Ef kínverska skipafélagið COSCO vildi sigla hingað og bjóða lægra verð fyrir gámaflutninga, eins og ameríska COSTCO kom með lægra vöruverð í Garðabæinn, þá er ekkert svæði til í Sundahöfn. Án hafnaraðstöðu er ekki hægt að hefja gámasiglingar á stórum skala. Búið spil.
Starfsemi Eimskips og Samskipa breiðir sig yfir 55 hektara í Sundahöfn.
Helmingaskiptin valda því að menn hafa verið í vandræðum með Sundabraut og talað um hábrú eða jarðgöng til að áfram verði gámahöfn sunnan við brúarstæðið, þótt nóg sé plássið norðan megin.
Miðað við alþjóðlega staðla dugir 17 hektara gámavöllur vel um næstu aldamót og miðað við reiknaða flutninga dugir 600 metra bryggja fyrir hagkvæmustu siglingar til og frá landinu. Uppskipunargjöld á Íslandi eru samkvæmt verðskrá fimm sinnum hærri en í nágrannalöndunum. Þetta er svipað og Félag íslenskra stórkaupmanna kvartaði yfir 1994. Vörugjöld eru líka fjórum sinnum hærri en í Árósum.
Þessi grein fjallar um afleiðingu stefnuleysis í flutningamálum og hér er bent á leiðir fram á við:
- Stefna að einni gámaafgreiðslu í Sundahöfn á næstu árum með besta búnaði til að skipin stoppi sem styst í höfn og eyði sem minnstri olíu. Gjöld miðist við sambærileg gjöld í nágrannalöndunum. Landþörf verður um þriðjungur af landnotkun félaganna í dag.
- Með stjórnvaldsaðgerðum þarf að vernda atvinnuvegi og almenning gegn verðlagningu sem er langtum meiri en eðlilegur kostnaður. Meðal annars verður að miða við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Það fara fleiri gámar um Sundahöfn en um stærstu gámahöfn Noregs, Ósló.
- Hætta olíusóun, óþarfri losun gróðurhúsalofttegunda og lélegri landnýtingu sem núverandi fyrirkomulag leiðir til. Fullkomnar samkeppnisaðstæður og skynsamlegt regluverk gætu skilað árangri. Samkeppnin í Sundahöfn er á hinn bóginn meiri í orði en á borði. Einokun undir eftirliti gæti bæði leitt til lægra verðs fyrir svipaða þjónustu og skapað sóknarfæri á þessum sviðum.
Fyrri umræður
Á 84. stjórnarfundi Faxaflóahafna, 11. febrúar 2011, var að tillögu borgarfulltrúanna Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur samþykkt þessi ályktun:
Hafnarstjóra er falið að afla upplýsinga um rekstur fyrirtækja sem sérhæfa sig í losun og lestun fraktskipa. Við núverandi aðstæður getur reynst fýsilegt að aðgreina lestun og losun frá annarri flutningastarfsemi skipafélaganna. Í því getur falist hagræðing og sparnaður í fjárfestingu og viðhaldi.
Hafnarstjóri skilaði greinargerð um málið og þarf með lauk umræðum um það í stjórninni. Hér er þó um að ræða hagræðingu sem getur leitt til umtalsvert minni kostnaðar fyrir þjóðarbúið, því það eru atvinnuvegirnir og almenningur sem borga þessa þjónustu á því verði sem sett er upp. Ekki var gerð tilraun til að setja hugmyndina í samhengi við landnotkun. Líkur benda þó til að hægt sé að komast af með miklu minna land með sömu tækjanotkun og í höfnum í kringum okkur. Ekki var minnst á samkeppni í þetta sinn. Aldarþriðjungi áður, árið 1978, var þó bent á að nýliðun í samkeppni byggist á aðgangi að hafnaraðstöðu, eins og síðar verður lýst.
Nýverið lýsti framkvæmdastjóri samtaka útvegsmanna því yfir að það væri 65% dýrara að flytja fisk til Asíu frá Neskaupstað en frá Álasundi. Víðast á byggðu bóli þætti þörf á umræðu þegar útflutningsatvinnuvegirnir búa við skerta samkeppnisstöðu af þessu tagi. Í þessari grein verður tæpt á undirliggjandi þáttum sem skapa þennan mikla mun milli hafna á sama markaðssvæði.
Árið 1985 lét þáverandi hafnarstjóri, Gunnar Guðmundsson, gera skýrslu með heitinu Flutningahöfn til framtíðar. Í skýrslunni voru alþjóðlegri þróun gerð góð skil. Þar kom fram stuðningur við samnýtingu hafnaraðstöðu og voru færð að henni rök um hagkvæmni stærðarinnar. Var reiknað út að stóri kraninn hjá Eimskip, Jakinn, gæti annað öllum gámaflutningum allra félaga, sem þá höfðu verið þrjú um nokkurt skeið (Eimskip, Skipadeild Sambandsins, Hafskip).
Síðan gámavæðingin náði til Íslands hafa skipafélögin tvö, Eimskip og Samskip, ginið yfir öllu landi við gámaskipabryggjurnar í Sundahöfn. Þetta fyrirkomulag er raunar eldra en gámavæðingin. Guðmundur Ásgeirsson, þá aðaleigandi Nesskipa. skrifaði hafnarstjórn bréf 9. febrúar 1978 um úthlutun Kleppsbakka, og lýsir þar ástandinu:
Eimskip hefur 90% af öllu innisvæði við Reykjavíkurhöfn, og um 99% af öllu útisvæði... Óhagkvæmni, vöruskemmdir og lengri losunartími skipa annarra félaga en Eimskips hefur gert þeim afar erfitt fyrir og heft eðlilega þróun hjá þeim undanfarin ár og því er ekki siðferðilega rétt að auka þann mun enn meira. Að lokum, hafnarstjórn ætti að hugleiða hvers vegna forráðamenn Eimskips sækja svo fast að fá úthlutað Kleppsbakka, Svarið er augljóst... Þeir hafa löngu gert sér ljóst að með því að kappkosta að leggja undir sig alla viðlegukanta sem byggðir verða í Reykjavík útiloki þeir hvers konar samkeppni við eðlilegar aðstæður.
Aukin samkeppni í gámaflutningum verður ekki án aðstöðu
Félögin sem nú heyja tvíkeppni ágámaflutningamarkaðnum hafa væntanlega ekki fagnað tillögu borgarfulltrúanna árið 2011og líklega komið því til skila að slíkt fyrirkomulag hentaði þeim ekki. Þetta fyrirkomulag opnar nefnilega fyrir samkeppni. Á árinu 2016 opnaði COSTCO stórverslun í Garðabæ í byggingu sem hafði upphaflega verið ætluð verslunarstarfsemi. Þau fasteignakaup – eða kaup á aðstöðu til athafna – fóru fram á venjulegum markaði án sérstakrar opinberrar aðkomu eða afskipta stórverslana sem fyrir voru. Koma Costco hafði mikil áhrif á smásöluverslun: Meiri samkeppnisandi, lægra verð. Fram að þeim tíma höfðu fáir talið mögulegt að svo stórt fyrirtæki opnaði verslun á Íslandi.
Sennilega eru ekki margir sem hafa heyrt um COSCO, sem í byrjun árs 2018 er fjórða stærsta gámaskipafélag heims. COSCO er í eigu kínverska ríkisins á einn eða annan hátt, og stefnir að enn meiri landvinningum. Nú eru þeir stærstir í gámaflutningum milli Asíu og Bandaríkjanna. Kínverjar hafa mikinn áhuga á nærveru sem víðast, samanber tilraun þeirra fyrir ekki löngu til að kaupa jörð á Möðrudal. Ef þeir bjóða samkeppnishæfa þjónustu og verð í siglingum til landsins og frá mundu núverandi útgerðir væntanlega bregðast við með hagræðingu í rekstri og lægra verði, atvinnulífinu og landsmönnum til hagsbóta. En það er ekkert pláss fyrir COSCO. COSCO getur ekki haft COSTCO-áhrif í siglingum ef engin er aðstaðan. Í öðrum löndum eru á hinn bóginn gámaafgreiðslur sem taka vel á móti þeim sem vilja nota aðstöðu þeirra gegn uppsettu sanngjörnu gjaldi.
Tvíkeppni skipafélaganna án stefnumótunar yfirvalda um viðbrögð við neikvæðum áhrifum hefur reynst landinu dýr. Hér á eftir verður fjallað um út- og uppskipunargjöld. Síðan um meiri landnotkun í Sundahöfn en í sambærilegum erlendum höfnum. Kostnaðinn við þetta – sem er í raun kostnaður við að halda samkeppni frá, ef maður les bréf Guðmundar Ásgeirssonar rétt – bera notendur, atvinnufyrirtækin og þjóðin öll.
Þróun flutninga
Faxaflóahafnir eru samkvæmt flestum mælikvörðum lítið hafnasamlag, þótt þar fari sennilega 80% af gámaflutningi þjóðarinnar. Á árinu 2017 fóru 350.348 TEU um hafnirnar.
Skýring: TEU er mælieining, meðal annars til að sýna flutningsgetu gámaskips eða geymslurými gámaafgreiðslu. Ein TEU = gámur sem er 20 fet á lengd, 8 fet á breidd og 8½ fet á hæð að ytri málum. Slíkur gámur er á fagmálinu kallaður 20´ DC (e. Dry Container). 40´ HC (High Cube) er 40 feta gámur sem hefur 2,4 sinnum meira rúmtak en 20 feta gámur, er feti hærri og tvöfalt lengri.
