Í tíð nýfráfarins landlæknis skilaði Landlæknisembættið áliti til Alþingis vegna frumvarps um bann við umskurði barna almennt og setti embættið sig þar upp á móti frumvarpinu. Þetta gerði landlæknir, þrátt fyrir að yfirgnæfandi meirihluti fólks í heilbrigðisstéttum hérlendis og á hinum Norðurlöndunum sem á annað borð hafa tjáð sig, styðji frumvarpið alfarið.
Þetta kemur auðvitað spánskt fyrir sjónir. Þetta er ekki hægt að túlka á annan hátt en að landlæknir kasti blygðunarlaust rýrð á fagmennsku þess mikla fjölda fólks sem undir hann heyrir; vísindamenn, lækna, hjúkrunarfólk, ljósmæður og aðra þá sem við hin treystum frá degi til dags fyrir lífi og limum okkar sjálfra og barna okkar. Þá hlýtur spurningin að vakna: Hvers vegna? Í hvaða viskubrunn sækir landlæknir ölið sem virðist öðrum forboðið að teyga?
Álit landlæknis byggir á tvennu.
Það er ekki sama Jón og hún Jóna
Í fyrsta lagi þá heldur embættið því fram að þetta inngrip sé meira hjá stúlkum en drengjum og styðst þar aðallega við þau rök að Svíar noti huggulegra orð yfir verknaðinn þegar hann er framkvæmdur á strákum en stelpum.
Staðreyndin er hins vegar sú að á meðan umskurður drengja er yfirleitt sama aðgerð alls staðar, þá er umskurður á stúlkum mjög mismunandi eftir hefðum á þeim stöðum þar sem hann er framkvæmdur. Þegar barist var fyrir algeru banni við umskurði stúlkna, þá var auðvitað (og sem betur fer) hamrað á verstu tilfellunum, en víða er þetta samt minna inngrip en á drengjum og oft bara symbólísk stunga sem dregur blóð.
Til að mynda... næst þegar þú sérð 5 evru seðil, þá er það um það bil sama flatarmál af skinni sem vaxið hefði fullorðnum karlmanni, og fjarlægt er við umskurð. Skinn sem hefur svipað magn af taugaendum og fingurnir.
Trúarleg og menningarleg hefð trompar veraldleg gildi
Í öðru lagi, þá heldur landlæknir því fram að „trúarlegar og menningarlegar hliðar á þessu máli séu svo ríkar, að umskurður á forhúð drengja muni verða framkvæmdur um ófyrirsjáanlega framtíð óháð því hvaða afstöðu heilbrigðiskerfið og samfélagið að öðru leyti mun hafa til þess að leyfa þessa aðgerð“.
Og við þessu er eiginlega bara eitt svar: Ef við getum ekki verndað börn á íslandi gegn bókstafstrúarklerkum sem geta ekki hugsað sér heiminn án þess að fá að skera stykki framan af kynfærum annara manna barna og þar með fullnægt sáttmála sínum við Guð, þá getum við bara pakkað saman og hætt.
Eina ástæða þess að við höfum lagt að baki alla þá villimennsku sem finnst í gamla testamentinu og öðrum trúarritum, er að á síðustu 3 til 4 hundruð árum þá hafa veraldlegir heimspekingar, vísindamenn, læknar, prófessorar, pólitíkusar, rithöfundar og eflaust einhverjir hugaðir landlæknar líka, notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að hafa áhrif og þokað samfélagi okkar smám saman burt frá því steinaldarsiðferði sem hin Abrahamísku trúarbrögð, kristni, gyðingdómur og múhameðstrú hafa haldið dauðahaldi í. Að Landlæknir Íslands árið 2018 lyppist niður og gefist upp í þessu máli er hreint út sagt svívirða.
Menningarsjónarmið landlæknis eru ekki betri. Hann vísar til Bandaríkjanna, að umskurður sé þar almenn rútína og gerð af heilsufarsástæðum, en bendir um leið á að sá ætlaði heilsufarslegi ávinningur sé sennilega bara vitleysa og ekkert bendi til að það standist skoðun. Staðreyndin er sú að í Bandaríkjunum hefur tíðni umskurðar verið á hraðri niðurleið, frá tæplega 90% árið 1975 niður í undir 60% í dag, eingöngu vegna vitundarvakningar foreldra og fólks innan heilbrigðisstétta um skaðleg áhrif umskurðar á sál og líkama ungbarna.
Umbótasinnar í Bandaríkjunum hafa þurft að berjast á móti straumnum, því þau hafa ekki aðeins þurft að eiga við lobbýista hinna ýmsu trúarsamfélaga, heldur er umtalsverður þrýstingur frá viðskiptaheiminum líka. Gróði fyrirtækja í Bandaríska heilbrigðisgeiranum vegna framkvæmd umskurða og verslunar með forhúð ungabarna innan lyfja og snyrtivörubransans er áætlaður af Forbes einhvers staðar á milli 1 og 2 milljarðar Bandaríkjadala á ári.
Að síðustu nefndi landlæknir menningaráhrif frá þjóðflokkum í Afríku. Þeir iðki manndómsvígslur sem innifela umskurð og einhvern veginn þurfi íslensk ungabörn að sjá á eftir forhúð sinni meðal annars vegna þess. Ég get svo sem skilið að Landlæknir sé tiltölulega óupplýstur um manndómsvígslusiði í Afríku, en það er ljóst að hann treystir því að aðrir hér séu það líka og finnst ef til vill að þessi rök hljómi aðlaðandi fyrir þá sem halda að bann við umskurði hér á Íslandi sé að einhverju leyti byggt á rasisma eða skilningsleysi á siðum annars fólks.
En eins og oft er, þá elur fávísi einungis af sér meiri fávísi og hörmungar.
Orð eru ekki mikils megn til að lýsa hryllilegum afleiðingum hefðbundins manndómsvígsluumskurðar víða í Afríku, en hér er slóð á skýrslu hollenskra lækna frá 2015, sem var gerð um afleiðingar þessa hjá Xhosa ættbálknum í Suður Afríku. Og ég vara fólk við, þetta er ekki fyrir viðkvæma.
Glæpur og Refsing
Langflest okkar hafa það til að bera að hafa einhvern grundvallarskilning á því hvað er rétt og rangt og það að bera hníf að ungabörnum og fjarlægja stykki úr þeim að nauðsynjalausu er glæpur í huga allra sem á annað borð hafa þennan skilning. Það sem er sérstakt við þennan glæp er að prúðbúnir, vel tilhafðir og tunguliprir klerkar, innlendir sem erlendir munu svífast einskis til að koma sínum umskurðaráformum til leiðar. Afbrotaviljinn er einbeittur í þessum hópi og þeir munu ekki skilja fyrr en skellur í tönnum.
Annan maí síðastliðin voru foreldrar tveggja stúlkubarna í Danmörku dæmd af hæstarétti í 18 mánaða fangelsi fyrir að láta umskera þær á meðan þau voru í heimsókn í Sómalíu. Þau hafa eflaust gefið sér og öðrum ótal ástæður og afsakanir fyrir þessum verknaði, en þegar allt kemur til alls, þá brást þetta fólk varnarlausum dætrum sínum að yfirlögðu ráði.
Nú er ég ekki að mæla með því að foreldrum séu gerðir langir fangelsisdómar, en vilji Íslendingar sporna gegn tilgangslausri limlestingu varnarlausra ungabarna þarf að gera verknaðinn refsiverðan í lagalegum skilningi. Fangelsisvist upp á 6 til 18 mánuði eru hörð örlög fyrir barnaforeldra og hefur gífurleg fælingaráhrif á aðra sem gætu verið í samskonar hugleiðingum.
Á hinn bóginn mundi sú staðreynd að þessi refsing væri fyrir hendi hér, geta orðið þessum sömu foreldrum vopn í hendi til að standast þrýsting frá trúarsamfélagi og aðstandendum sem hvettu til umskurðar og ekki síst vera rök fyrir þau sjálf í því eintali sem foreldri hefur gjarnan við sjálft sig til að finna út hvað er barninu fyrir bestu.
En foreldrarnir eru yfirleitt mýsnar í þessu samhengi. Fallbyssurnar á að geyma fyrir þá sem halda á hnífnum, þá sem skipuleggja verknaðinn og þá sem skapa hinn félagslega þrýsting í þessu samsæri hinna heilögu. Þeir munu aldrei gefa sig af sjálfsdáðum. Það verður að segja þeim kristaltært og svo ekki verði misskilið að tími þessarar forneskju sé liðinn undir lok.
Áskorun til nýs landlæknis
Nú vill það svo til að síðan hið upprunalega álit Landlæknisembættisins var lagt fram, þá er búið að skipa nýjan landlækni, Ölmu Dagbjörtu Möller. Og án þess að teygja lopann mikið frekar, þá vil ég skora á nýjan landlækni að endurskoða álit embættisins og leggja fram nýtt álit sem er meira í takt við þá mannúð sem hið íslenska samfélag vill kenna sig við. Álit sem verndar líkama og sál barna gegn ofbeldisfullri ágengni þeirra sem í þessum heimi og öðrum sjá sér gróðaveg í að skera af og hirða hluta af kynfærum þeirra á meðan þau enn eru óvitar.
Umskurðardómurinn í Danmörku 2. Maí 2018
Umsögn Landlæknisembættisins í 114. máli á 148. Löggjafarþingi, Almenn hegningarlög (bann við umskurði drengja)