Það að mæður telji sig rétthærri og geti stjórnað hvort og þá hvernig barn nýtur samvista við föður sinn er gegnumsýrt í samfélaginu. Sorglegra er að samfélagið og ekki síður lagabókstafurinn verðlaunar þessa ofbeldisseggi, á kostnað barns. Mæður velja að nota börn eins og hvert annað vopn vitandi að þær hitta viðkvæmasta punkt föður, barnið. Hnífsoddur beint í hjartastað.
Konur fóru mikinn með átakinu ,,#metoo“ og höfnuðu ofbeldi, órétti og kynferðislegri áreitni. Innan um allar þessar konur leynast þær sem beita barn ofbeldi í formi tálmunar. AF hverju spyr ég, sem móðir og amma, láta konur eins og ekkert sé að í málaflokknum þegar nánast hver fullorðin manneskja í landinu þekkir til tálmunarmáls. AF hverju hundsa konur ofbeldi kynsystra sinni á þennan hátt. AF hverju rísa alþingismenn ekki upp, allir sem einn, og hafna ofbeldinu sem börn þurfa að búa við. AF hverju hafa sýslumenn ekki tekið til í málaflokknum og þeim þáttum sem snúa að börnum sem lenda á milli í deilumála foreldra sinna. AF hverju líðst konu að kæra föður um alls kyns áreiti og kynferðilega misnotkun á barni til að ná sér niðri á honum. AF hverju taka dómstólarnir sig ekki á og flýta málum sem snerta börn. Af hverju þarf forsjárdeila að taka mörg ár...AF hverju, AF hverju!
Kæru þingmenn, mæður og ömmur stöðvum ofbeldið.
Tálmunarmenning er svo algeng hér á landi að móður og ömmuhjartað finnur til. Tálmunarmenning lifir nánast óáreitt í reglum og lögum af því of fáir þingmenn þora að taka á málinu. Tálmunarmenning lifir af því margir samþykkja slíkt ofbeldi. Tálmunarmenningu á að uppræta með góðu eða illu, mér þykir það einfalt. Tálmun er heimilisofbeldi sem móðir beitir í langflestum tilfellum. Tálmun er ofríki sem á ekki að launa.
Ég skora á þingmenn að taka á honum stóra sínum og hjálpa börnum að komast undan slíku ofbeldi. Ekki vantar viljann eftir #metoo skriðuna þegar konur eru annars vegar. Hver passar upp á börnin í ofbeldisaðstæðum? Eru það þið kæru þingmenn.
Höfundur er grunnskólakennari, móðir og amma.