Segjum að fyrirtæki hyggist selja leikjatölvur. Mikil eftirspurn er meðal almennings eftir leikjatölvum en fyrirtækið hefur ekki áhuga á því að selja beint til einstaklinga. Hvers vegna sóa dýrmætum tíma í að ræða við þúsundir kaupenda, þegar hægt er að gera nokkra risasamninga við stórfyrirtæki og ná sömu tekjum – en með talsvert lægri kostnaði. Það þyrftu einungis örfá fyrirtæki að ákveða að kaupa leikjatölvur fyrir starfsmenn sína til þess að salan stæði undir sér. Skothelt.
Þegar á hólminn er komið kemur aftur á móti í ljós að fæst stórfyrirtæki hafa áhuga á því að kaupa leikjatölvur. Fyrirtækið gefst ekki strax upp, heldur áfram að reyna og nær að selja einu og einu starfsmannafélagi nokkrar tölvur. Að lokum kemst fyrirtækið að þeirri niðurstöðu að markaðurinn sé ómögulegur, hættir eða flytur starfsemi sína til annars lands.
Fjarstæðukennt? Í reynd ekki. Velkomin í fjármögnunarumhverfi smárra og millistórra fyrirtækja á Íslandi. Í stað leikjatölvu erum við með fjárfestingar og í stað stórfyrirtækja erum við með stóra fjárfesta, hvort sem það eru bankar, lífeyrissjóðir, sjóðir eða aðrir fagfjárfestar. Flestir stórir fjárfestar virðast einmitt ekki hafa mikinn áhuga á litlum fjárfestingum, rétt eins og stórfyrirtæki hafa takmarkaðan áhuga á leikjatölvum. Sömu sögu er að segja á alþjóðavísu.
Lausnin á vanda leikjatölvuseljandans blasir væntanlega við flestum lesendum. 1) Að selja til einstaklinga, frekar en fyrirtækja. 2) Styðjast við almenna markaðssetningu, frekar en að reyna að semja við hvern og einn viðskiptavin, og ná þannig til ótal kaupenda í einu. Sömu nálgun má vissulega heimfæra á fjármögnun margra smárra og millistórra fyrirtækja.
Af einhverri ástæðu hefur lausnin á vanda smáu og millistóru fyrirtækjanna ekki talist jafn augljós og við sölu á leikjatölvum. Á Íslandi ríkir engu að síður góðæri, talsvert af fjármagni er í umferð og margir einstaklingar hafa sýnt því áhuga að taka þátt í spennandi sprotafyrirtækjum. Gagnsæi, traust og fagleg umgjörð eru aftur á móti lykilforsendur fyrir aðkomu almennings að fjárfestingum. First North markaður Nasdaq á Íslandi hefur alla þessa eiginleika og getur auk þess veitt fyrirtækjum dýrmætan sýnileika, innanlands sem og á alþjóðavísu og skapað þeim þannig sess meðal framsæknustu fyrirtækja heims hjá Nasdaq.
Þrátt fyrir þetta hefur First North markaðurinn á Íslandi enn sem komið er ekki náð miklu flugi. Sömu sögu er ekki að segja af systurmarkaðnum í Svíþjóð, sem telst nú einn virkasti hlutabréfamarkaðurinn í Evrópu fyrir smá og millistór fyrirtæki. Þekkt er að smá og millistór fyrirtæki séu einn helsti drifkraftur hagvaxtar og atvinnusköpunar og því kemur ekki á óvart að Svíþjóð tróni einnig á toppnum yfir mesta fjölda vaxtafyrirtækja í Evrópu miðað við höfðatölu.
Með nýlegum skráningum Klappa Grænna Lausna og Kviku banka hafa augu margra opnast fyrir þessum möguleika hér á landi. Standa því vonir til þess að fjölga muni hratt á íslenska First North markaðnum á komandi árum. Fyrsta skrefið er hreinlega að smá og millistór fyrirtæki taki af skarið og notfæri sér þessa leið. Fjármagnið er til staðar, en eins og við sölu á leikjatölvum þarf að finna rétta markhópinn og réttu nálgunina.
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.