Til samanburðar fóru 195.460 TEU um Ósló á árinu 2015 og 460 þúsund TEU um höfnina í Árósum. Faxaflóahafnir eru nálægt meðaltali þessara hafna.
Síðan 2012 hefur umferð um Grundartanga verið um 12% af heildarmagni Faxaflóahafna. Árið 2017 fóru 310.2015 TEU um Sundahöfn. Meðaltal gáma (í TEU) á hverja 1000 íbúa landsins um Sundahöfn 2005–2017 var 725.
Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands frá 30. október 2017 verða íbúar landsins 452 þúsund árið 2066. Í háspánni er gert ráð fyrir því að íbúar verði 531 þúsund í lok spátímabilsins en 367 þúsund í lágspánni. Við förum bil beggja, höfum borð fyrir báru og miðum við meðaltal háspár og miðspár. Talan fyrir útreikningana verður þá 492 þúsund.
Því er áætlað að árið 2066 verði magn um Sundahöfn 357 þúsund TEU. Með framreikningi verður gámaumferð um Sundahöfn um næstu aldamót 430 þúsund TEU. Íslandi og í flestum Evrópulöndum fer fæðingartíðni lækkandi, en fjöldi aðfluttra stendur fyrir stórum hluta fólksfjölgunar. Líkur eru á að fjöldi starfa, eins og við þekkjum þau nú, hverfi á næstu árum og áratugum.
Stærð gámahafna
Sundahöfn er fyrst og fremst gámahöfn. Skipta má svæðisnotkun í gámahöfnum í þrjá meginhluta:
- Hafnarbakki og 20–50 metra athafnasvæði til losunar og lestunar.
- Gámavöllur til geymslu gáma.
- Frystigeymslur eru gjarnan nærri hafnarbökkum, þá geymslusvæði fyrir bíla, og síðan viðgerða- og áhaldasvæði á jaðrinum.
Í jöðrum svæða eru almennar vörugeymslur, þar sem vörur sem koma í gámum eru lesnar í sundur og geymdar á pöllum í hillukerfum.
Víðast erlendis nota mörg skipafélög hverja gámahöfn, bjóða heilgámaflutninga til stærri viðskiptamanna og selja flutninga í gegnum flutningsmiðlara sem hafa vöruhús. Þar er óalgengt að skipafélög reki vöruhús í höfnum.
Veltuhraði gáma
Þegar ákveðin er stærð gámavallar þarf að huga að veltuhraða gáma, þ.e. hversu lengi gámur er í geymslu að meðaltali, og einnig álagstoppum. Samkvæmt skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Tioga frá 2012 er meðal-veltuhraði í bandarískum höfnum 32, sem þýðir að gámur er að jafnaði rúma 11 daga í höfn. Það hlýtur að vera takmarkið á Íslandi að af hafa veltuhraðann að minnsta kosti 26, þannig að hver gámur sé að jafnaði tvær vikur í höfn eða skemur. Þar sem stór hluti af gámunum eru frystigámar sem þurfa veltuhraða 52 ætti að vera vel vinnanlegt að hafa hraðari veltu en 26.
Dublin
Í Dyflinni, höfuðborg Írlands, hafa menn undanfarin ár hugað að stækkun hafnarsvæðisins. Þar er sagt að einn bryggjumetri eigi að duga fyrir 700 TEU á ári. Ef við notum þá tölu fyrir Reykjavík og veljum árið 2017, þá þarf að lágmarki 443 metra. Miðað við áætlað magn 2066 þarf 507 metra hafnarkant. Á árinu 2017 fóru 698.348 TEU um höfnina í Dyflinni. Þeir segja að hver hektari eigi að dugi fyrir 25 þúsund TEU á ári. Í Reykjavík 2017 þarf þá 12,4 hektara. Hér er gert ráð fyrir krönum og búnaði sem sparar pláss, og miklum veltuhraða.
Viðmiðanir Drewry
Eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki heims í flutningum er Drewry. Þeir segja að hver bryggjumetri geti tekið 800–1.700 TEU á ári. Raunframleiðni er í kringum 900 TEU. Heimsmeðaltal gáma um gámavöll er 20 þúsund TEU á hektara árlega.
Svæðisþörf – Búnaður samkvæmt mati Valensíumanna
Sérfræðingar hafnarinnar í Valencia-borg á Miðjarðarhafsströnd Spánar hafa metið hvað gámahöfn þarf mikið land miðað við notkun hinna ýmsu tækja. Veltuhraðinn ræður síðan nýtingu. Til einföldunar er hér notast við veltuhraða 26.
Höfnin í Ósló
Höfnin í Ósló er stærsta gámahöfn í Noregi. Þar er losað og lestað 22% gáma til og frá Noregi. Heildarfjöldi gáma inn og út úr Noregi var árið 2016 um 845 þúsund TEU.
Gámakranar 4
Vallarkranar 8
Lengd byggju 665 m
Árlega fara um 200 þúsund TEU um höfnina og er innflutningur um 75%. Núverandi geta hafnarinnar er 260 þúsund TEU á ári. Fyrirhugaðar breytingar auka getuna upp í 450 þúsund TEU á ári, sem er 73% aukning.
Yilport, tyrkneskt fyrirtæki rekur gámaafgreiðsluna, hefur leigt land og tæki af Óslóarhöfn til 20 ára með möguleika á 10 ára framlengingu. Þeir hafa gert samning við finnska alþjóðafyrirtækið Kone um fyrirbyggjandi viðhald og viðgerðir á krönum og öðrum búnaði í höfnum á þeirra vegum í Norður-Evrópu.
Höfnin í Árósum
Um höfnina í Árósum fóru 460 þúsund TEU á árinu 2016. Hlutfall tómra gáma var 29%, og þungi í meðal-TEU 9 tonn. Höfnin er búin sjö gámakrönum. Bryggjulengd er 1.300 metrar. Á 750.000 fermetra gámasvæði nota menn gámaklofa, sem nýta plássið verr en gámavalla-kranar á hjólum eða á sporum, eins og áður kom fram.
Hreyfingar eru 37.500 á hvern krana að jafnaði. Um 354 TEU fóru um hvern bryggjumetra.
Skýring: Mun fleiri gámar eru 40´ en 20´. Þjónustugjald (t.d THC) er víða lagt á gáma óháð stærð. Hreyfing (e. move) merkir tilfærslu gáms/gáma, t.d. með krana., Í Árósum eru að jafnaði 1,75 TEU að baki hverri hreyfingu. Í Dyflinni hefur þetta hlutfall undanfarin ár verið 1,77. Almennt er þó enn miðað við um 1,6 TEU að baki hverri hreyfingu.
Evrópusambandið og alþjóðleg samkeppni í flutningum
Innan Evrópusambandsins hefur verið mikil umræða um hafnir og samkeppni um hafnar-þjónustu og hefur þar meðal annars verið rætt um verkefni hafnarstjórna og gámafgreiðslna. Nýverið var gefin út reglugerð, 2017/352, um þjónustu í höfnum, þar á meðal almennar reglur um samkeppni og upplýsingagjöf um verð og kostnað. Líklegt er að reglugerðin verði tekin inn í EES-samninginn og öðlist gildi hérlendis á næstu mánuðum.
Margar hafnarstjórnir í ESB-ríkjunum töldu að samkeppni væri það mikil að óþarft væri að setja um þetta frekari reglur.
Í velflestum ríkjum Evrópusambandsins hefur fólk og fyrirtæki val í flutningum. Það er hægt að flytja með járnbraut, bílum, ferjum, gámaskipum. Það er stutt milli hafna, og að járnbrautunum slepptum eru margir um hituna í öllum greinum. Evrópusambandið og flest ríki þess leggja mikið upp úr virkri samkeppni vegna þess að hún færir lægra verð, betri vörur og þjónustu, og er oft aflvaki nýjunga.
Aðstæður á Íslandi eru á flestan hátt andhverfa þeirrar stöðu sem hér var lýst. Ísland er eyja sem ekki er í alfaraleið. Það útilokar samkeppni í millilandaflutningum með járnbrautum eða bílum. Markaðurinn er lítill og ekki er alltaf hægt að ná hagkvæmni stærðarinnar. Þegar það er hægt er viljinn oft ekki fyrir hendi, að minnsta kosti ekki í sjóflutningum.
Innan Evrópusambandsins eru menn á varðbergi gagnvart opinberum stuðningi við hafnir til að skapa ekki mismunun í samkeppnisstöðu. Á Íslandi gilda hins vegar lög um hafnir sem auðvelda hafnarstjórnunum að krefjast hárra gjalda fyrir notkun hafnanna. Þegar einungis eru skoðuð vörugjöld og afleidd gjöld, þá sést að þau eru svo vel útilátin í samanburði við hafnir í grannríkjunum að til eru fjármunir til verulegra fjárfestinga í viðlegum og landi fyrir skemmtiferðaskip, sem til skamms tíma hafa ekki verið krafin um farþegagjöld, og fyrir hvalskoðunarfley, sem nota verulegan hluta gömlu hafnarinnar í Reykjavík.
Drewry 1994
Umræðan um sjóflutninga á Íslandi er að öllu jöfnu neikvæð og menn tala helst um hvað það sé dýrt að flytja vörur með skipum. Árið 1994 réð Félag íslenskra stórkaupmanna (nú Félag atvinnurekenda) breska ráðgjafarfyrirtækið Drewry til að gera rannsókn og vinna skýrslu, og ber hún heitið Íslenski gámaflutningamarkaðurinn í alþjóðlegu samhengi. Þetta er áhugaverð skýrsla og er full þörf á að gera slík athugun á nokkurra ára fresti.
Í skýrslunni er bent á að upp- og útskipunargjöld eru hér meiri en á helstu grannsvæðum í Evrópu og Ameríku, og að auki byggð upp á annan hátt, sem torveldar samanburð. Síðan hefur gjaldstofn upp- og útskipunargjalda á Íslandi breyst og er nú gámur í stað þunga eða rúmmáls áður, en enn er miklu dýrara en annars staðar að skipa hér upp og út.
Þá var bent á þetta:
- Innlend skipafélög eiga hafnaraðstöðuna, sem fælir hugsanlega keppinauta frá markaðnum.
- Engin sjálfstæð upp- og útskipunarstarfsemi (þ.e. „stevadorar“) eins og algengast er í alþjóðaflutningum.
- Veik starfsemi sjálfstæðra (alþjóðlegra) skipamiðlara sem selja flutninga til og frá landinu.
Þessi þrjú atriði eru enn óbreytt, 24 árum síðar.
Niðurstöður könnunarinnar sem Drewry gerði voru samkvæmt fréttatilkynningu frá stórkaupmönnum:
- Áhrif flutningskostnaðar á myndun vöruverðs hér á landi eru margföld á við önnur lönd.
- Áhrif flutningskostnaðar á verð útflutningsvöru eru margföld á við sambærilegar vegalengdir og flutningsmagn í nágrannalöndunum.
Upp og útskipun gáma – THC-kerfið
Eftir gámavæðinguna sjöunda áratugnum ríkti óvissa um það hvernig greiða skyldi kostnað við losun gáma og lestun, og var komið upp verulegt ósamræmi í þeim efnum milli hafna. Stuðst var við túlkun á hinum gömlu reglum um út- og uppskipun. Samkvæmt FOB-skilmálum hefur seljandi afhent vöru þegar hún fer yfir borðstokk, sem þýðir að kostnaður eftir það er ekki á ábyrgð seljanda og er þess vegna kostnaður skips. Áður var vinna um borð mannaflsfrek, en nú er þetta nær eingöngu kostnaður við krana og sjóbúnað. Móttaka og geymsla gáma krefst síðan tækja og lands.
Hinn 18. október 2008 gekk í gildi bann Evrópusambandsins við öllu samráði útgerða sem sigldu til evrópskra hafna og frá. Upp frá því breyttu allar helstu útgerðir sem sigldu á Evrópu aðferð sinni við gjaldtöku. Eitt gjald, THC (Terminal Handling Charges), er greitt fyrir móttöku gáms í höfn, geymslu og lestun um borð í skip í lestunarhöfn, og samskonar gjald í losunarhöfn fyrir losun, geymslu og afhendingu. Meginatriðin í hinni nýju skipan eru þrjú:
- Hver útgerð tekur sama gjald fyrir THC, óháð stærð gáms, að því tilskildu að um sé að ræða helstu gámagerðir þurrgáma með venjulega vöru.
- Að sama gjald er tekið fyrir allar hafnir í sama landi sem útgerðin siglir á.
- Að upphæð gjaldsins nemi nokkurn veginn kostnaði við það sem greitt er fyrir.
Í flestum Evrópuríkjum eru vörugjöldin innifalin í THC. Undantekningin er Noregur, Danmörk og Svíþjóð.
Á Íslandi er enn notast við gömlu heitin, upp- og útskipun, og þó að gjaldstofn hafi eitthvað verið aðlagaður frá skýrslu Drewry til Félags íslenskra stórkaupmanna fyrir 24 árum, þá er verðið út úr korti, eins og lýst verður hér á eftir. Í þessari grein er hvatt til breytingar á gjaldtöku í þá átt sem tíðkast í nágrannalöndunum, og verður hér notast við alþjóðaheitið THC þegar átt er við það sem íslenskar útgerðir kalla upp- og útskipunargjöld. Helst ætti gjaldið að fela í sér greiðslu fyrir alla vinnu. Fyrir útflutning: Frá lestun tóms gáms á flutningstæki til lestunar hjá afskipanda komu gáms til baka að hliði og til þess að gámur hefur verið lestaður og gengið frá honum um borð í skip fyrir útflutning. Fyrir innflutning: Losun, geymsla, afhending lestaðs gáms og móttaka tóms gám að lokinni losun hjá móttakanda. Þessi starfsemi býðst útgerðum í nær öllum höfnum, og gjaldið er talið sanngjarnt.
