Stutt frétt um stórt mál, jafnvel á íslenskan mælikvarða, birtist á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu 18. janúar sl. Þar var sagt frá aðgerðum bresku ríkisstjórnarinnar sem fólust í að setja verkefnið „einsemd inn á borð ráðherra“. Markmið Breta er að bregðast við vaxandi einsemd í samfélaginu og heiðra minningu breska stjórnmálamannsins Jo Cox.
Einmanaleiki er samfélagslegt og einstaklingbundið vandamál, víðar en í Bretlandi. Þannig má sjá umfjallanir um landsdekkandi átaksverkefni t.d. í Danmörku, Ástralíu, Bretlandi og víðar. Fullyrt er að 9 milljónir Breta séu oft eða alltaf einmana og í danskri rannsókn kemur fram að um 24% þeirra sem eru 65 ára og eldri upplifi sig stundum eða oft einmana. Líkamlegar, andlegar og samfélagslegar afleiðingar einmanaleika eru sagðar hættulegri heilsunni en offita eða að reykja 15 sígarettur á dag. Af þessum ástæðum kallar breska ríkisstjórnin nú til stefnumótunar og aðgerða á efsta plani stjórnkerfisins.
En hver er staðan á Íslandi –er einhver einmanaleiki hér og er tilefni til að ætla að afleiðingar einmanleika séu svipaðar hér og í öðrum löndum?
Í könnun sem gerð var í lok árs 2016 og unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara, kom fram að um tveir af hverjum þremur eldri borgurum (um 65%) er aldrei einmana. Hópurinn sem upplifir einmanaleika hefur þó stækkaði frá árinu 2007 að fyrsta könnunin var gerð og árið 2012 mældust 13% eldri borgara stundum eða oft einmana og það hlutfall orðið 17% svarenda árið 2016. Þá kom einnig fram að mun fleiri upplifa einmanaleika stundum eða oft, í hópi þeirra sem eru ógiftir eða ekkjur/ekklar, búa einir, eru tekjulitlir eða búa við slæma heilsu.
Í nýrri íslenskri rannsókn meðal 60 ára og eldri kemur fram að um 22% Íslendinga sem eru 67 ára og eldri upplifa sig einmana stundum eða oft. Fleiri konur en karlar upplifa einmanaleika og þá virðast þeir sem yngri eru (eru 60-67 ára) upplifa meiri einmanaleika en þeir sem eldri eru. Því má gera ráð fyrir að á bilinu 7000 - 8500 Íslendingar 67 ára og eldri upplifi einmanaleika stundum eða oft. Þessar niðurstöður eru í takti við það sem áður hefur komið fram og að ýmislegt bendi til að meiri einmanaleiki sé meðal yngra fólks en eldra.
Til að bregðast við einmanaleika meðal þjónustuþega og viðleitni til að setja málefnið á dagskrá, hafa Öldrunarheimili Akureyrar og skrifstofa öldrunar- og húsnæðismála hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þýtt og gefið út bækling um einmanaleika meðal eldra fólks. Þekkt er að einmanaleiki hefur veruleg áhrif á lífsgæði eldra fólks og þörf þess fyrir aðstoð eða þjónustu.
Það er okkar mat að nægt tilefni sé til að ríkisstjórn og sveitastjórnir hér á landi, sýni frumkvæði og fylgi fordæmi annarra þjóða með því að marka skýra stefnu og aðgerðaáætlun til að vinna gegn einmanaleika, bæði yngra og eldra fólks.
Höfundar starfa við velferðarþjónustu sveitarfélaga. Halldór S. Guðmundsson er framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar og Berglind Magnúsdóttir er skrifstofustjóri öldrunar- og húsnæðismála hjá Velferðarsviði Reykjavíkur.