Það er merkilegt hvað stjórnvöldum hefur gengið illa að koma böndum á smálánafyrirtækin. Þau hafa einhverra hluta vegna ekki verið gerð starfsleyfisskyld og falla því ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins eins og eðlileg væri. Þessi fyrirtæki hafa komist upp með að okra á neytendum með ólöglegum hætti en þau láta dómsúrskurði ekkert á sig fá. Þau breyta bara um nafn og kennitölu, breyta flýtigjaldi í rafbók og halda ótrauð áfram.
Ekki er síður alvarlegt hversu auðvelt er að taka lán í nafni annarrar manneskju og það eru svikahrappar að nýta sér. Neytendasamtökin hafa fengið slík mál inn á borð til sín og líta þau mjög alvarlegum augum. Það ætti auðvitað ekki að vera mögulegt að taka lán í nafni annarrar manneskju með einungis kennitölu og bankaupplýsingar að vopni en þegar smálánafyrirtækin eru annars vegar virðist allt hægt.
Það liggur fyrir að regluverkið í kringum smálánafyrirtækin er ófullnægjandi og úrræðin gagnvart þeim duga skammt. Neytendastofa hefur til dæmis lagt stjórnvaldssektir á fyrirtækið E content sem rekur Múla, 1919, Hraðpeninga, Smálán og Kredia. Ekki liggur fyrir hvort þessar sektir hafi verið greiddar en Neytendasamtökin hafa ítrekað reynt að fá úr því skorið. Eftir því sem næst verður komist heitir E content núna eCommerce og er með aðsetur í Danmörku.
Á hverjum degi eru smálánafyrirtækin að veita neytendum lán sem Neytendastofa og áfrýjunarnefnd neytendamála hafa úrskurðað að brjóti í bága við lög um neytendalán þar sem kostnaður við lánin fer yfir löglegt viðmið. Stjórnvaldssektir, ítrekaðir úrskurðir og jafnvel niðurstaða dómstóla um lögbrot fyrirtækjanna duga skammt. Ekkert virðist fá þau stöðvað og þessi þrautseigja væri allt að því aðdáunarverð ef ekki væri fyrir alvarleika málsins. Og hann er sá að stjórnvöld hafa algerlega sofið á verðinum og ekki tryggt þá réttarvernd sem neytendur eiga rétt á lögum samkvæmt.
Stjórnvöldum hefur fyrir löngu verið bent á að fara sömu leið og nágrannaþjóðirnar og gera starfsemi smálánafyrirtækja leyfisskylda. Sú aðgerð er tiltölulega einföld og fljótleg. Það er ekki eftir neinu að bíða og reyndar löngu tímabært að hagsmunir neytenda séu tryggðir í viðskiptum þeirra við smálánafyrirtækin.
Höfundur er framkvæmdarstjóri Neytendasamtakanna.