Reykjavík í samanburði – Hafnir í nágrannalöndum
Nú reka skipafélögin tvö gámaafgreiðslur í Sundahöfn og nota til þess allt land sem til er á hafnarsvæðinu. Samskip birta gjaldskrá á vefsetri sínu. Upplýsingarnar að neðan eru byggðar á þeirri gjaldskrá og er notast við gengi gjaldmiðla 5. febrúar 2018. Til viðbótar er krafist öryggisgjalds til útgerðar sem er € 65 á gáminn. Í tvíkeppni er ástæða til að ætla að bæði fyrirtækin séu með svipað verð, en Eimskip gefur ekki upp þjónustugjöld á vefsetri sínu. Athugun í desember 2014 leiddi í ljós að Eimskip var með 10% lægri upp- og útskipunargjöld en Samskip. Hér verður notast við 90% af meðaltali „upp og útskipunargjalda“ af algengustu gámastærðinni, 40´ HC, þ.e. € 1.091, að meðtöldu öryggisgjaldi til útgerðar.
Þetta eru miklu hærri tölur en eru á verðskrám gámahafna í grannlöndum eða því svæði sem íslensk skip sigla á. Hér verða til einföldunar notaðar tvær hafnir, í Ósló og Árósum. Þjónusta er seld skipafélögum sem nota höfnina og leggja þau eitthvað á það verð sem gámahöfnin setur upp. Hér eru meðaltöl tveggja af stærstu félögum heims, MSC og CMA CGM:
Ósló Upp- og útskipun plús öryggisgjald € 117
Árósar Upp- og útskipun plús öryggisgjald € 138
Skipafélög innheimta ýmis önnur gjöld sem ekki eru talin hér, enda er ætlunin að gefa góða innsýn en ekki að gera nákvæman samanburð.
Ástæðan fyrir því að þessar tvær hafnir eru valdir til samanburðar er að þær eru svipaðar að stærð og Reykjavík dagsins í dag (Ósló) og eftir 60 ár eða svo (Árósar).
Til samanburðar má geta þess að THC í Rotterdam er € 210 hjá þriðja stærsta skipafélagi heims, CMA-CGM, og í Hamborg € 230, en vörugjöldin eru innifalin í báðum höfnum.
Vörugjöld
Vörugjöld eru mikilvægasti tekjustofn Faxaflóahafna. Á árinu 2016 voru vörugjöld 37,7% tekna Faxaflóahafna, sem námu alls 3,4 milljörðum. Hagnaður ársins 2016 var 21,8% tekna.
Í mörgum höfnum erlendis eru vörugjöld vöru í gámum innifalin í THC, en þar sem þau eru innheimt sérstaklega er oftast notuð ein upphæð á gám, án tillits til gámstærðar. Í Árósum er gjaldið € 24,18 á gám. Í Ósló eru innheimtar € 17,12 á gám í vörugjöld.
Faxaflóahafnir hafa, eins og flestar aðrar hafnir á Íslandi, fimm gjaldskráflokka fyrir vörugjöld. Fyrstu tveir eru einungis fyrir vöru sem kemur nær alltaf í stórflutningaskipum, í heilförmum. Fimmti flokkur eru aflagjöld, 1,27% af virði aflans. Hér verður ekki frekar fjallað um þessa flokka.
Vörur sem koma í gámum fara ýmist í þriðja og fjórða flokk. Sjávarafurðir og vörur til byggingarframkvæmda eru í þriðja flokki þar sem gjaldið er 657 kr. á tonn, og allar aðrar vörur í fjórða flokk þar sem gjaldið er 1.782 kr. á tonn.
Almennt er gengið út frá því að meðalþungi vöru í TEU sé um 9 tonn. Í þessum útreikningum er reiknað með 8 tonnum á hverja TEU, þá skiptingu milli flokka að ¾ fari í þriðja flokk og ¼ í fjórða flokk, og notuð 1,6 TEU til að finna út vörugjöld á gám, sem verður þá kr. 12.010.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Samkvæmt 18. grein gjaldskrár Faxaflóahafna er fjallað um gjald fyrir „farmvernd“ (þ.e. fyrir sama verksvið og ISPS-gjald skipafélaganna), sem er 20% álag á vörugjöld.
Hér eru vörugjöld í þremur höfnum borin saman, Byggt er á vefsetrum skipafélaga og hafnanna í Ósló og Árósum og reiknaðri samsetningu hugsanlegs meðalgáms á Íslandi.
Vörugjöld á gám óháð stærð
Reykjavík € 115 með farmverndarálagi
Ósló € 17
Árósar € 24
Byggt á gefnum forsendum eru vörugjöld Faxaflóahafna meira en fjórum sinnum dýrari en vörugjöld í Árósum og sex sinnum dýrari en í Ósló.
