Dillum okkur í skjóli valdsins

Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, skrifar grein um stríðið gegn stjórnmálum.

Auglýsing

Stjórn­mál snú­ast um að finna sam­lífi fólks far­veg þar sem rétt­læti ræður för. Vissu­lega greinir fólk á um í hverju rétt­lætið sé fólg­ið, hvaða reglur séu heppi­legar til að koma skikk á sam­lífið eða hvar sé brýn­ast að hefj­ast handa. Þess vegna eru stjórn­mál líka vett­vangur ágrein­ings og átaka. En átök í stjórn­málum eru ekki leyst með hnefarétt­inum – að minnsta kosti ekki ótempruðum – og þar sem hnefarét­urinn ræð­ur, þar eiga stjórn­málin ekki heim. Því miður eru stjórn­málin tak­mörkuð við nærum­hverfi ein­stakra ríkja og nokk­urra afmark­aðra ríkja­sam­banda. Á alþjóða­vett­vang­inum eru stjórn­mál ekki til. Þar ræður hnefarétt­ur­inn; sá sem er með stærsta hnef­ann, krepptan og reiddan til höggs, hann ræð­ur.

Stjórn­mál á Íslandi

Þegar hinn sterki ræður í krafti eigin máttar er ekk­ert til sem kalla má rétt­læti eða rang­læti. Þá er eng­inn munur á því sem hinn sterki getur gert og því sem hann má gera. Hann gerir bara það sem honum sýn­ist. Stjórn­mál urðu til þegar hinir vold­ugu fáu, hinir sterku, gátu ekki lengur farið sínu fram í krafti afls­munar og þurftu að hlusta á hina und­ir­settu, fjöld­ann.

Þegar land­nemar á Íslandi ákváðu að stofna Alþingi og setja sér lög, ákváðu þeir að leggja stund á stjórn­mál. Í þrjár aldir eða svo gekk það fyr­ir­komu­lag ágæt­lega en svo brast kerf­ið, sundr­ungin tók við og stjórn­málin viku fyrir skær­um. Valda­bar­átta sem háð var innan ramma laga vék fyrir vald­beit­ingu sem var tak­mörkuð af afl­inu einu. Hinn sterki tók sér það vald sem hann gat og lögin hættu að vera við­mið um rétt og rangt. Í stað stjórn­mála kom hrein valda­bar­átta; réttur vék fyrir mætti. Síðan þá höfum við náð að end­ur­reisa stjórn­málin og búum nú við ein­hvers konar sam­bland af vald­beit­ingu í þágu sér­hags­muna og sam­ræðu um hvað horfi til rétt­lætis og sam­eig­in­legra heilla.

Auglýsing

Stjórn­mál eru sam­eig­in­leg við­leitni fólks til að koma skipan á sam­eig­in­legt líf. Mik­il­væg­asta tækið til þeirra verka eru lög og þess vegna ein­kennir það lýð­ræð­is­ríki að þar er stjórnað með lögum og í krafti laga. Vissu­lega eru skiptar skoð­anir um hvað sé yfir­leitt til heilla og hvar mörkin liggi á milli hins ein­stak­lings­bundna eða per­sónu­lega ann­ars vegar og hins almenna eða sam­eig­in­lega hins veg­ar. Sá ágrein­ingur birt­ist m.a. í ágrein­ingi hægri og vinstri í stjórn­mál­um. Slíkur ágrein­ingur er hins vegar ein­ungis mögu­legur innan ramma stjórn­mála; ein­ungis innan slíks ramma er yfir­leitt eitt­hvert vit í því að takast á um ólíkar stefn­ur. Þar sem mátt­ur­inn einn ríkir hafa and­stæður hægri og vinstri enga merk­ingu, þar takast á „við“ og „þið“, „með“ og „á mót­i“.

Stjórn­málin og heim­ur­inn

Stundum lætur fólk eins og til sé eitt­hvað sem kalla mætti alþjóða­stjórn­mál. Háskólar bjóða jafn­vel upp á nám undir þess­ari yfir­skrift. Sann­leik­ur­inn er hins vegar sá að á hinum alþjóð­lega vett­vangi er ekki að finna neitt sem verð­skuldar það nafn. Vissu­lega á sér stað sam­ræða um hvað horfi til almanna­heilla, til dæmis á vett­vangi Sam­ein­uðu þjóð­anna, en þegar til kast­anna kemur er það mátt­ur­inn sem blíf­ur. Þar er ekki spurt um rétt­læti, hvað þá sið­ferði, heldur er mantran þessi: Ég, um mig, frá mér, til mín. Hinir stóru og sterku fara sínu fram, hinir litlu og van­mátt­ugu spila með eins og hag­felld­ast virð­ist hverju sinni. Spurn­ingin er ekki um hvað sé rétt­látt heldur hvort lík­legra sé að manni farn­ist betur með heldur en á móti.

Í seinni heim­styrj­öld­inni giltu engin lög. Eftir að friður komst á varð fyrsta verk nokk­urra öfl­ugra þjóða að stofna alþjóð­leg sam­tök og semja mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingu sem öll ríki skyldu vera bundin af. Í Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ing­unni birt­ist hug­sjón um að skapa for­sendur stjórn­mála meðal þjóða heims. Íslend­ingar tóku þátt og skrif­uðu undir þessa yfir­lýs­ingu. Seinna komu aðrar yfir­lýs­ingar og Íslend­ingar skrif­uðu líka undir sumar þeirra, t.d. Samn­ing Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi barns­ins. Fleiri sam­tök voru líka stofn­uð, að sögn til að tryggja frið­inn og vera vett­vangur sam­tals um heill heims­ins. Íslend­ingar gengu í ein af þessum sam­tök­um, NATO. Fleira var gert, t.d. stofn­uðu nokkrar þjóðir Evr­ópu með sér sam­band sem skyldi vera rammi utan um sam­eig­in­legt líf fólks í Evr­ópu, bæði á sviði við­skipta og stjórn­mála. Þetta var upp­hafið af því sem kalla mætti Evr­ópu­stjórn­mál en er vit­an­lega ekki alþjóða­stjórn­mál, því í Evr­ópu er bara lítið brot af ríkjum heims­ins.

Sam­tök sem þessi, í hvaða heims­álfu sem er, með stofn­anir eins og Alþjóða­bank­ann og Alþjóða gjald­eyr­is­sjóð­inn á hlið­ar­lín­unni (eða kannski í víta­teignum miðj­u­m), halda fundi, semja regl­ur, gera samn­inga og láta eins og í gangi sé eitt­hvað sem kalla mætti alþjóða­stjórn­mál. Eflaust trúa margir því að slík stjórn­mál séu til og séu stunduð af fullum krafti á hverjum degi. Og á góðum degi gæti maður látið blekkj­ast. Á góðum degi gæti maður næstum haldið að NATO væri til að stuðla að friði innan ramma laga og reglna. En svo er hul­unni svipt af. Hjá okk­ur, hér á þessu kalda landi gerð­ist það með óvæntum hætti. Fréttir bár­ust af því að Haukur Hilm­ars­son hefði lík­lega fallið í loft­árásum NATO-­þjóðar í Afr­in-hér­aði í norð-vestur Sýr­landi.

Stríð og ofbeldi í hæfi­legri fjar­lægð eru svo hvers­dags­legir hlutir að flest erum við hætt að kippa okkur upp við það. Sem betur fer ekki öll, en því miður flest. Tölur af mann­falli eru lítið annað en þetta – töl­ur. Litlu breytir þótt flestir hinna föllnu séu óbreyttir borg­ar­ar, ekki síst börn. Í stríði eru börn og óbreyttir borg­arar bara fórn­ar­kostn­að­ur, ef þau eru þá kostn­aður á annað borð. En frétt­irnar af Hauki settu ófrið­inn sem geisað hefur í Sýr­landi allt í einu í nýtt sam­hengi. Margir muna eflaust eftir því þegar hann dró Bón­us-­fána að húni á Alþing­is­hús­inu einn laug­ar­dag í nóv­em­ber 2008 í aðdrag­anda bús­á­halda­bylt­ing­ar­inn­ar. Hann öðl­að­ist virð­ingu margra fyrir þessa snjöllu og djörfu ádeilu. Og nú var hann sumsé komin suður í lítið hérað í norð-vestur hluta Sýr­lands að berj­ast með Kúr­dum fyrir sjálf­stæði, eða að minnsta kosti gegn frek­ari yfir­gangi. Þegar maður kynnir sér málstað­inn er ekki erfitt að skilja hvers vegna Haukur hafi einmitt verið Kúrda megin víg­lín­unnar í Afrín-hér­aði (sjá t.d. grein Stein­dórs Grét­ars Jóns­sonar og grein Ill­uga Jök­uls­sonar í Stund­inn­i).

