Þegar tafir verða á sölu fasteigna skapar það mikinn kostnað, meðal annars í formi vaxta. Kostnaðurinn hækkar verðið á húsnæðinu og lendir á endanum á íbúum borgarinnar, það er að segja fólki sem er að leita sér að þaki yfir höfuðið og ver oft stærstum hluta launa sinna í húsnæði. Við getum lækkað byggingarkostnað, flýtt framkvæmdum og þar með aukið framboð af húsnæði.
Í fréttum 8 maí sl. kemur fram að byggingafélagið Eykt hafi beðið í 11 mánuði eftir eignaskiptalýsingu frá Reykjavíkurborg vegna nýbygginga félagsins við Bríetartún. Sú bið er fullkomlega óskiljanleg og deginum ljósara að hún hefur mikil áhrif á framkvæmdaaðilann en ekki síður á fólkið í borginni.
Skýrt dæmi um kostnaðarsama óskilvirkni og óþarfa tafir birtist í því að í Reykjavík þarf að taka 17 skref til að fá leyfi til að byggja vöruskemmu samanborið við sjö skref í Kaupmannahöfn samkvæmt úttekt Alþjóðabankans á skilvirkni og einfaldleika í byggingaframkvæmdum og er Reykjavík í 64. Sæti á þeim lista.
Viðreisn í Reykjavík leggur skýra áherslu á einfaldara líf í borginni. Liður í því er að einfalda og samræma úttektir á vegum borgarinnar, einfalda leyfisveitingar og gera stjórnsýsluna alla skilvirkari og gegnsærri. Það er algjörlega óásættanlegt að borgin hækki fasteignaverð með löngum biðlistum og óþarfa flækjustigi. Það getur heldur ekki talist eðlilegt að við stofnun fyrirtækis í borginni þurfi fjölda heimsókna eftirlitsaðila, undirritun á tugi útprentaðra pappíra og loks bið eftir niðurstöðu sem ómögulegt er að vita hvort taki daga, vikur eða mánuði að fá.
Það gefur augaleið að fækka þarf skrefum, samræma úttektir og stytta biðtíma í leyfisveitingum og byggingarstarfsemi. Þannig mun lækkaður byggingarkostnaður einfaldlega skila hagstæðara fasteignaverði. Þetta munum við í Viðreisn gera.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.