Undirrituð sat þing KÍ á dögunum sem fulltrúi grunnskólakennara. Margt áhugavert kom fram á þinginu en þetta er fyrsta þingið sem ég sit fyrir stéttina. Dagskrá þingsins var send út á réttum tíma. Þannig vissu allir hvað taka áttu fyrir og gátu undirbúið sig eins og vani er þegar verkalýðurinn heldur þing.
Ég varð vitni af ótrúlegri atburðarás sem átti að enda með lýðræðissviptingu kennara innan KÍ.
Einn dagskrárliður á fimmtudeginum var kynning á ,,Einnig ég“ hreyfingunni sem gengur undir myllumerkinu metoo. Kennarar hlustuðu og veittu framsögumönnum athygli. Þegar þeim er þakkað óskar varaformaður FF að hópur kvenna í samtökunum stígi á stokk til þakka þeim góða vinnu. Á sviðið stíga varaformenn og stjórnarmenn félaga innan KÍ.
Allt í einu og án þess að biðja um orðið, eins og venja er á svona þingum samkvæmt þingskapalögum, tekur stjórnarmaður Skólastjórafélags Íslands orðið og hefur lesningu á áskorun. Gjörsamleg gegn þingsköpum. Þetta var stoppað og krafist svara um hvort þetta væri löglegt m.t.t. þingskapalaga. Hlé var gert á fundinum. Síðar voru þingfulltrúar kallaðir saman og þeim tjáð að ljúka mætti lestri áskorunarinnar. Það var gert. Í lokin var farið fram á atkvæðagreiðslu án umræðna vegna tímaskorts á þinginu. Þessu mótmæltu fundarmenn og til að segja langa sögu stutta var ákveðið að færa málið um áskorunina undir liðinn önnur mál þar sem hann upphaflega átti heima. Önnur ákvörðun var ekki tekin á þessum tímapunkti um áskorunina.
Á föstudeginum óskar formaður Skólastjórafélags Íslands eftir dagskrábreytingu um að önnur mál færist fram fyrir liðinn formannsskipti í KÍ. Þingið samþykkti það enda tillagan löglega borin upp og atkvæðagreiðsla fór fram um hana.
Áskorun, sem átti að vera samþykkt frá þinginu, til verðandi formanns um að blása aftur til kosninga um formann KÍ var lesin upp. Eins og fyrr var óskað eftir leynilegra atkvæðagreiðslu án umræðna. Samkvæmt þingskapalögum er það bannað, sé efnisleg tillaga borin upp ber að opna mælendaskrá sem var og gert. Sem betur fer var félagsvant fólk á milli þingfulltrúa sem gáfu ekki eftir að menn hundsuðu þingsköp eða færu á svig við þau á nokkurn hátt.
Eftir nokkrar umræður kom frávísunartillaga sem var samþykkt. Frávísunartillögu þarf að bera undir atkvæði um leið og hún er lögð fram. Menn höfðu tvo kosti, segja já- vísa tillögunni frá, eða nei- og halda umræðunni áfram. Heyrst hefur að mjótt hafi verið á munum, en menn verða að athuga, það var ekki kosið um tillöguna heldur frávísunina. Töluverður fjöldi þingmanna vildi að áfram yrði fjallað um áskorunina sem hugsanlega tekin til atkvæðagreiðslu, kæmi ekki frávísunartillaga. Hér er um tvo óskilda hluti að ræða.
Mér þykir það alvarlegt mál að formenn, varaformenn og stjórnarmenn í stéttarfélögum leggist á eitt að gera aðför að lýðræðinu. Áskorun um að brjóta lög Kennarasambands Íslands var lögð fram af fólki sem stendur í fremstu víglínu, þeirra sem á að gæta réttar okkar, kjarasamnings og að lög félaganna séu virt. Að þeir leggi nafn sitt og gjörðir við slíkt er forkastanlegt að mínu mati. Krafan á þinginu var að verðandi formaður færi á svig við lög KÍ og boðaði til kosninga að nýju, sem lög KÍ heimila ekki. Rúsínan í pylsuendanum var að þeir fulltrúar sem stóðu þarna uppi ásamt formanni FF myndu ekki gefa kost á sér, rétt eins og af kosningu yrði.
Þingið samþykkti aldrei að atkvæðagreiðsla færi fram um áskorunina, eins og fram hefur komið hjá formanni FF, enda hefði það verið gerræðislegt að taka lýðræðið úr höndum hins almenna félaga sem kaus sér formann KÍ.
Að mínu mati gerir framkoma þessara einstaklinga þá vængbrotna eða nær vanhæfa í störfum fyrir félagsmenn sína, en sitt sýnist hverjum um það. Þingsköp, lög KÍ og lýðræði félagsins var að engu höfð af forystusauðunum. Þetta upphlaup sem varð á þingi KÍ hefur vonandi kennt félagsmönnum að lýðræðið er mikilvægt, við skulum minnast þess þegar kemur að kosningum.
Ég er auk þess verulega hugsi yfir að formenn félaga innan KÍ skyldu ekki stoppa valdníðsluna sem felst í þessum gjörningi. Af þinginu fór ég reynslunni ríkari, óhætt að segja það.
Höfundur er grunnskólakennari og þingfulltrúi FG.