Inn­rás Tyrkja inn í Afrín-hérað er eflaust upp­haf af lít­ils­háttar þjóð­ar­morði. Á Vest­ur­löndum láta stjórn­völd sér samt fátt um finn­ast enda líta þau ekki á sjálf­stæði Kúrda sem heppi­legt fyr­ir­komu­lag. Ekki frekar en að sjálf­stæði Palest­ínu þyki heppi­legt. Þar er bar­áttan reyndar ekki bara fyrir sjálf­stæði heldur fyrir því að losna undan her­setu. Palest­ína hefur verið her­setin af Ísr­ael í meira en 50 ár – með sam­þykki allra stjórn­valda á Vest­ur­lönd­um, og beinum stuðn­ingi margra. Þar er ekki spurt um lög og rétt; stjórn­málin víkja fyrir sjálf­gæsku valds­ins.

Stjórn­mál sem und­an­tekn­ing – og und­an­tekn­ingin frá stjórn­málum

Þegar horft er yfir svið heims­ins má segja að stjórn­mál séu und­an­tekn­ing. Kannski er þessum und­an­tekn­ingum að fjölga smátt og smátt – ég man þá tíð að Suð­ur­-Am­er­íka var und­ir­lögð af grímu­lausu ofbeldi harð­stjórna sem sumar áttu sinn vísa stuðn­ing Banda­ríkja­manna. Þótt ástandið þar sé með ýmsu móti má samt segja að nú séu stunduð stjórn­mál í álf­unni. Á alþjóða­vett­vang­inum skánar ástandið hins vegar hægt, ef því fer hrein­lega ekki hnign­andi. Kannski var stærsta bakslagið í við­leitni ríkja heims til að stunda stjórn­mál sín á milli þegar Banda­ríkin hófu stríð gegn hryðju­verkum eftir árás­irnar 11. sept­em­ber 2001. Þetta stríð byggði á þeirri for­sendu að gegn hryðju­verka­mönnum væri allt leyfi­legt. Þar giltu engar regl­ur, hvorki reglur friðar né stríðs. Og svo var það auð­vitað Banda­ríkj­anna sjálfra að dæma um hverjir væru hryðju­verka­menn.

Nú hefur fjöldi ann­arra ríkja tekið upp þetta öfl­uga tromp: Stríð gegn hryðju­verk­um. Fyrst er að skil­greina hverjir séu hryðju­verka­menn (og um það hefur maður sjálf­dæmi), og svo er þeim eytt með hvaða aðferðum sem er. Við sjáum þetta í Jem­en, Afganistan, Palest­ínu og þetta var trompið sem Tyrkir spil­uðu út þegar þeir réð­ust inn í Afrín-hér­að. Það mátti einu gilda þótt her­sveitir Kúrda hafi áður verið banda­menn Banda­ríkj­anna (og studdir af fleiri þjóðum á Vest­ur­lönd­um, jafn­vel líka Katar og Ísra­el) í bar­átt­unni við hið svo­kallað Íslamska ríki. Með því að kalla her­sveitir Kúrda hryðju­verka­menn varð allt leyfi­legt. Og í ástandi þar sem allt er leyfi­legt ríkir mátt­ur­inn einn og stjórn­mál eru ekki annað en fjar­lægur draum­ur; mann­rétt­indi skipta engu máli, því rétt­ur­inn til valds­ins er hið eina sem blíf­ur.

Þannig hefur stríðið gegn hryðju­verkum verið stríð gegn stjórn­mál­um. Og hinir sterku – hinir mátt­ugu hand­hafar valds­ins – vinna skipu­lega að því að við­halda þessu stríði gegn stjórn­málum enda eru stjórn­málin helsta ógnin við vald þeirra. Á fyr­ir­lestri í Háskóla Íslands í jan­úar 2017 sagði Magnús Þor­kell Bern­harðs­son m.a.: „Það er ekk­ert sem bendir til þess að þessu stríði [í Sýr­landi] muni ljúka á þessu ári eða á næstu árum. Það sem við sjáum fram á er í raun og veru óend­an­legt stríð á þessu svæði, af því að það er mjög fátt sem hvetur fólk til þess að semja um frið“. Og nú lið­lega ári seinna er ekk­ert sem bendir til þess að hann hafi ekki haft rétt fyrir sér. Því mið­ur.