Á fundi Flutningahóps sjávarklasans nýlega hélt framkvæmdastjóri samtaka útvegsmanna því fram að það væri 65% munur á kostnaði við flutning til Asíu frá Álasundi í Noregi annars vegar og frá Neskaupstað hins vegar. Að vísu eru engar gámasiglingar til Neskaupstaðar og er flutt með bíl til Mjóeyrarhafnar, en mörg skipafélög bjóða verð frá Álasundi. Gefum okkur að lestuð hafi verið 24 tonn í 40´-gám á báðum stöðum. Vörugjald í Álasundi fyrir frystigám á leið til Shanghai er NOK 375 eða € 39, samkvæmt vefsetri skipafélagsins CMA CGM. Í Fjarðarbyggð er vörugjald kr. 14.280 eða € 114 og hjá Faxaflóahöfnum 18.921 kr. eða € 151 með farmverndarálagi, sem er tæplega fjórum sinnum gjöldin í Álasundi.
Þegar rætt er um samkeppnisstöðu íslensks útflutnings er vert að spyrja hvort einhver réttlætanleg ástæða sé fyrir því að vörugjöld fyrir vöru í gámum séu 4–5 sinnum hærri en hjá nágrönnum okkar.
Svona til að fá breiðari mynd þá eru hér tveir aðrir vörugjaldsflokkar í þessum þremur höfnum – upphæð á tonn í evrum:
Dæmi um sérhæfða gámaafgreiðslu í Sundahöfn
Sérhæfð gámaafgreiðsla í Sundahöfn þarf að hafa nægilegt land fyrir gáma, og að öllum líkindum er betra að geyma nýja bíla annars staðar. Það þarf land nálægt höfn fyrir viðhald tækja. Það þarf bryggju sem dugir fyrir eðlilega viðveru gámaskipa í höfninni, og það þarf réttan búnað.
Beinan hafnarkant þarf fyrir gámakrana á sporum. Sá kantur yrði á því svæði sem nú er verið að þróa og liggur austan við núverandi gámabryggju Eimskips og norðan Vogabakka, gámabryggju Samskipa. Vegalengd að meginvöruhúsum félaganna tveggja yrði svipaður.
Með þessu er Vogabakki ekki lengur gámabryggja.
Sparnaður við rekstur einnar vel búinnar gámaafgreiðslu í Reykjavík kemur fram í þessum þáttum:
- Mun minna pláss notað.
- Færri tæki, færra fólk, þar með talið í yfirstjórn.
- Eitt verkstæði fyrir tæki.
- Eitt hlið, minna af fólki.
- Mun hraðari afgreiðsla skipa.
Magn og land
Spáð er að gámafjöldi á árinu 2066 verði 357 þúsund TEU. Með gámavallarkrönum á hjólum þarf 17 hektara fyrir þetta magn að gefnum forsendum.
Um aldamótin gætu 430 þúsund TEU farið um Sundahöfn. Með því að auka veltuhraðann aðeins á landið að duga. 17 hektarar fyrir gámavöll er lítill hluti lands í Sundahöfn. Til viðbótar þarf síðan land fyrir viðhald tækja, stjórnun og hliðvörslu Mynd: 600 metra viðlegu-kantur, 55 metra athafnasvæði og 17 hektarar er meginhlutar gámaafgreiðslu. Punktalínan sýnir legu Sundabrautar. Við bryggju eru sýnd 2.748 TEU-, 1.730 TEU- og 800 TEU-skip, sem er meira en Evrópuflotinn ber í byrjun árs 2018. Ekki er þó endilega mælt með því að allur flotinn sé við bryggju í einu.
Til að losa og lesta skip á sem skemmstum tíma væri æskilegast að hafa fjóra gámakrana á sporum: Til að raða gámum og geyma á gámavelli þarf 2–3 gámavallakrana á hjólum á hvern skipskrana. Þá þarf tæki til að flytja gáma frá skipi að stæðum.
Í nútímahöfnum er stefnt að því að reka öll slík tæki á eins sjálfvirkan hátt og hægt er. Í stjórnstöð er fylgst með tækjum og krönum er stýrt þegar þarf við stjórnborð með skjáum sem gefa fulla sýn yfir athafnasvæðið. Allur þessi búnaður er rafknúinn, beint og með rafhlöðum. Ekki þarf nema um helming þess mannafla sem nú er að störfum, og flest störf verða „innivinna“.
Kostnaður við fjárfestingu og rekstur yrði líklegast í kringum € 50 á fluttan gám. Allt bendir til að sérhæft fyrirtæki í gámaafgreiðslu gæti boðið gjaldskrá sem ekki hærri en sú í Árósum og greiddi Faxaflóahöfnum jafnframt drjúga leigu fyrir aðstöðuna.
