Leikskólar Reykjavíkur eru einn mikilvægasti burðarás velferðarþjónustu borgarinnar. Leikskólarnir eru fyrsta menntastigið en þar læra börn líka að leika sér við önnur börn og ótal marg annað. Í leikskólum eru lagðar fyrstu og einna mikilvægustu stoðirnar undir þroskaferil þeirra. Þeir eru ekki síður mikilvægur hluti félagslegra innviða íslensks samfélags eins og heilbrigðiskerfið okkar og háskólarnir.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að leikskólar borgarinnar standa frammi fyrir alvarlegum vanda. Þeir hafa, eins og svo margar aðrar stofnanir samfélagsins, þurft að þola mikinn niðurskurð eftir hrun.
Vinda þarf ofan af niðurskurði fyrri ára
Í tíð núverandi meirihluta sem við í Vinstri grænum mynduðum með Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum árið 2014 höfum við á seinni hluta kjörtímabilsins horfið af braut niðurskurðar. Við höfum aukið framlög til leikskólastarfs um 2 milljarða króna og samhliða því lækkað leikskólagjöld um sem samsvarar nærri 85.000,- krónum á ári á fjölskyldu með eitt barn í átta tíma vistun. Það munar um minna í heimilisbókhaldi barnafjölskyldna.
Þótt við Vinstri græn séum stolt af lægri álögum á barnafjölskyldur og því að byrjað sé að vinda ofan af niðurskurði í starfsemi leikskólanna þá er deginum ljósara að frekari aðgerða er þörf í leikskólunum til að mæta þeim brýna vanda sem þeir standa frammi fyrir. Ástandið í mannaráðningum er slæmt, svo það sé sagt hreint út, og hlutfall faglærðs starfsfólks, leikskólakennara, lækkar. Hinu daglega starfi er á flestum stöðum haldið uppi af vinnusömu og harðduglegu fólki sem er einbeitt í því að láta allt ganga upp eins og best verður á kosið. Bæði faglærðu og ófaglærðu. Treglega gengur hins vegar að fá nýtt fólk til starfa sem vill gera leikskólann að starfsvettvangi sínum til framtíðar.
Bregðast verður við bráðavanda leikskólanna
Nýlega var birt aðgerðaáætlun í leikskólamálum í Reykjavík sem var unnin í þverpólitísku starfi með fagfólk innanborðs. Í henni eru umfangsmiklar aðgerðir til að rétta kúrsinn – og þó fyrr hefði verið.
Ég ætla ekki að tíunda þær allar enda mýmargar og yfirgripsmiklar en þó langar mig að dvelja við eina aðgerð, sem ekki er fjallað nægilega mikið um í áætluninni, og ræða það sem skiptir höfuðmáli fyrir framgang allra starfa í menntaumhverfi ungra barna. Það eru launin.
Leiðrétta verður laun leikskólastarfsfólks
Það liggur í augum uppi að laun leikskólakennara, deildarstjóra í leikskólum og leikskólastjóra þurfa að vera hærri ef auka á nýliðun í stéttinni. Um þetta er ekki deilt og í síðustu kjarasamningum fengu leikskólakennarar allnokkrar kjarabætur þó enn megi gera betur.
Á hinn bóginn starfa líka margir svokallaðir ófaglærðir starfsmenn í leikskólum (og grunnskólum) og flestallir á Eflingartöxtum. Þessi hópur myndar um tvo þriðju hluta alls starfsfólks á leikskólum borgarinnnar og því morgunljóst að hér er verið að tala um stóran og gífurlega mikilvægan þátt í starfi þessara grunnstofnana samfélagsins. Það hversu lítið þeirra hlutur og þeirra raddir hafa heyrst í umræðunni um stöðu leikskólanna er bagalegt.
Réttlætiskrafa stórra kvennastétta
Það eru konur sem halda uppi menntun barna í leik- og grunnskólum. Það eru líka stórar kvennastéttir sem sjá um umönnun eldra fólks eða starfa við að hlúa að fólki í heilbrigðiskerfinu eins og t.d. hjúkrunarfræðingar og ljósmæður. Viðgangur hvers samfélags byggir á þessu tvennu – menntun og velferð.
Þessar stóru kvennastéttir bera uppi félagslega innviði samfélagsins. Það mætti segja að þær séu félagslegir innviðir samfélagsins. Það eru því hagsmunir samfélagsins alls að gætt sé að hagsmunum þessara stóru kvennastétta. Það eru líka hagsmunir samfélagsins að reka hvorki né samþykkja láglaunastefnu.
Raunveruleiki leikskólastarfsmanna
Á skóla- og frístundasviði borgarinnar eru konur innan Eflingar í tæplega 729 stöðugildum. Störf þeirra eru margvísleg. Þær starfa t.d. í skólamötuneytum og við gangavörslu í grunnskólum, en fjölmennasti hópurinn eru leiðbeinendur eða leikskólaliðar í leikskólum.
Í mars voru meðal dagvinnulaun þessara kvenna 320.861,- krónur og meðalheildarlaun 364.445,- krónur. Mánaðarlaun ófaglærðs starfsmanns á grunnþrepi, eins og hann er skilgreindur í samningum, eru 291.596,- krónur án neysluhlés en það eru tíu tímar sem Reykjavíkurborg borgar aukalega fyrir að matast með börnunum. Til samanburðar er leikskólaliði með 316.048,- krónur en það er starfsmaður sem hefur sótt sér nám í leikskólaliðabrú eða nám af leikskólaliðabraut.
Það sér það hver maður að þessi laun eru langt því frá að vera boðleg. Hvað þá að þau endurspegli þá gríðarlegu ábyrgð sem starfsmenn leikskólanna bera og það mikla líkamlega og andlega álag sem fylgir starfinu.
Sveitarfélögin eru láglaunavinnustaðir
Almennt séð greiða sveitarfélögin í landinu lægstu launin. Bæði ríkið og hinn almenni vinnumarkaður greiðir hærri laun. Þegar við skoðum launaþróun síðustu ára sjáum við svo að starfsmenn á leikskólum hafa varla haldið í við almenna launaþróun.
Láglaunastefna á hvergi að viðgangast og þá síst hjá Reykjavíkurborg. Hana eigum við ekki að umbera og eigum að taka forystu um að útrýma henni. Þetta á sérstaklega við um kjör fjölmennra kvennastétta.
Efling og endurreisn leikskólanna er stærsta pólítíska verkefni næsta kjörtímabils
Í endurreisn leikskólastigsins skulum við byggja það upp sem fyrsta menntastigið. Til þess að það sé mögulegt verður bæði að halda í allt það harðduglega fólk sem nú starfar á leikskólunum og laða að nýja starfsmenn. Þetta verður ekki gert nema við leiðréttum starfs- og launakjör ófaglærðs starfsfólks og leikskólakennara. Það er ekki bara réttlætismál heldur er það hagsmunamál samfélagsins alls sem ber ábyrgð á þroska, velferð og uppvexti barna. Þetta kemst ekki til framkvæmda nema í borgarstjórn veljist fólk sem ætlar að ráðast í þær leiðréttingar sem þarf til að búa til réttláta borg –mannvænt samfélag. Það ætlum við Vinstri græn svo sannarlega að gera.