Á alþjóða­vett­vang­inum horfum við upp á blossandi stríð gegn stjórn­mál­um. Blóð­ug­ustu víg­vell­irnir eru í Sýr­landi, líka í Jem­en, í Palest­ínu og víð­ar. Smá­ríki eins og Ísland á allt sitt undir því að á vett­vangi ríkja heims sé mögu­leiki á stjórn­mál­um. Því miður hafa íslensk stjórn­völd verið ötulli við að þjóna vald­inu en að treysta for­sendur stjórn­mála. Aug­ljósust var þjónkunin við valdið þegar Davíð Odds­son og Hall­dór Ásgríms­son settu Ísland á lista hinna vilj­ugu þjóða. En hvenær sem Ísland ypptir öxlum yfir atburðum eins og inn­rás Tyrkja í Afrín-hér­að, eða morðum Ísra­el­skra her­manna á palest­ínskum mót­mæl­end­um, eða vopna­sölu og flutn­ingum þvert á lög og regl­ur, þá eru skila­boðin þessi: Við viljum ekki stjórn­mál, við viljum heldur dilla okkur í skjóli valds­ins.

Höf­undur er pró­fessor í heim­speki á Mennta­vís­inda­sviði Háskóla Íslands.

Flestir þeirra kvótaflóttamanna sem koma til Íslands eru Sýrlendingar sem dvelja í Líbanon. Á meðan að kvótaflóttamönnum fjölgar fækkar þeim sem koma hingað á eigin vegum til að sækja um hæli.
Mun færri flóttamenn hafa sótt um hæli í ár en árin á undan
Miðað við þann fjölda flóttamanna sem sótt hefur um hæli hérlendis það sem af er ári mun þeim sem sækja hér um hæli fækka um rúmlega 40 prósent milli ára. Til stendur að borga flóttamönnum fyrir að draga umsóknir til baka.
Kjarninn 19. október 2018
Veraldarvarpið
Veraldarvarpið
Veraldarvarpið – Morðið á Khashoggi og ímynd krónprinsins
Kjarninn 19. október 2018
Auðun Freyr Ingvarsson
Telur túlkun Innri endurskoðunar villandi
Fráfarandi framkvæmdastjóri Félagsbústaða telur túlkun Innri endurskoðunar ekki vera í samræmi við þær áætlanir sem kynntar voru fyrir stjórn árin 2015 og 2016, þar sem gerð hafi verið grein fyrir stöðu verkefnisins við endurbætur á íbúðum við Írabakka.
Kjarninn 19. október 2018
Þórður Snær Júlíusson
Réttur ríkra til að vera látnir í friði
Kjarninn 19. október 2018
Upp og niður
Fasteignaverð er eitthvað sem fólk hefur jafnan augun á enda er sparnaður fólks oft bundinn í húsnæði. Mikill uppgangur hefur verið á fasteignamarkaði á undanförnum árum, en nú er verulega farið að hægja á hækkun fasteignaverðs.
Kjarninn 19. október 2018
Stórfelld svikamylla afhjúpuð
Átján evrópskir fjölmiðlar hafa undir hafa undir verkstjórn þýsku rannsóknarfréttastofunnar Correctiv afhjúpað einhver mestu skattsvik sögunnar. Nokkrir af stærstu bönkum heims eru flæktir í svikamylluna.
Kjarninn 19. október 2018
Tveir frambjóðendur til formennsku hjá BSRB
Tveir bítast um embætti formanns BSRB. Lögfræðingur og stuðningsfulltrúi á Kleppi.
Kjarninn 18. október 2018
Samkeppniseftirlitið ógildir lyfjasamruna í Mosfellsbæ
Samkeppniseftirlitið segir reynsluna af virkri samkeppni á lyfjamarkaði í Mosfellsbæ hafa verið góða.
Kjarninn 18. október 2018
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar