.