Vakinn er gæðakerfi ferðaþjónustunnar á Íslandi. Um það var sameinast fyrir fáum árum, fyrirmyndir sóttar erlendis og skoðað hvað önnur framsækin ferðaþjónustulönd voru að gera í sínum gæðamálum.
Gæði og viðhald þeirra eru eitt það allra mikilvægasta sem við fáumst við daglega í ferðaþjónustunni. Út frá gæðum okkar eigum við að verðleggja þjónustuna og staðsetja okkur í samkeppninni. Þess vegna er Vakinn frábært tæki til að varpa ljósi á gæðin í atvinnugreininni og auka þau í framhaldinu. Árlegar úttektir tryggja svo að þátttakendur viðhaldi þeim gæðum sem þeir hafa gengist inn á.
Vakinn tekur á mjög mörgum þáttum starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja. Í innleiðingarferlinu er farið djúpt í starfsemi fyrirtækjanna og öllum steinum velt við. Það skiptir gríðarlegum máli að þátttakendur séu heiðarlegir í sinni innleiðingarvinnu og taki raunverulega á þeim gæðamálum sem þörf er á.
Hey Iceland – áður Ferðaþjónusta bænda, ákvað að ganga til liðs við Vakann eftir að hafa haldið úti eigin gæðakerfi um árabil. Það að rótgróið og stórt ferðaþjónustufyrirtæki eins og Hey Iceland stígi þetta skref, segir ýmislegt um væntingar þeirra til Vakans.
Ég hef sjálfur komið tvennskonar gistingu og ferðaskrifstofu í gegn um Vakann, auk þess að vera með Bronsviðurkenningu í umhverfismálum, nokkuð sem metnaður stendur til að hækka í náinni framtíð upp í silfur og síðar gull.
Ég tel ávinning af okkar innleiðingu ekki bara snúa að starfsemi fyrirtækisins út á við gagnvart gestum, heldur inn á við. Það kom í ljós að við rýningu á starfsemi fyrirtækisins að Vakinn hjálpaði til við að koma ýmsum ferlum og verkþáttum í lag. Helstu kostirnir við innleiðinguna eru þessir að mínu mati:
- Þú kynnist rekstri fyrirtækisins með utanaðkomandi augum.
- Þú sérð ýmsa vankanta í verkferlum og verkþáttum sem auðvelt er að slípa til og gera markvissari.
- Gestir okkar eru upplýstir um stöðu okkar innan gæðakerfisins, bæði á vefsíðu okkar, í upplýsingum á herbergjum og á öllu kynningarefni. Það heldur okkur á tánum.
- Vakinn auðveldar fræðsluferli nýrra starfsmanna. Þau verkefni sem skipta mestu máli er að finna í gæðahandbók sem allir fá og allir hafa aðgang að. Það fer því minni tími og minni kostnaður í að skóla til nýja starfsmenn, nokkuð sem fyrirtæki með mikla starfsmannaveltu ættu að skoða alvarlega.
- Það verða færri eldar að slökkva. Við þekkum það á fámennum vinnustöðum að þar sem lítið skipulag er, þarf stöðugt að vera að slökkva elda. Vakinn kemur þarna sterkur inn með sína gátlista og verkferla.
Það er mín bjargfasta trú að innan fárra ára verði Vakinn orðinn það algengur að ferðamenn fari að kíkja eftir því að þau fyrirtæki sem skipt er við hafi gæðaviðurkenningu. En til þess þarf að skilja mikilvægi gæðastarfs, það þarf að eyða þeirri hugsun að þetta skili engu og sé allt of tímafrekt og kostnaðarsamt, því þannig er það sannarlega ekki samkvæmt minni reynslu.
Starfsfólk Vakans uppfærir og betrumbætir ýmsa þætti á milli ára og er vakandi yfir athugasemdum frá okkur þátttakendum. Öðruvísi gengur þetta náttúrlega ekki. Ég vil ganga svo langt að koma Vakanum þannig fyrir í okkar kerfi og stjórnsýslu að fyrirtæki fái ekki starfsleyfi nema að vera þátttakendur í Vakanum. Það lýsir í raun best minni reynslu af kerfinu, mér finnst að allir eigi að taka þátt, allir eigi að efla gæði sinnar þjónustu og með því verðum við sterkari í samkeppni við aðrar þjóðir. Það er enginn afsláttur gefinn af úttektum Vakans, þar þarf að standa sína vakt sem er gott. Gott aðhald er nauðsynlegt og það fá þátttakendur í Vakanum.
Þar með getum við líka verðlagt okkur í réttum takti við gæðin og uppfyllt betur væntingar gesta okkar sem hlýtur að vera okkar aðal markmið. Við skulum ekki hræðast sporin og alls ekki mikla fyrir okkur innleiðinguna, við stöndum flest nær takmarkinu en við gerum okkur grein fyrir í byrjun.
Gæði eru æði – allir með!!