Nú tala ég ekki fyrir miðstjórn – það gerir Gylfi Arinbjörnsson, en á hinn bóginn sit ég í miðstjórn Alþýðusambandsins og er því einn þeirra sem afþakkaði fundarboðið. Mér finnst rétt að gera grein fyrir afstöðu minni – þó Gylfi hafi reyndar farið prýðilega yfir sjónarmiðin í viðtölum.
Tilgangur þjóðhagsráðs átti að vera að eiga „samtal“ um stjórn efnahagsmála og nú með breytingu – velferðarmála. Þjóðhagsráðið átti ekki að stjórna neinu – heldur eiga samtal um félagslegan stöðugleika. Verkalýðshreyfingin hefur áratuga reynslu af „samtölum“ við stjórnvöld. Síðustu ár hafa þessi samtöl ekki skilað miklum árangri og t.d. ákvörðun ríkisstjórnar um hækkun atvinnuleysisbóta var ekki árangur neinna samtala – heldur aðgerð stjórnvalda til að koma í veg fyrir uppsögn kjarasamninga.
Atvinnuleysisbætur, réttur til orlofs og veikindalaun komu ekki til í kjölfar einhverra kurteislegra samtala, heldur fengust með verkföllum og hörðum vinnudeilum. Kaffisamsæti með stjórnvöldum hafa reynst launafólki ákaflega létt í pyngju.
Nú er Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri Grænna orðinn forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki – þeim sama flokk og hrósaði sér sem ákafast á nýafstöðnum landsfundi, af skattalækkunum og tilfærslu skatta frá þeim tekjuhæstu til þeirra tekjulægstu. Að vísu nefndu þeir tilfærslurnar ekki – en þannig er það í raun.
Samstarfsflokkur Katrínar hefur setið við stjórnvölinn meira og minna síðustu áratugi og tekist sorglega vel að leggja heilbrigðiskerfi okkar í rúst og hirða allar barna- og vaxtabætur af ungu fólki. Á sama tíma eykst misskipting og þeir ríku verða æ ríkari og sífellt fleirum er steypt í fátæktargildru. Firring þeirra ríku virðist ótakmörkuð – menn taka sér milljónir í kaupauka og reyna svo að réttlæta það. Kjararáð hagar sér eins og ríki í ríkinu og þingmenn tvöfalda ráðstöfunarfé sitt með skattfríum greiðslum sem hvergi þekkjast á vinnumarkaði.
Á síðasta ári slepptu um 30% félagsmanna AFLs Starfsgreinafélags því einhvern tíma að leita til læknis eða kaupa lyf bara af því engir peningar voru í buddunni. Viljið þið ekki bara ræða félagslegan stöðugleika við það fólk? Ég efast um að ykkur verði tekið með lófataki!
Stöðugleika tryggja menn með því að koma í veg fyrir breytingar. Stöðugleiki er að viðhalda ástandi. Það eru ekki margir í dag í hópi venjulegs launafólks sem hafa áhuga á að viðhalda núverandi ástandi.
Því miður er það þannig að fylgi félagshyggjuflokka hefur verið eins og jójó síðustu ár á meðan Sjálfstæðisflokki tekst að halda stöðu sinni nokkurn veginn óbrjálaðri og því eru allar líkur á því að VG verði ekki í næstu ríkisstjórn heldur sitji eftir með Svarta Pétur allra þeirra sem reiðir eru, þreyttir og mæddir, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn endurnýjar umboð sitt í nafni „ábyrgrar efnahagsstjórnar“.
Sjálfstæðisflokkurinn mun kasta VG eins og skítugri gólftusku eftir næstu kosningar og halda áfram aðför að almennu launafólki í skjóli næsta nytsama sakleysingja. Fram að þeim kosningum verður VG skjól auðvaldsins til að halda áfram gereyðingarherferð sinni gegn velferðarkerfum sem fyrri kynslóðir komu upp. Aðkoma Alþýðusambandsins að einhverjum spjallklúbb er ekki til neins annars en að búa til einhver Kodak móment fyrir ríkisstjórnina og freista þess að koma Svarta Pétri yfir á verkalýðshreyfinguna.
Ef það eru samtöl við Alþýðusambandið sem ríkisstjórnin vill, er það sjálfsagt mál. Þar hefur ekki skort viljann hjá ASÍ. Þau samtöl verða hvort eð er tekin um næstu áramót þegar landið mun allt loga í vinnudeilum. En að öllum líkindum verður lítið samflot innan Alþýðusambandsins í kjarasamningagerð og þannig er tími hinna formlegu samtala til að greiða fyrir gerð kjarasamninga liðinn, í bili að minnsta kosti.
En formaður flokks sem kennir sig við félagshyggju á ekki að þurfa einhvern kaffiklúbb til að leiða enduruppbygginu velferðarkerfisins. Til þess er fólk í pólitík. Nú væri rétt að forsætisráðherra tæki glímuna við samstarfsflokk sinn – breytti áherslum í skattamálum og kæmi skattbyrðinni yfir á þá sem hafa háu tekjurnar. Hækkaði vaxtabætur og slakaði út tekjuviðmiðum þannig að þær nái til venjulegs fólks og kæmi svo raunverulegum barnabótum á að nýju.
Ef Katrín hefði svo tíma eftir kaffi – má minna á að heilbrigðiskerfið er nánast rjúkandi rúst og á meðan verktakar og einkareknar læknastofur fleyta allan rjómann af, liggja sjúklingar á göngum og ræstikompum á bráðadeild og bíða úrlausnar sem ekki er í boði. Það mætti nefna símenntunarmiðstöðvar en svo virðist sem einbeittur vilji sé til að leggja þeirra starf í rúst. Listinn er langur Katrín – brettu upp ermarnar og láttu verkin tala. Það mun ekki standa á Alþýðusambandinu að aðstoða þig og vinna með þér – en við látum ekki nota okkur sem skálkaskjól á tilgangslausum fundum með fólki sem engu ætlar að breyta.
Klukkan tikkar – og ekki er víst að þinn tími komi aftur!
Höfundur á sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands.