Fáar tilraunir hafa verð gerðar hérlendis til þess að skýra hegðun Rússa á alþjóðavettvangi hin síðari ár. En það má spyrja; til hvers? Jú, einfaldleg vegna þess að það er eðli mannsins að vilja skilja hluti. Og að skilja hegðun Rússa er mikilvægt, til dæmis vegna þess að þeir eru mikilvægir gerendur í alþjóðakerfinu og er þessi grein tilraun til þess.
Þó svo Rússland teljist ekki lengur til stórvelda er staðan þannig að um fátt annað er rætt í bandarískum stjórnmálum en Rússland og hefur verið svo síðan viðskiptajöfurinn Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna, með minnihluta atkvæða (46.4% á móti 48.5 fyrir Hillary). Rússar eru sakaðir um að hafa blandað sér í kosningarnar og hefur verið í gangi rannsókn á því máli hjá sérstökum saksóknara alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI. Sýrland og ástandið þar, sem er stórhættulegt og í raun ógn við heimsfrið er einnig stór ástæða.
Fjölhernaður
En þetta er angi af mun stærra og umfangsmeira máli sem teygir sig í raun mörg ár aftur í tímann og er einnig hluti af nýju „umhverfi“ styrjalda og stríðsrekstur, sem kalla mætti „fjölhernað“ eða eitthvað álíka. Á enskri tungu er hugtakið „hybrid-warfare“ notað og eru menn alls ekki á eitt sáttir um það hvað hugtakið þýðir er að stendur fyrir.
En það snýst í raun um að nútímahernaður felur í sér ekki bara notkun á hefðbundnum stríðstólum; skotvopnum, fallbyssum, flugvélum og skipum, heldur eru tölvur, hugbúnaður og ekki síst internetið orðinn veigamikill þáttur í átökum og styrjöldum. „Hybrid-stríð“ vísar þá til átaka þar sem öllum þessum vopnum er beitt, sem og öðrum „hlutum“ eins og menningarlegum, efnahagslegum og diplómatísku þáttum.
Það sem Rússar hafa verið að bralla í þessum efnum fellur undir það sem kallað er Gerasimov-kenningin í hernaði. Hún er sögð koma frá hershöfðingjanum Valerí Gerasimov, sem er yfirmaður rússneska herráðsins síðan í árslok ári 2012.
Monroe og Brésnev-kenningin
Í gegnum tíðina hafa stórveldin notast við allskyns kenningar til að hegða sér eftir og réttlæta hegðun sína út frá. Bandaríkin hafa til dæmis óspart réttlætt afskipti sín af stjórnmálum og efnahagslífi í Suður og Mið-Ameríku með hinni svokölluðu Monroe-kenningu, sem skilgreindi þessi svæði í raun sem áhrifasvæði og „bakgarð“ Bandaríkjanna. Hún er skírð í höfuðið á James Monroe, fyrrum forseta Bandaríkjanna, þó talið sé að John Quincy Adams, utanríkisráðherra hafi verið höfundur hennar.
Sovétmenn (Rússar) notuðust einnig við Brésnev-kenninguna valdatíma Leoníd Brésnev frá 1964-1982, en hún kvað á um „rétt“ Sovétsins til afskipta á sínu yfirráðasvæði og í fylgiríkjum (sattelite states) Sovétríkjanna. Í skjóli þessarar kenningar kæfðu Sovétmenn árið 1968 það sem kallaðist Vorið í Prag og rúmum áratug síðar réðust þeir inn í Afganistan og þar með hófust átök sem við erum enn að súpa seyðið af og ekki sér fyrir endann á. Tæpum 40 árum síðar!
Tölvuárásir á áhrifasvæði Rússlands
En hvað er þá Gerasimov-kenningin og hvernig er henni beitt? Eins og fram hefur komið hér að framan þá snýst hún um þá hugmynd um að beita í raun öllum mögulegum meðulum til þess að veikja andstæðinginn. En þá getur maður spurt; er þetta ekki það sem alltaf gerist í hernaði? Og svarið er ef til vill jú, en það sem hefur breyst er hin gríðarlega geta til upplýsingahernaðar og truflunar á „innviðakerfum“ á borð við orkukerfi, viðskipta og fjármálakerfi, fjölmiðlakerfi og fleira slíkt. Vitað er til dæmis að mjög umfangsmiklar tölvuárásir hafa verið gerðar á Eistland, Georgíu og Úkraínu. Allt eru þetta ríki sem voru hluti af gömlu Sovétríkjunum, en eru nú frjáls, en samt hluti af „áhrifasvæði“ Rússlands. Þessi ríki hafa líka átt í miklum deilum við Rússa, sérstaklega Georgía, þar sem stutt stríð braust út sumarið 2008 og stóð í um viku. Átök standa yfir í Úkraínu og hafa gert síðan 2014, og innlimaði Vladimír Pútín Rússlandsforseti Krím-skaga aftur til Rússlands á vordögum 2014. Þetta gerði hann í aðgerð sem í raun á fáa sinn líka á undanförnum áratugum. Þarf að fara allt aftur til aðgerða Adolfs Hitlers á fjórða áratug síðustu aldar, til að finna hliðstæð dæmi.
Kuldaleg samskipti
Samskipti Rússa og Vesturveldanna eru nú með allra kaldasta móti. Segja má að vendipunkturinn hafi ef til vill verið árið 2007, en þá hélt Vladimír Pútin fræga ræðu, „München-ræðuna“ svokölluðu á ráðstefnu um öryggismál í Þýskalandi. Þar má segja að hann hafi hraunað yfir Vesturveldin (sérstaklega Bandaríkin, sem voru þá í grimmilegum hernaði í Írak eftir innrás 2003) og gagnrýnt þau harðlega fyrir það sem kalla mætti „yfirráð“ (enska; hegemony) þeirra í alþjóðakerfinu eftir hrun Sovétríkjanna árð 1991. Þá gagnrýndi hann einnig austur-stækkun NATO og gaf sterklega í skyn að í því sambandi hefðu loforð verið svikin. Vakti þessi ræða mjög hörð viðbrögð margra ráðamanna á Vesturlöndum. Spyrja má hvort þetta hafi ekki í raun verið upphafið á nýju, köldu stríði á milli Rússlands og Vesturveldanna.
Ári síðar, sumarið 2008, braust út stríð á milli Georgíu og Rússlands. Samskipti ríkjanna höfðu lengi verið stirð, enda Georgía búin að færa sig hressilega „til vesturs“ og meðal annars höfðu Bandaríkjamenn bækistöðvar í landinu vegna stríðs þeirra í Afganistan, sem hófst árið 2001 (í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana). Georgía óskaði eftir aðild að NATO árið 2002, en Rússar mótmæltu því harðlega og ekkert varð úr.
Hver hóf í raun þetta stutta stríð, sem stóð bara í um viku, er enn umdeilt. En eftir það tók hins vegar við mikil „tiltekt“ og endurskipulagning á rússnesku hernaðarmaskínunni, því þetta stutta stríð dró fram í dagsljósið frekar dapurt ástand á rússneska hernum varðandi ýmislegt; tækni, skipulag, birgða og flutningamál, svo eitthvað sé nefnt. Síðan þá má segja að Rússar hafi sett sér ný markmið í hernaðarmálum, sem miða að því að nútímavæða allar deildir rússneska hersins. Útgjöld Rússa til hernaðarmála voru árið 2015 um 70 milljarðar dollara, en til samanburðar var nýr útgjaldapakki samþykktur í bandaríska þinginu fyrir skömmu sem hljóðar upp á tíu sinnum meira fé, eða um 700 milljarða dollara til hernaðarútgjalda fyrir árið 2018. Um er að ræða mestu útgjöld til hernaðarmála í sögu Bandaríkjanna á einu ári. Árið 2015 var um 1,3 milljörðum dollara eytt til hernaðarmála í heiminum, þar af voru Bandaríkinu með tæp 40% af þeirri upphæð og Rússland var í fjórða sæti á eftir Kína og Sádí-Arabíu.
Ég geri Rússland meiriháttar aftur
Allt frá því að Vladimír Pútin tók við embætti sem forseti Rússlands hefur hann miðað að því að endurreisa Rússland og vekja þjóðarstolt þess til lífs á ný, því Pútín er bullandi þjóðernissinni. Segja má að áratugurinn frá 1991-2001 hafi einkennst af samfelldri niðurlægingu rússnesks samfélags. Rússland var eins og rekald. Þessi ár einkenndust líka af taumlausri valdabaráttu lykilhópa innan „elítu“ Rússlands, manna i kringum Boris Jeltíns (þáverandi forseta) og aðila innan viðskiptalífsins. Græðgin stjórnaði og gríðarlegum auðæfum landins var hreinlega stolið, eða komið í einkaeigu með vafasömum aðferðum. Þegar Pútin kom til valda, þá setti hanns sér það markmið að stöðva þessa þróun og koma skikki á hlutina. Það átti líka við um herinn og allt sem að honum kom. Horfa verður á atburði í Rússlandi á valdatíma Pútín með þessum „gleraugum.“ En rétt eins og Trump hefur það að markmiði að gera Ameríku „meiriháttar“ (great) aftur, þá má segja að Pútín hafi álíka markmið, það er að hann ætlar að gera Rússland meiriháttar aftur. Pútín vill ná rússneska erninum á flug aftur, er hinn tvíhöfða örn er einmitt í skjaldarmerki Rússlands.
Sá rafræni hernaður, sem ræddur var hér á undan, er þetta framtíðin? Svarið hlýtur að vera já. Aldrei í sögu mannkynsins hefur getan á sviði upplýsinga og tölvuhernaðar verið jafnmikil og nú. Og það eru allir sem hlut eiga að máli, að fást við þetta, öll stórveldin, ekki bara Rússar. Vægi þessarar tegundar hernaðar hefur bara aukist og á sennilega eftir að aukast enn frekar. Einn veigamikill þáttur hernaðar er að blekkja andstæðinginn og veikja hann á allan mögulegan hátt. Sú upplýsingatækni sem hernaðaryfirvöld ráða nú yfir er stórbrotin og gengur út á þetta. Og hvort það sem gert er gert í skjóli einhverra nafna á borð við „Gerasimov-kenningin“ eða eitthvað annað, skiptir kannski ekki öllu máli. Það sem skiptir máli eru friðsamleg samskipti. Stríð þýðir eyðileggingu, dauða og ofbeldi. Og því miður er ekki mjög friðvænlegt á mörgum svæðum í heiminum einmitt nú og lýðræði víða í hættu. Við ættum að huga alvarlega að því.
Höfundur er MA í stjórnmálum A-Evrópu frá Uppsala-háskóla.