Stjórnmál snúast um að finna samlífi fólks farveg þar sem réttlæti ræður för. Vissulega greinir fólk á um í hverju réttlætið sé fólgið, hvaða reglur séu heppilegar til að koma skikk á samlífið eða hvar sé brýnast að hefjast handa. Þess vegna eru stjórnmál líka vettvangur ágreinings og átaka. En átök í stjórnmálum eru ekki leyst með hnefaréttinum – að minnsta kosti ekki ótempruðum – og þar sem hnefaréturinn ræður, þar eiga stjórnmálin ekki heim. Því miður eru stjórnmálin takmörkuð við nærumhverfi einstakra ríkja og nokkurra afmarkaðra ríkjasambanda. Á alþjóðavettvanginum eru stjórnmál ekki til. Þar ræður hnefarétturinn; sá sem er með stærsta hnefann, krepptan og reiddan til höggs, hann ræður.
Stjórnmál á Íslandi
Þegar hinn sterki ræður í krafti eigin máttar er ekkert til sem kalla má réttlæti eða ranglæti. Þá er enginn munur á því sem hinn sterki getur gert og því sem hann má gera. Hann gerir bara það sem honum sýnist. Stjórnmál urðu til þegar hinir voldugu fáu, hinir sterku, gátu ekki lengur farið sínu fram í krafti aflsmunar og þurftu að hlusta á hina undirsettu, fjöldann.
Þegar landnemar á Íslandi ákváðu að stofna Alþingi og setja sér lög, ákváðu þeir að leggja stund á stjórnmál. Í þrjár aldir eða svo gekk það fyrirkomulag ágætlega en svo brast kerfið, sundrungin tók við og stjórnmálin viku fyrir skærum. Valdabarátta sem háð var innan ramma laga vék fyrir valdbeitingu sem var takmörkuð af aflinu einu. Hinn sterki tók sér það vald sem hann gat og lögin hættu að vera viðmið um rétt og rangt. Í stað stjórnmála kom hrein valdabarátta; réttur vék fyrir mætti. Síðan þá höfum við náð að endurreisa stjórnmálin og búum nú við einhvers konar sambland af valdbeitingu í þágu sérhagsmuna og samræðu um hvað horfi til réttlætis og sameiginlegra heilla.
Stjórnmál eru sameiginleg viðleitni fólks til að koma skipan á sameiginlegt líf. Mikilvægasta tækið til þeirra verka eru lög og þess vegna einkennir það lýðræðisríki að þar er stjórnað með lögum og í krafti laga. Vissulega eru skiptar skoðanir um hvað sé yfirleitt til heilla og hvar mörkin liggi á milli hins einstaklingsbundna eða persónulega annars vegar og hins almenna eða sameiginlega hins vegar. Sá ágreiningur birtist m.a. í ágreiningi hægri og vinstri í stjórnmálum. Slíkur ágreiningur er hins vegar einungis mögulegur innan ramma stjórnmála; einungis innan slíks ramma er yfirleitt eitthvert vit í því að takast á um ólíkar stefnur. Þar sem mátturinn einn ríkir hafa andstæður hægri og vinstri enga merkingu, þar takast á „við“ og „þið“, „með“ og „á móti“.
Stjórnmálin og heimurinn
Stundum lætur fólk eins og til sé eitthvað sem kalla mætti alþjóðastjórnmál. Háskólar bjóða jafnvel upp á nám undir þessari yfirskrift. Sannleikurinn er hins vegar sá að á hinum alþjóðlega vettvangi er ekki að finna neitt sem verðskuldar það nafn. Vissulega á sér stað samræða um hvað horfi til almannaheilla, til dæmis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, en þegar til kastanna kemur er það mátturinn sem blífur. Þar er ekki spurt um réttlæti, hvað þá siðferði, heldur er mantran þessi: Ég, um mig, frá mér, til mín. Hinir stóru og sterku fara sínu fram, hinir litlu og vanmáttugu spila með eins og hagfelldast virðist hverju sinni. Spurningin er ekki um hvað sé réttlátt heldur hvort líklegra sé að manni farnist betur með heldur en á móti.
Í seinni heimstyrjöldinni giltu engin lög. Eftir að friður komst á varð fyrsta verk nokkurra öflugra þjóða að stofna alþjóðleg samtök og semja mannréttindayfirlýsingu sem öll ríki skyldu vera bundin af. Í Mannréttindayfirlýsingunni birtist hugsjón um að skapa forsendur stjórnmála meðal þjóða heims. Íslendingar tóku þátt og skrifuðu undir þessa yfirlýsingu. Seinna komu aðrar yfirlýsingar og Íslendingar skrifuðu líka undir sumar þeirra, t.d. Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Fleiri samtök voru líka stofnuð, að sögn til að tryggja friðinn og vera vettvangur samtals um heill heimsins. Íslendingar gengu í ein af þessum samtökum, NATO. Fleira var gert, t.d. stofnuðu nokkrar þjóðir Evrópu með sér samband sem skyldi vera rammi utan um sameiginlegt líf fólks í Evrópu, bæði á sviði viðskipta og stjórnmála. Þetta var upphafið af því sem kalla mætti Evrópustjórnmál en er vitanlega ekki alþjóðastjórnmál, því í Evrópu er bara lítið brot af ríkjum heimsins.
Samtök sem þessi, í hvaða heimsálfu sem er, með stofnanir eins og Alþjóðabankann og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn á hliðarlínunni (eða kannski í vítateignum miðjum), halda fundi, semja reglur, gera samninga og láta eins og í gangi sé eitthvað sem kalla mætti alþjóðastjórnmál. Eflaust trúa margir því að slík stjórnmál séu til og séu stunduð af fullum krafti á hverjum degi. Og á góðum degi gæti maður látið blekkjast. Á góðum degi gæti maður næstum haldið að NATO væri til að stuðla að friði innan ramma laga og reglna. En svo er hulunni svipt af. Hjá okkur, hér á þessu kalda landi gerðist það með óvæntum hætti. Fréttir bárust af því að Haukur Hilmarsson hefði líklega fallið í loftárásum NATO-þjóðar í Afrin-héraði í norð-vestur Sýrlandi.
Stríð og ofbeldi í hæfilegri fjarlægð eru svo hversdagslegir hlutir að flest erum við hætt að kippa okkur upp við það. Sem betur fer ekki öll, en því miður flest. Tölur af mannfalli eru lítið annað en þetta – tölur. Litlu breytir þótt flestir hinna föllnu séu óbreyttir borgarar, ekki síst börn. Í stríði eru börn og óbreyttir borgarar bara fórnarkostnaður, ef þau eru þá kostnaður á annað borð. En fréttirnar af Hauki settu ófriðinn sem geisað hefur í Sýrlandi allt í einu í nýtt samhengi. Margir muna eflaust eftir því þegar hann dró Bónus-fána að húni á Alþingishúsinu einn laugardag í nóvember 2008 í aðdraganda búsáhaldabyltingarinnar. Hann öðlaðist virðingu margra fyrir þessa snjöllu og djörfu ádeilu. Og nú var hann sumsé komin suður í lítið hérað í norð-vestur hluta Sýrlands að berjast með Kúrdum fyrir sjálfstæði, eða að minnsta kosti gegn frekari yfirgangi. Þegar maður kynnir sér málstaðinn er ekki erfitt að skilja hvers vegna Haukur hafi einmitt verið Kúrda megin víglínunnar í Afrín-héraði (sjá t.d. grein Steindórs Grétars Jónssonar og grein Illuga Jökulssonar í Stundinni).
Innrás Tyrkja inn í Afrín-hérað er eflaust upphaf af lítilsháttar þjóðarmorði. Á Vesturlöndum láta stjórnvöld sér samt fátt um finnast enda líta þau ekki á sjálfstæði Kúrda sem heppilegt fyrirkomulag. Ekki frekar en að sjálfstæði Palestínu þyki heppilegt. Þar er baráttan reyndar ekki bara fyrir sjálfstæði heldur fyrir því að losna undan hersetu. Palestína hefur verið hersetin af Ísrael í meira en 50 ár – með samþykki allra stjórnvalda á Vesturlöndum, og beinum stuðningi margra. Þar er ekki spurt um lög og rétt; stjórnmálin víkja fyrir sjálfgæsku valdsins.
Stjórnmál sem undantekning – og undantekningin frá stjórnmálum
Þegar horft er yfir svið heimsins má segja að stjórnmál séu undantekning. Kannski er þessum undantekningum að fjölga smátt og smátt – ég man þá tíð að Suður-Ameríka var undirlögð af grímulausu ofbeldi harðstjórna sem sumar áttu sinn vísa stuðning Bandaríkjamanna. Þótt ástandið þar sé með ýmsu móti má samt segja að nú séu stunduð stjórnmál í álfunni. Á alþjóðavettvanginum skánar ástandið hins vegar hægt, ef því fer hreinlega ekki hnignandi. Kannski var stærsta bakslagið í viðleitni ríkja heims til að stunda stjórnmál sín á milli þegar Bandaríkin hófu stríð gegn hryðjuverkum eftir árásirnar 11. september 2001. Þetta stríð byggði á þeirri forsendu að gegn hryðjuverkamönnum væri allt leyfilegt. Þar giltu engar reglur, hvorki reglur friðar né stríðs. Og svo var það auðvitað Bandaríkjanna sjálfra að dæma um hverjir væru hryðjuverkamenn.
Nú hefur fjöldi annarra ríkja tekið upp þetta öfluga tromp: Stríð gegn hryðjuverkum. Fyrst er að skilgreina hverjir séu hryðjuverkamenn (og um það hefur maður sjálfdæmi), og svo er þeim eytt með hvaða aðferðum sem er. Við sjáum þetta í Jemen, Afganistan, Palestínu og þetta var trompið sem Tyrkir spiluðu út þegar þeir réðust inn í Afrín-hérað. Það mátti einu gilda þótt hersveitir Kúrda hafi áður verið bandamenn Bandaríkjanna (og studdir af fleiri þjóðum á Vesturlöndum, jafnvel líka Katar og Ísrael) í baráttunni við hið svokallað Íslamska ríki. Með því að kalla hersveitir Kúrda hryðjuverkamenn varð allt leyfilegt. Og í ástandi þar sem allt er leyfilegt ríkir mátturinn einn og stjórnmál eru ekki annað en fjarlægur draumur; mannréttindi skipta engu máli, því rétturinn til valdsins er hið eina sem blífur.
Þannig hefur stríðið gegn hryðjuverkum verið stríð gegn stjórnmálum. Og hinir sterku – hinir máttugu handhafar valdsins – vinna skipulega að því að viðhalda þessu stríði gegn stjórnmálum enda eru stjórnmálin helsta ógnin við vald þeirra. Á fyrirlestri í Háskóla Íslands í janúar 2017 sagði Magnús Þorkell Bernharðsson m.a.: „Það er ekkert sem bendir til þess að þessu stríði [í Sýrlandi] muni ljúka á þessu ári eða á næstu árum. Það sem við sjáum fram á er í raun og veru óendanlegt stríð á þessu svæði, af því að það er mjög fátt sem hvetur fólk til þess að semja um frið“. Og nú liðlega ári seinna er ekkert sem bendir til þess að hann hafi ekki haft rétt fyrir sér. Því miður.
Á alþjóðavettvanginum horfum við upp á blossandi stríð gegn stjórnmálum. Blóðugustu vígvellirnir eru í Sýrlandi, líka í Jemen, í Palestínu og víðar. Smáríki eins og Ísland á allt sitt undir því að á vettvangi ríkja heims sé möguleiki á stjórnmálum. Því miður hafa íslensk stjórnvöld verið ötulli við að þjóna valdinu en að treysta forsendur stjórnmála. Augljósust var þjónkunin við valdið þegar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson settu Ísland á lista hinna viljugu þjóða. En hvenær sem Ísland ypptir öxlum yfir atburðum eins og innrás Tyrkja í Afrín-hérað, eða morðum Ísraelskra hermanna á palestínskum mótmælendum, eða vopnasölu og flutningum þvert á lög og reglur, þá eru skilaboðin þessi: Við viljum ekki stjórnmál, við viljum heldur dilla okkur í skjóli valdsins.
Höfundur er prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.