Ég vakna, vek syfjaða 7 ára soninn sem hafði læðst upp í rúm undir morgun. Smá knús og Villi þarf að drífa sig á fætur og klæða sig. Villi spyr hvort ég geti fylgt honum í skólann, en mamma þarf að sitja í morgunumferðinni þannig hann þarf að labba sjálfur. Ég lofa honum þó að ég fari aftur í nám eftir sumarið og þá getum við labbað saman. Villamúsin mín kvartar smávægilega, eðlilega, við mæðgin erum B-týpur, okkur finnst gott að lúra til 7:40 frekar en að vakna rétt fyrir sjö.
Í vinnunni fæ ég Facebook skilaboð. Vinkona mín, líka einstæðingur eins og ég, er að missa íbúðina sína. Hún hefur ekki lengur efni á að borga leigu og að vera í námi á sama tíma. Hún og litla stelpan hennar verða komin á götuna um mánaðamót. „Veistu um eitthvað? Jafnvel bara herbergi?“
Ég bendi henni á að tala við FS í háskólanum, hún þurfi bara grátbiðja þau um að setja sig í forgang í stúdentaíbúð. Ég reyni að hughreysta hana. Vonleysið færist yfir. 2018 og góðæri og einstæðar mæður sem dirfast að mennta sig lenda á götunni í Reykjavík út af fokking húsnæðisverði. Hvernig er þetta borgarstjórn jafnaðarstefnuflokka?
Ég blóta borgarstjórninni, og gleymi reiðinni um stund yfir verkefnum vinnunnar. Heyrðu já, systir mín bað mig um að sækja stelpuna sína í leikskólann í gær, hún er föst á fundi til fimm. Vegna manneklu á leikskólanum gat hún ekki skráð frænku mína lengur en fjögur, ekki að fimm-skráning myndi skipta máli, umferðin sjáðu til. Fæ að hlaupa 20 mínútur í fjögur. Fjandans umferðin byrjuð snemma í dag. Næ rétt á slaginu. Núna er komið að mínu barni. Ég mjakast til baka á krónískt 10-30 km hraða. Lít á bílanna í kringum mig, fólk er ýmist í símanum eða að troða sér í pirringi. Nokkrir sallarólegir sennilega að hlusta á hlaðvarpsþáttinn Í ljósi sögunnar. Bara einn lítill árekstur á Miklubraut í dag.
Fokk! Villi klárar í KR 16:20, tekur 10 mín. að klæða sig og getur kannski beðið í svona 10 mín. Ég hlýt að ná þessu á 40 mínútum. Úr fyrsta gír í annan og aftur í fyrsta gír. Rautt ljós. Ég lít í kringum mig. Ætli fólk viti að bíll í umferðarteppu losi um 300% meiri koltvísýring en hann gerir með því að keyra jafnt og þétt? Ég blóta borgarstjórninni fyrir að láta mig sitja í þessari umferðarteppu. Velti fyrir mér hvað þetta Samfylkinga-Pírata-VG-Bjartrar framtíðar pakk sem segist vera að hugsa um mengun var eiginlega að pæla þegar þau höfnuðu 20 vega- og umferðarbótum árið 2012 af því að „ekki er gert ráð fyrir umferðarfjölgun á næstu árum“.
Ávíta mig fyrir að kalla fólk í öðrum flokkum pakk. Það er asnalegt og ómálefnalegt. Ég vil aldrei leggjast á sama plan Bragi Páll á Stundinni sem finnst í lagi að kalla mig barnaníðing fyrir það að vera í Sjálfstæðisflokknum. Ég hugsa til Villa og þeirrar orðræðu sem hann þarf að venjast þegar hann vex úr grasi. Ógeðslegt. Þarf að útskýra fyrir honum að sumir tala svona til að æsa upp tilfinningar og kúga þannig út smelli á fréttasíðum. Samfó og félagar vildu bara að fólk tæki strætó, gengi eða hjólaði. Veistu hver hjólar ekki né tekur strætó!? Foreldrar í dagvinnu sem þurfa að drífa sig heim til að elda, taka til og svo vonandi ná að eyða svona klukkustund með börnunum sínum milli 7-8! Ég ávíta mig aftur. Þau meintu vel.
Ég veit að markmiðið var að draga úr notkun einkabílsins með því að byggja bara miðsvæðis, eða þétta byggð. Göfugt markmið. Bara alltof seinlegt og dýrt í framkvæmd og fyrir vikið allt of fáar íbúðir byggðar, 350 af þeim 9000 sem vantaði á kjörtímabilinu. Of mikill skortur, of dýrar íbúðir og of há leiga. Mosfellsbæ tókst að byggja meira, vandræðalegt. Eitt stæði laust á bílastæði KR. Hleyp af stað eftir Villa. Litla frænka flýgur með í hendinni. Villi er liggjandi á gólfinu. Honum finnst fyndið að liggja fullklæddur út á miðju gólfi. Ég skammast smá en glotti líka. Krakkar kunna að leita að nýjum sjónarhornum.
Rekst á kunningja minn úr Vesturbænum á leiðinni út. Hann er líka með strák í KR og líka einstæðingur. Spyr hann hvað hann sé að bralla þessa daganna. Hann kláraði BS en hefur ekki getað tekið masterinn. „Nú?“, „æjj það er bara allt of dýrt, ég hef ekki efni á að leigja, vera í námi og borga skólann, fótboltann og allt hitt bara“. Ég skil hann, hugsa til vinkonu minnar sem lendir á götunni um mánaðamótin. Ég reyni að hughreysta hann með fjarnámi á Bifröst. Blóta borgarstjórninni sem hafði 8 ár til að gera eitthvað. Kveð.
Systir mín hringir og er á leiðinni. Ég spái í manneklunni í skólunum og hvernig Kristín Soffía, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, útskýrði í Harmageddon að skuldahækkun borgarsjóðs um 1 milljarð á mánuði síðustu 4 ár hefði verið vegna lántöku borgarstjórnarinnar. Lánin voru víst til þess að laga skóla og sinna manneklunni. Reykjavík er með hæstu skatttekjur allra sveitarfélaga. Samt 2007 fílingur hjá Samfó og félögum í borgarstjórn. Núna voru þau að kynna nýja aðgerðaráætlun í skólamálunum. Meiri lán? Ávíta mig í þriðja sinn. Þarf að hætta að velta mér upp úr þessu.
Kemst loksins heim um fimm. Elda, geng frá, geri heimavinnuna með Villa, hann vann fyrir iPadinum í korter. Fæ frið til að setja í vélina og brjóta saman þvott. Villi þarf að fara hátta því klukkan er að verða átta. Koss og knús, Gulrótarbangsinn og Depill Möri - skjaldbökubangsinn, eru komnir í fangið á Villamús Rúsínuhúsi. Slekk ljósin og halla hurðinni. Sest niður og hugsa um hversu niðurdrepandi það er að hafa bara þrjá tíma á dag með syni mínum. Hefði haft 5 ef ekki væri fyrir morgunumferð og 4-6 umferð. Hugsa um það að í 8 ár hefur Dagur verið borgarstjóri í Reykjavík, og vinkona mín er að lenda á götunni, kunningi minn kemst ekki í nám, systir mín fær ekki pláss til 5 og ég hef bara 3 klukkustundir til að eyða með syni mínum út af fokking umferð. Sorglegt.
Höfundur er í 11. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokks fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018.