Hinn frjálsi markaður er ekki fullkomnari lausn vandamála heimsins en svo að í kapítalismann virðist vera innbyggð tilhneiging til að valda djúpum kreppum endrum og eins, líkt og við Íslendingar fengum að kenna á fyrir 10 árum síðan. Meira um það rétt á eftir. Á smærri skala en þjóðhagslegum stóráföllum lendir markaðurinn einnig stundum í að misreikna sig og margskonar markaðsbrestir valda því að ekki er alltaf jafnvægi á framboði, eftirspurn og verðlagi. Það sleppur nú kannski fyrir horn þegar um er að ræða einhverja vöru eins og Omaggio vasa. Þegar varan sem um ræðir er hins vegar húsnæði, er vandamálið heldur svæsnara. Ólíkt Omaggio vösum, er öruggt húsnæði nefnilega mannréttindi.
Óarðbæru mannréttindin
Vanhæfi hins frjálsa markaðar í húsnæðismálum hefur margoft valdið stórkostlegum vandamálum á Íslandi í gegnum söguna. Húsnæðisvandinn sem við búum við í dag er fyrst og fremst kominn til vegna þess að eftir Hrun lækkaði húsnæðisverð eða stóð í stað, á sama tíma og byggingarkostnaður rauk upp. Hinn frjálsi markaður áleit byggingu nýrra íbúða óarðbæra, og þar sem enginn annar aðili stóð fyrir húsbyggingum á þeim tíma, var einfaldlega næstum ekkert byggt. Það litla sem þó var byggt á fyrstu árunum eftir Hrun var svo dýrt í kaupum að það fór allavega fjarri því að leysa húsnæðisvanda ungs fólks.
Vandamálin leyst
Lausnirnar á þessum stóru húsnæðiskreppum Íslendinga hafa alltaf verið félagslegar. Á fyrstu áratugum 20. aldar var ömurlegur húsakostur hinna vinnandi stétta viðvarandi vandamál og stærsta ógn við lýðheilsu þjóðarinnar. Þá voru það jafnaðarmenn með Héðinn Valdimarsson í broddi fylkingar, sem komu á fót verkamannabústaðakerfinu og reistu verkamannabústaðina við Hringbraut. Þangað gátu flutt hundruð fjölskyldna úr hinum vinnandi stéttum og komust í fyrsta sinn í húsnæði með rennandi vatni og nútímaþægindum á þeirra tíma mælikvarða. Húsnæðiskreppan á 7. áratugnum var leyst með merkum kjarasamningum, þar sem ríkið og verkalýðshreyfingin sameinaðist um að reisa Breiðholtið.
Lausnin aflögð
Á góðærisárunum í kringum aldamótin þótti nýfrjálshyggjuflokkunum sem þá voru við völd, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, óþarfi að púkka upp á félagslega húsnæðiskerfið og verkamannabústaðina. Jóhanna Sigurðardóttir, sem staðið hafði vörð um kerfið á árum sínum sem félagsmálaráðherra 1987-1994, sló ræðumet Alþingis þegar hún talaði í 10 klukkutíma og 8 mínútur til varnar félagslega húsnæðiskerfinu árið 1998. Sú orrusta tapaðist samt og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar lögðu kerfið niður. Þegar hinn frjálsi markaður brást svo í Hruninu tíu árum síðar, var því ekkert kerfi til að taka við og tryggja fólki ódýrt og hentugt húsnæði.
Endurreisnin
Það sér nú fyrir endann á núverandi húsnæðisvanda í Reykjavík og er það ekki síst fyrir tilstilli þess frumkvæðis sem núverandi meirihluti í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar hefur sýnt við að koma á samstarfi borgarinnar og leigufélaga á vegum verkalýðsfélaga, sem ekki eru rekin með hagnaðarsjónarmiði. Með þessum vísi að endurreisn verkamannabústaðanna stefnir loks í að hundruð og þúsundir íbúða bjóðist fólki sem ekki hefur efni á okurkjörunum sem hinn frjálsi markaður býður upp á í dag. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna.
Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna.