Ein alvarlegasta ógnin sem stafar að lýðræðinu í dag er vaxandi áhugaleysi almennings um lýðræðislega þátttöku. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna er því að snúa þessari þróun við. Róttækasta, og hugsanlega áhrifaríkasta aðferðin til þess að ná því markmiði er slembival: Að velja af handahófi venjulegt fólk eins og mig og þig til þess að taka þátt í opinberum störfum.
Slembival og fulltrúalýðræði
Helstu rökin gegn slembivali er að það með því tryggjum við ekki að við fáum hæft fólk til starfa. En reynslan af mismunandi formum slembivals, t.a.m. í Eistlandi, Oregon-fylki í Bandaríkjunum og í Írlandi, virðast gefa allt annað til kynna. Og við skulum ekki gleyma að hefðbundnar kosningar hafa heldur ekki verið nein trygging. Valdasjúkt fólk og fáfróðir framagosar með mikilmennskubrjálæði hafa oftar en einu sinni komist til áhrifa í kosningum. Síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum eru auðvitað nærtækt dæmi.
Lýðræðið er augljóslega í krísu. Róttækasta lausnin á þeirri krísu er að virkja fólk, almenning, til beinnar þátttöku í ákvarðanatöku.
Hvernig fer slembival fram?
Slembival hefur verið reynt og notað víðs vegar um heim og með góðum árangri. Við eigum okkar eigin tilraun í formi þjóðfundanna 2009 og 2010. Þó þeir hafi ekki haft skýrt valdsvið eða bundið hendur ráðamanna hvað stefnumótun varðar þá var mikil ánægja meðal þátttakenda með fundina og þeir léku mikilvægt hlutverk í því skapa umræðu um hverskonar samfélagi við viljum búa í.
Við getum notað slembival með ýmsum hætti. Við getum skipað íbúaþing þar sem stefna til framtíðar er mótuð. Við getum notað það til þess að framkvæma rökræðukannanir, þar sem afmarkaður hópur borgarbúa fær tækifæri til þess að kynna sér mál í þaula og taka upplýsta ákvörðun um þau eða við getum hreinlega skipað fólk í hverfisráð með slembivali.
Pólitík og stjórnmál
Slembivalið er óplægður akur þegar kemur að því að virkja lýðræðið, að tengja fleiri borgara við stjórnkerfið og ákvörðunartöku, að dreifa valdinu og tryggja að sem flestar raddir fái að heyrast.
Af hverju ættum við t.d. að sætta okkur við að stórt og dýrt verkefni eins og það að setja Miklabraut í stokk sé pólitískt bitbein eða slagorð í kosningabaráttu? Væri ekki nær að setja slíkt verkefni í rökræðukönnun og leita leiða til þess að komast að því hver upplýst ákvörðun almennings væri og koma okkur þannig undan pólitískum skotgrafahernaði og kjörtímabilahugsun?
Við þurfum að koma til móts við þá sem hafa áhuga á stjórnmálum en ekki pólitík. Fólk hefur áhuga á því að hafa áhrif á samfélagið sem það býr í en hefur á endanum mjög fá tækifæri til þess. Slembival er leið til þess að ná til þess fólks – og virkja það.
Stjórnmálin hafa orðið pólitíkinni að bráð. Við höfum skapað þröskulda í stjórnmálaþátttöku sem eru ekkert endilega að skila okkur bestu niðurstöðunum eða þeim lýðræðislegustu.
Reykjavíkurborg hefur verið framarlega í lýðræðistilraunum og hefur átt gott samtal við borgarbúana. En á næsta kjörtímabili þurfum við að gera enn betur.
Höfundur situr í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.