Fyrir nokkru hittu Framsókn í Reykjavík nokkra fulltrúa Öryrkjabandalagsins, m.a. formann og varaformann til að heyra frá þeim sem upplifa „ástandið“ á hverjum degi í stað þess að byggja hugmyndir okkar á því sem slegið er upp í fjölmiðlum.
Þetta reyndist góð ákvörðun og og við komum margs fróðari af fundinum.
Ferðaþjónusta fatlaðra var okkur ofarlega í huga á fundinum með ÖBÍ enda hefur hún oft verið í fréttum og þá yfirleitt með neikvæðum formerkjum.
Samkvæmt formanni Öryrkjabandalagsins er fyrirkomulag ferðaþjónustunnar alls ekki nógu gott og við sem heilbrigð erum eigum erfitt með að setja okkur í spor þess sem hefur ekki sjálfsvald yfir ferðum sínum eða lengd heimsókna sinna og þarf þar að auki skipuleggja sig fram í tímann og má ekki „vera úti“ fram yfir eitt á næturnar.
Sveigjanleiki er lítill sem heftir frelsi notendanna verulega.
Það kom okkur hjá Framsókn mjög á óvart að 85% notenda ferðaþjónustunnar eru„á fæti“ og því vel færir um að ferðast í venjulegum bílum og það á einnig við um hluta þeirra sem bundnir eru við hjólastól.
Við hjá Framsókn Reykjavík viljum leysa málið með því að fækka stóru og dýru bílunum en gera í staðinn samninga við leigubíla um að sinna þessu hlutverki. Þannig myndu þessi 85% notenda þjónustunnar sem geta að jafnaði ferðast í fólksbílum öðlast sama frelsið og flest okkar líta á sem sjálfsagðan hlut.
Í stað þess að byggja ferðaþjónustu fatlaðra utan um 1600 notendur yrði hún byggð utan um 3 - 400 notendur og þjónusta þeirra yrði þá líka bætt verulega.
Það þarf líka að huga að þeim sem yfirleitt geta bjargað sér og nýtt sér önnur úrræði. Það reynir t.d. mikið á axlir að vera í hjólastól og þegar líkamlegt ástand versnar tímabundið eða þegar skafa þarf bíla á vetrum, þá þurfa þeir einstaklingar að geta nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra þó tímabundið sé. Þess vegna þarf að byggja hana fyrir örlítið fleiri en þá sem algjörlega treysta á hana.
Frelsi og sveigjanleiki eru lykilatriði þegar verið er að skipuleggja hluti sem hafa áhrif á daglegt líf fólks. Þjónustan á að taka mið af þörfum einstaklinganna sem hana nýta.
Höfundur er kennari og skipar 3. sæti Framsóknar í Reykjavík