Komur til Reykjavíkur 2017
Um þessar mundir eru 7 vikulegar viðkomur gámaskipa („leiðir“ í töflunni), frá 505 TEU til 1.457 TEU að stærð með samanlagða burðargetu um það bil 5.300 TEU. Á árinu voru að jafnaði flutt rúmlega 6.700 TEU um Faxaflóahafnir á viku, 3.350 inn og 3.350 út, í einfölduðu máli. Sex leiðanna eru til og frá Evrópu og ein til og frá Bandaríkjunum.
Hér verður sjónum beint að Evrópusiglingunum og sýndur annars vegar sá tími sem dvalist er í Reykjavík og hins vegar heildartími innan Reykjavíkursvæðisins.
Hraði og olíunotkun
Til að draga úr kostnaði er í siglingum leitast við verja sem minnstum tíma í höfn til að geta siglt á minni hraða, eins og sjá má á þessari skýringarmynd sem byggð er á þriðjaveldisreglu.
Hröð og örugg afgreiðsla skipa í Reykjavík leiðir til minni olíunotkunar og minni mengunar. Ekki þarf að spyrja um minni olíukostnað. Eftirtektarverður er munurinn á olíunotkun Arnarfells við 15 hnúta hraða í stað 17 hnúta – minnkar um þriðjung.
Búnaðurinn sem getið er að ofan dugir til að losa og lesta skipin að ofan á samtals 40 stundum við meðalaðstæður. Sé flutningurinn er 50% meiri duga 60 tímar.
Niðurstöður
Sérhæfð gámaafgreiðsla sparar stórfé og tryggir öllum skipum hraða afgreiðslu. Í samningi við slíkt fyrirtæki verður að gera ráð fyrir að a) gjöld verði ekki hærri en í Árósum, b) greidd verði hærri leiga til hafnarinnar, miklu hærri en nú.
Með verulega hærri lóðaleigu og samkeppnisaðgerðum yfirvalda þarf að gera einokun skipafélaganna, og eigin rekstur gámaafgreiðslu, dýrari og óaðlaðandi eða ómögulegan.
Með sérhæfðri gámaafgreiðslu í Sundahöfn geta verið þar til ráðstöfunar í náinni framtíð 30–40 hektarar, sem nýta má á marga vegu. Möguleiki skapast til að auka enn við íbúðarbyggð báðum megin við Sundahöfn, í Vogabyggð í suðri og við Laugarnes í norðri.
Gámaafgreiðsla stendur ekki í vegi fyrir brú vegna Sundabrautar norðan við Holtagarða.
Ekki er að sjá neina réttlætingu fyrir mjög háum vörugjöldum. Til að lækka vörugjöldin er á hinn bóginn eðlilegt að aðrir notendur hafnarinnar borgi meira fyrir þá þjónustu og aðstöðu en nú er.
Það vantar samkeppni í alvöru. Erlend skipafélög og flutningsmiðlarar þurfa að geta verið með á íslenskum flutningamarkaði.
Það þarf upplýsta umræðu um flutninga, um verð á flutningaþjónustu og um stefnu í flutningamálum. Það er óþarfi að stöðugt sé talað um hátt verð hjá skipafélögunum af því menn vita ekki betur.
Í stefnu í samgöngu- og flutningamálum þarf að sjá til þess að flutningur – til landsins og frá en ekki síður innanlands – verði eins hagkvæmur og kostur er, og að veitt sé sú þjónusta sem atvinnuvegirnir og almenningur eru tilbúnir að borga fyrir. Leitað verði leiða til að sem mest nýting fáist á skip, land og tæki sem notuð eru, og stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda verði sem allra minnstri. Ríkisvaldið er málsvari notenda og neytenda og sér til þess að tölulegar upplýsingar um flæði og kostnað liggi frammi. Markaðurinn verði opinn, og upplýsingar svo aðgengilegar að enginn þurfi að hafa það á tilfinningunni að hann hafi ekki fengið sanngjarnt verð fyrir flutning. Komið í veg fyrir mismunun í verði þjónustu sem skýrist ekki af þjónustustigi.
Sérhæfð gámaafgreiðsla krefst miklu minna lands en nú er í notkun. Rétt er að laga skipulag og landnotkun að því. Skip, ekki bara gámaskipin, verða færri og stærri, og er ekki séð fyrir endann á þeirri þróun. Skipulag hafnarinnar hlýtur að taka mið af því.
Að lokum
Nafn COSCO er aðeins notað hér vegna þess hversu líkt það hljómar og COSTCO. Höfundur er enginn aðdáandi COSCO og tekur líklegt að Maersk eða CMA-CGM gæti rennt hýru auga til Íslenska flutningamarkaðarins, því bæði félögin fjárfesta umtalsvert í nýjum skipum fyrir flutninga innan Evrópu, sem byggð eru fyrir 45 feta gáma sem eru 250 cm á breidd. Það kemst meira í slíka gáma sem sparar kostnað við innanlandsflutninga.