Nýlega birti Skipulagsstofnun álit sitt vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Af því tilefni er vert að líta til þessarar nokkuð svo umdeildu virkjunar og velta því fyrir sér hvort eða hvenær þörf verði á Hvammsvirkjun á næstu árum. Niðurstaðan er að þrátt fyrir aukna eftirspurn eftir raforku, er þessi talsvert stóra virkjun sennilega ekki að fara að rísa í bráð. Nema ef til kemur ný stóriðja eða sæstrengur til Bretlands. Slíkt er ekki í augsýn eins og er. Til að mæta aukinni eftirspurn á almenna markaðnum, er líklegt að Landsvirkjun og önnur raforkufyrirtæki muni fremur leggja áherslu á hóflegri virkjanakosti.
Stór og umdeild virkjun
Í dag eru engar virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það kann að breytast. Áætlun Landsvirkjunar er að Hvammsvirkjun verði 93 MW og framleiði um 720 GWst árlega. Þetta yrði sem sagt talsvert stór virkjun. Til samanburðar má nefna að Hvammsvirkjun myndi framleiða um 25% meiri raforku en Búðarhálsvirkjun gerir, en sú virkjun var reist vegna þá fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álversins í Straumsvík.
Vafalítið er unnt að standa að byggingu Hvammsvirkjunar með snyrtilegum hætti. Það breytir því þó ekki að virkjunin kallar á miklar framkvæmdir og röskun, með stíflugörðum, miðlunarlóni, nýjum vegum á bakka Þjórsár o.s.frv. Mörg þau sem komið hafa á þessar fögru slóðir við Þjórsá, þar sem virkjunin á að rísa, eru sjálfsagt lítt hrifin af því hvernig ásýnd svæðisins og upplifunin af því mun gjörbeytast ef/ þegar virkjunin rís. Svo sem vegna hinna óafturkræfu breytinga þegar „árniður í straumþungu fljóti víkur fyrir lóni og vatnslitlum farvegi“ svo vitnað sé til álits Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrifin.
Varanleg og óafturkræf neikvæð áhrif Hvammsvirkjunar
Í umræddu áliti Skipulagsstofnunar um Hvammsvirkjun segir orðrétt að virkjunin myndi hafa „verulega neikvæð“ áhrif á landslag í ljósi þess að umfangsmiklu svæði verður raskað og mjög margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga. Í áliti Skipulagsstofnunar segir einnig að neikvæð áhrif af Hvammsvirkjun verði „óafturkræf“ og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa „talsverð neikvæð“ áhrif á útivist og ferðaþjónustu.
Til skýringar á þessu má nefna að þegar Skipulagsstofnun lýsir áhrifum framkvæmda, er lýsingarorðið „verulega neikvæð“ neikvæðasta stigið í einkunnagjöf stofnunarinnar. Hin stigin eru „talsvert neikvæð“ áhrif, síðan hlutlausa lýsingin „óveruleg“ áhrif og svo loks tvær einkunnir sem lýsa jákvæðum áhrifum, sem eru „talsvert jákvæð“ áhrif og „verulega jákvæð“ áhrif.
Um leið má minnast þess að það er óhjákvæmilegt að svo miklar framkvæmdir hafi verulega neikvæð áhrif á landslag og umhverfi. Stórum vatnsaflsvirkjunum fylgja jú stíflur, miðlunarlón og margvíslegt annað varanlegt rask. Þess vegna hljótum við kannski fyrst og fremst að spyrja okkur: Hvenær er skynsamlegt að ráðast í svona framkvæmd og hvenær ekki? Er þörf á þessari stóru virkjun? Eru kannski aðrir mun betri kostir í boði? Svari hver fyrir sig.
Hvammsvirkjun var ætluð fyrir stóriðju
Það hefur lengi staðið styr um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Auk Hvammsvirkjunar eru uppi áætlanir um tvær aðrar stórar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Þær tvær virkjanir eru þó ennþá í biðflokki Rammaáætlunar.
Lengi vel voru allir þessir þrír virkjanakostir í biðflokki Rammaáætlunar. En um sama leyti og stefndi í að hér kæmi meiriháttar viðbót inn í stóriðjugeirann í formi þriggja kíslverksmiðja (PCC, Thorsil og United Silicon) og eins sólarkísilvers (Silicor Materials), var Landsvirkjun nánast lofað því að Hvammsvirkjun yrði brátt færð yfir í nýtingarflokk Rammaáætlunar. Enda var það talið „algjört grundvallaratriði“ til að fá „erlenda fjárfesta hér til að byggja upp fjölbreytt framleiðslufyrirtæki í landinu“. Sbr. frétt Ríkisútvarpsins frá því í lok maí 2014.
Áætlanir um fjögur kísilver kölluðu á Hvammsvirkjun
Gert var ráð fyrir að þessar fjórar nýju verksmiðjur fullbyggðar þyrftu aðgang að hátt í 500 MW. Fyrstu áfangar þeirra þurftu aðgang að u.þ.b. 260 MW og þar af kölluðu fyrstu áfangar áætlaðra þriggja kísilvera á Suðvesturlandi á um 200 MW (og um 390 MW fullbyggð). Það er því ekki að undra að í áður nefndri frétt Ríkisútvarpsins frá vorinu 2014 var haft eftir forstjóra Landsvirkjunar að til að þessar kísilverksmiðjur gætu risið telji Landsvirkjun sig þurfa að fá aðgang að nýjum virkjanakostum í neðri hluta Þjórsár. Jafnframt var haft eftir forstjóranum að fá þurfi „ákveðnar línur úr rammaáætlun hvaða virkjanakostir verði mögulegir“.
Vandi Landsvirkjunar var jú sá að þessar fyrirhuguðu Þjórsárvirkjanir voru (og eru) svo til einu virkjanakostir fyrirtækisins sem gátu (og geta) uppfyllt tvö mikilvæg skilyrði nýrrar stóriðju á Suðvesturlandi: Annað skilyrðið er að hafa aðgang að virkjanakostum sem eru nægilega stórir og ódýrir fyrir stóriðju og hitt skilyrðið er að raunhæfur möguleiki sé á að koma svo mikilli orku tímanlega til stóriðjunnar. Og til að unnt væri að uppfylla fyrra skilyrðið taldi Landsvirkjun að Hvammsvirkjun væri aðkallandi.
Um sama leyti og boðað var á Alþingi að Hvammsvirkjun yrði fljótlega færð yfir í nýtingarflokk Rammaáætlunar, var fyrirvörum aflétt í raforkusamningi Landsvirkjunar og United Silicon. Það var svo um ári síðar, þ.e. um mitt ár 2015, að Hvammsvirkjun var ein og sér og færð yfir í nýtingarflokk Rammaáætlunar. Meðan allar aðrar tillögur verkefnastjórnar og umhverfisráðherra voru látnar bíða (og bíða enn).
Áætlanir um umfangsmikla kísilvinnslu gengu ekki eftir
Ekki fer á milli mála að hlutverk Hvammsvirkjunar var að mæta orkueftirspurn nýrra stóriðjuverkefna á Suðvesturlandi í formi kísilvinnslu. Að vísu þurfti Landsvirkjun ekki á Hvammsvirkjun að halda til að útvega fyrsta áfanga kísilvers United Silicon orku (35 MW). En fleiri kísilverkefni voru í farvatninu og álitið var, af þeim sem best áttu að þekkja til, að mjög fljótlega yrði þörf fyrir orkuna frá Hvammsvirkjun.
En reyndin varð önnur. Orkueftirspurn kísilvera varð nefnilega ekki jafn mikil eða hröð líkt og áætlað hafði verið. Og því er enn ekki þörf fyrir Hvammsvirkjun. Vert er að taka fram að bæði verkefnastjórn Rammaáætlunar, umhverfisráðherra og meirihluti Alþingis töldu þennan virkjunarkost uppfylla öll skilyrði til að færast úr biðflokki í nýtingarflokk. Jafnvel þó svo það væri sérstakt eða óvenjulegt að ein virkjun væri sérstaklega tekin ein og sér og skipað í nýtingarflokk, er enginn vafi um að niðurstaðan þar um var í samræmi við lög. Aftur á móti hefur ekki reynst vera sú mikla þörf fyrir virkjunina sem margir héldu á þeim tíma.
Landsvirkjun lítur nú á Hvammsvirkjun sem framtíðarkost
Í dag er Hvammsvirkjun ekki aðkallandi. A.m.k. ekki í bili. Hún er það stór að hún er varla ákjósanleg til að mæta hinni fremur rólega vaxandi almennu raforkueftirspurn hér innanlands. Að mati Landsvirkjunar hefur neikvætt álit Skipulagsstofnunar um Hvammsvirkjun samt ekki áhrif á áform fyrirtækisins um virkjunina og álítur forstjóri Landsvirkjunar að allar líkur séu á að af framkvæmdinni verði. En þó ekki fyrr en kannski eftir 3-4 ár.
Augljóslega er gott fyrir Landsvirkjun að eiga Hvammsvirkjun sem virkjunarkost. Ekki síst ef upp koma þær aðstæður að hér þurfi að auka raforkuframboð mikið á fremur stuttum tíma. Það verður þó varla ráðist í þessa virkjun nema annað hvort komi til nýrrar stóriðju (eða verulegrar framleiðsluaukningar núverandi stóriðju) eða að áform um sæstreng milli Íslands og Bretlands gangi eftir.
Lokun kísilverksmiðju United Silicon liðkaði til um raforkuframboð
Næstu misserin verður töluvert framboð af nýrri raforku. Nú er bæði verið að ljúka við nýja 100 MW Búrfellsvirkjun og stækkun Þeistareykjavirkjunar í 90 mw. Þarna er mikið af nýrri raforku að koma inn á markaðinn. Þar að auki losnaði um talsverða orku við gjaldþrot United Silicon. Umtalsverður hluti þessarar raforku er að vísu seldur nú þegar til kísilvers PCC á Bakka og til gagnavera og þ.m.t. rafmyntavinnslu. En það er ekki þörf fyrir nýjar stórar virkjanir í bili.
Fer orkan frá Hvammsvirkjun til innlendrar starfsemi eða í sæstreng?
Hvammsvirkjun mun sem sagt ekki rísa í bili. Nema kannski ef skriður kæmist á kísilverkefni Thorsil og/ eða Silicor Materials. Í reynd er ólíklegt að svo verði í bráð. Og kísilverksmiðja United Silicon er gjaldþrota og litlar líkur virðast á að verksmiðjan sú hefji starfsemi á ný. Þörfin fyrir Hvammsvirkjun núna er því ekki sú sem búist var fyrir um fáeinum árum.
Það er engu að síður svo að þegar litið er til spár um aukna innlenda eftirspurn eftir raforku sést að þörf gæti verið fyrir Hvammsvirkjun um miðjan næsta áratug. En vegna þess hversu stór virkjun þetta yrði, er samt ólíklegt að hún verði reist nema Landsvirkjun myndi fyrst gera mjög stóran eða nokkra nokkuð stóra orkusölusamninga við trygga og örugga kaupendur.
Smærri virkjanir eru vænlegur kostur
Í dag virðist enginn svo stór raforkusölusamningur í augsýn að það kalli á byggingu svo stórrar virkjunar sem Hvammsvirkjun yrði. Þess vegna má búast við að raforkuframboð hér næstu árin verði aukið í smærri skrefum. Nema eitthvað óvænt gerist, þ.a. fyrirséð verði að raforkunotkun hér aukist mjög verulega á stuttum tíma. Í því sambandi er athyglisvert að breskt fyrirtæki boðar hér sæstreng strax árið 2025. Það verkefni virðist þó í reynd í biðstöðu, m.a. vegna Brexit, og fjarska ólíklegt að slíkur sæstrengur verði lagður fyrr en kannski um 2030. Þess vegna er eðlilegt að litlar eða a.m.k. fremur hógværar virkjanir verði í forgangi næstu árin. Til að mæta almenna vextinum í innlendri raforkueftirspurn.