Þegar ég var í grunnskóla átti ég vin sem bjó í hlíðunum og ég tók oft strætó þangað. Því þurfti ég gjarnan að labba yfir gangbrautina sem þverar Miklubrautina hjá Klambratúni. Það þurfti að ýta á takka og bíða. Fyrir ofan boxið var embættismannalegt skilti sem sagði eitthvað í þá veru að „vegna samstillingar við nálæg umferðarljós“ gætu liðið allt að 1-2 mínútur þangað til græni karlinn kæmi.
Ég man þennan texta ekki alveg. En ég man hinn, sem einhver unglingur hafði krotað með svörtum tússpenna á boxið sjálft:
„Ekki ýta - það tekur því ekki“
Svona var þetta. Einhvern tímann hafði einhver eflaust fengið það verkefni að „hámarka umferðarflæðið“ og fengið það út, eðlilega, að bílaumferðin myndi flæða betur ef gangandi vegfarendur gætu ekki stöðvað umferð hvenær sem er. Þeim var því úthlutað ákveðnum tímahólfum sem þeir gætu farið yfir á. Sama hvenær dags, hvenær viku og sama hvernig umferðin raunverulega var þurfti maður að bíða eftir að hin hugsanlega bílalest myndi keyra óhindrað á sinni ímynduðu grænu bylgju.
Hvað gerir krakki þegar rauði karlinn logar en enginn bíll er sýnilegur? Jú, labbar bara yfir.
Það er alveg sjálfsagt að endurstilla af og til umferðarljós til að nýta gatnakerfið betur, verkfræðin er margs megnug og við eigum að nýta okkur hana. En tvennt ber að hafa í huga þegar fólk heitir straumhvörfum með bættri samstillingu umferðarljósa:
Í fyrsta lagi: Í grunninn eru umferðarteppur hagfræðilegt viðfangsefni ekki síður en verkfræðilegt. Það vilja einfaldlega margir nota takmörkuð en ókeypis gæði (götur) á sama tíma og því myndast biðraðir.
Í öðru lagi: Þegar farið er af stað til að „bæta flæðið“ verður niðurstaðan oftar en ekki sú að það gerist á kostnað gangandi vegfarenda. Því oft er ekki litið á gangandi fólk sem „umferð“. Það er litið á gangandi fólk sem truflun á umferð.