Er víglínan að breytast?

Auglýsing

Víglínur breytast oft í pólitík. Stundum vegna eðlilegrar þróunar en oftar en ekki vegna þess að tilteknir hagsmunarhópar sjá hag sinn í að færa þær til svo ekki fáist í gegn raunveruleg umræða um kjarnann sjálfan. Á síðustu vikum hafa raddir innan Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Miðflokksins heyrst sem vilja Ísland út úr EES samstarfinu. Svipuð sjónarmið hafa verið sett fram innan Framsóknarflokksins á umliðnum misserum. Þessi öfl vilja nú færa víglínuna frá því að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið yfir í umræðu um efasemdir um með EES samninginn. Við því vil ég vara.

Nú þegar tæp 25 ár eru liðin frá gildistöku EES samningsins er ljóst að áhrifa hans gætir víða og umbætur fyrir íslenskt samfélag verið ótvíræðar. Er erfitt að ímynda sér þjóðlífið án samningsins en oft er það svo að það sem við teljum til eðlilegra hlunninda er jákvæð afleiðing samningsins. Má hér nefna nokkuð hindrunarlausan flutning fólks, vöru og betri aðgang þjónustu fyrir utan aukna neytendavernd á gildistíma samningsins. Þetta gerðist ekki sjálfkrafa hér á landi heldur var hluti af þeim skuldbindingum sem við undirgengumst með samningnum.

Skýrslugerð, vinnubrögð og fullveldið

Alþingi hefur nú samþykkt að fela utanríkisráðherra að gera skýrslu um að kosti og galla EES samningsins. Það er fagnaðarefni og er mikilvægt að vandað verði til verka og svipaður metnaður sýndur og þegar Norðmenn fóru í slíka úttekt fyrir nokkrum árum síðan en þá voru helstu sérfræðingar þeirra kallaðir til. Ég ætla að ganga út frá því að þótt utanríkisráðherra sé tortrygginn gagnvart Evrópusamvinnunni og unnandi Brexit að þessi vinna verði unnin af okkar besta fólki svo skýrslan sjálf geti orðið grundvöllur yfirvegaðrar umræðu. Verður fróðlegt að fylgjast með því.

Auglýsing

Hitt er síðan að á þessu ári eru liðin eitthundrað ár frá því að Ísland var sjálfstætt og fullvalda ríki. Það eru söguleg tímamót sem vert er að minnast því fullveldið er verðmætasta sameign þjóðarinnar. Varðstaða um fullveldið þýðir ekki að allt eigi að vera óbreytt eins og það var árið 1918. Þvert á móti. Fullveldið er lifandi fyrirbrigði en í því felst að hver kynslóð þarf að gæta hagsmuna Íslands í samfélagi þjóðanna í samræmi við framrás tímans og allt eftir því hvernig lönd og þjóðir haga og breyta samstarfi og samvinnu sín á milli.

Krafan um sjálfstæði snérist ekki um það eitt að taka stjórn landsmála í eigin hendur heldur var hún einnig ákall um að færa þekkingu og vísindi inn í búskap þjóðarinnar. Og hún var krafa um frjáls viðskipti milli þjóða. Hugsjónir Jóns Sigurðssonar snertu ekki einvörðungu aukna sjálfsstjórn Íslendinga. Öðru nær. Hugsjónirnar vörðuðu frjáls viðskipti og efnahagslegt samstarf við aðrar þjóðir en þar sá hann tækifæri til framfara.

Fullveldið styrkist

Ákvarðanir okkar Íslendinga um að gerast stofnaðili að Nató, aðili að EFTA og síðan innri markaði Evrópusambandsins með EES samningnum hafa reynst farsælar og við sem þjóð staðið undir þeirri ríku ábyrgð sem fólst í fullveldinu. Í þeirri varðstöðu höfum við staðið okkur vel. Enginn getur með rökum haldið því fram að við höfum svikið hugsjónir Jóns Sigurðssonar og annarra Íslendinga sem börðust fyrir sjálfstæði okkar. En við skulum ekki gleyma að um þetta hafa einmitt staðið deilur og átök verið hatrömm. Og öll þessi skref í átt að auknu alþjóðasamstarfi og skuldbindingum voru tekin í skugga ásakana um svik við fullveldið. Reynslan hefur hins vegar sýnt að sérhvert þessara skrefa bætti efnahag landsins og efldi velferð fólksins. Það sem meira er – hvert þessara skrefa hefur styrkt fullveldi landsins þótt í þeim hafi falist að við deildum ákvörðunum um mikilvæg efni með öðru þjóðum. Ísland er fyrir þær sakir stærra í samfélagi þjóðanna en áður var.

Afstaða Íslands til samvinnu og samstarfs við önnur ríki ræður nú meiru um þjóðarhag en nokkru sinni fyrr í sögunni. Einu gildir hvort litið er til varna landsins, viðskipta, efnahagsmála, umhverfismála, menningar eða vísinda þá ráða utanríkismálin miklu um framþróun hér á landi. Því samfélagi þjóðanna erum við ekki eyland heldur hluti af heild.

Við erum vissulega í góðri stöðu með aðild að innri markaði ESB og Schengen. Við erum jafnvel aðilar að ESB að þremur fjórðu. Spurningin snýst því ekki um aðild að þessari samvinnu heldur hvort við getu styrkt íslenskan efnahag og styrkt velferðarkerfið með því að stíga feti framar. Álitaefnin eru mörg. Nægir að nefna krónuna, neytendavernd, áhrifavald fjölþjóðafyrirtækja, hvernig við erum best varin í alþjóðlegu viðskiptastríði og með hverjum við eigum mesta samleið við að tryggja lýðræði, frið og frjálsa hugsun.

Leggjum saman mat á breyttar aðstæður í alþjóðamálum og nýjar áskoranir fyrir Ísland

Gagnrýnin á Evrópusambandið er víðast sterkust á jöðrunum til hægri og vinstri. Það er skiljanlegt enda er sambandið í raun málamiðlun milli markaðssjónarmiða og velferðar. Það er því ekki tilviljun að Norðurlöndin hafa talið hagsmunum sínum best borgið í slíkri samvinnu. Ég geri mér hins vegar grein fyrir að um þetta er ágreiningur eins og um öll fyrri skref til aukinnar alþjóðasamvinnu.

Í því ljósi og vegna víðtækra álitaefna sem snerta nær öll svið pólitískra viðfangsefna okkar vil ég ítreka tillögu mína um að forsætisráðherra skipi þverpólitíska nefnd til þess að leggja mat á nýjar og breyttar aðstæður í alþjóðamálum, nýjar áskoranir fyrir Ísland og nýja möguleika til þess að bæta hag fólksins í landinu með því að taka nýtt skref í Evrópusamvinnunni.  Sumir kunna að segja að það sé borin von að ná samstöðu um þessi efni en það réttlætir heldur ekki að pottlok sé sett á umræðuna. Til þess er ábyrgð allra stjórnmálaflokka of rík.

Hér skiptir mestu að við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum sem við þurfum að kortleggja og draga fram röksemdir með og á móti. Það er nauðsynlegur grundvöllur heilbrigðrar umræðu og ákvarðana.  Það eru fordæmi, góð fordæmi fyrir slíkri vinnu. Í aðdraganda aðildar Íslands að EFTA skipaði Viðreisnarstjórnin slíka nefnd með fulltrúum allra þingflokka undir forystu Gylfa Þ. Gíslasonar. Fyrir meira en áratug var skipuð svipuð nefnd undir forystu Björns Bjarnasonar þótt þörfin þá hafi ekki verið eins brýn og nú.  Niðurstaða þeirrar nefndar var ljómandi umræðugrundvöllur.

Nú er nauðsynlegt að meta stöðu Íslands í nýju ljósi enda blasa við nýjar áskoranir. Við eigum að nýta tímann og tækifærið til að setja þetta mál á dagskrá og búa slíkri nefnd þannig umhverfi að umræðan um nefndina verði undirbúin með vönduðum hætti og með aðild allra þingflokka, líkt og gert var á árum áður. Síðan sjáum við hvert rökræðan sjálf leiðir okkur.  Við þetta á enginn að vera hræddur. Þvert á móti þá getur slík nefnd sýnt fram á trúverðug og vönduð vinnubrögð þings og framkvæmdavalds. Vinnubragða sem geta styrkt lýðræðið og verið upplýsandi fyrir samfélagið allt. Slíkt er nauðsynlegt því á endanum er það alltaf þjóðin sem mun eiga lokaorðið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Atli Gunnarsson
Er nýsköpun ekki lengur töff?
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar