Þegar ríkisstjórnin var mynduð blasti við að hún yrði aðgerðalítil. Þó mátti skilja á formanni Framsóknarflokksins, guðföður ríkisstjórnarinnar, að stjórnin yrði varanleg starfsstjórn, sem hefði ekki nein sérstök stefnumál. Forsætisráðherra ætlar að hlusta á óskir þegnanna og gerir það að sögn vel. Meiru lofaði hún ekki.
Fyrsta maí fann ríkisstjórnin loksins alvöru mál. Þann dag átti að ganga í gildi samningur um meiri innflutning á erlendum landbúnaðarafurðum, sem sannarlega hefði getað orðið kjarabót fyrir almenning. Þá vöknuðu Framsóknarflokkarnir þrír loksins og klekkja sameiginlega á kjósendum.
Auðvitað með sérhagsmunum og gegn almannaheill.
Fyrir einu og hálfu ári, áður en Viðreisn komst á þing, voru dæmalausir búvörusamningar þvingaðir í gegnum þingið með heilum 19 atkvæðum. Aðeins Björt framtíð snerist hart gegn þessari þjóðarskömm. Enginn úr Framsóknarflokknum, enginn úr Vinstri grænum, enginn úr Samfylkingunni og enginn Pírati greiddi atkvæði gegn samningunum. Aðeins einn óþægur Sjálfstæðismaður sleit sig úr Framsóknarkórnum.
Búvörusamningarnir voru svo vitlausir að ári síðar voru sauðfjárbændur á heljarþröm.
Íslendingar borga meira með framleiðslunni en gert er í Evrópusambandinu, innflutningsvernd er meiri hjá okkur, vöruúrval minna hér á landi, verð til neytenda miklu hærra og íslenskir bændur eru með verst launuðu stéttum landsins. Þetta var gjöf Framsóknarflokkanna til neytenda og bænda.
Einn alþingismaður sagði að hann hefði stutt búvörusamningana til þess að tryggja innleiðingu tollasamnings Íslands við Evrópusambandið. Nú hyggst ríkisstjórnin grípa til „mótvægisaðgerða“ til þess að takmarka ávinning neytenda. Á heimasíðu landbúnaðarráðuneytisins segir: „[V]ið útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.“
Á mannamáli: Þegar fluttar eru inn pylsur, skinka, spægipylsa, nautalundir eða annað kjötmeti sem allir vita að aldrei hefur verið selt með beini, reiknar ráðuneytið með því að um þriðjungur sé bein. Með þessu móti tekst ríkisstjórninni að svíkja neytendur um ávinninginn af nýju samningunum að stórum hluta. Hún reiknar 666 kíló í kjöttonninu.
Þetta er svo ótrúlega óskammfeilin aðgerð að flestir þurfa að láta segja sér hana tvisvar. Slík regla hefur aldrei gilt áður hér á landi. Hvað næst? Reglugerð um þykkt og þyngd á skorpu af frönskum ostum? Að innfluttar pylsur séu reiknaðar í brauði og „með öllu“? Hugmyndaflugi Framsóknarflokkanna eru lítil takmörk sett þegar þeir snúast gegn neytendum.
Svarið er einfalt. Ef við viljum ekki láta bjóða okkur svona meðferð getum við gefið ríkisstjórnarflokkunum áminningu í sveitarstjórnarkosningunum nú í vor.
Höfundur er fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra og stofnandi Viðreisnar.