Mikil umræða er nú um Hvalárvirkjun. Ég hef unnið að þróun hennar í nokkur ár og þekki því vel til, auk þess að hafa komið að undirbúningi flestra annara virkjana, stórra og smárra, sem byggðar hafa verið eða undirbúnar hér á landi síðustu áratugi og ætti því að hafa góðan samanburð. Það hefur komið mér á óvart hversu neikvæð umræðan er orðin hjá mörgum, því Hvalárvirkjun er að mínu mati ákaflega skynsamlegur og góður kostur jafnt tæknilega, umhverfislega sem og samfélagslega á alla mælikvarða .
Mikilvægir eiginleikar Hvalárvirkjunar.
Virkjunin verður í hópi best miðluðu virkjana landsins, því hægt verður að geyma ríflega fjórðung meðalársrennslis í lónum frá sumri til notkunar að vetri. Þetta gerir virkjunina mjög sveigjanlega og örugga í rekstri og hún getur framleitt á fullum afköstum mánuðum saman, gerist þess þörf, en er ekki háð duttlungum vatnafarsins eins og rennslisvirkjanir. Orkuinnihald miðlana á Vestfjörðum tuttugufaldast og landshlutinn verður sjálfbjarga, þó engin orka komi frá eldvirka hluta landsins allan veturinn. Allir vatnsvegir, stöðvarhús, tengivirki og flutningskerfi eru neðanjarðar sem eykur rekstraröryggi auk þess að vera jákvætt fyrir umhverfið. Aur, eldvirkni, ís og krapi eða vatnsleysi verður því ekki vandamál í þessari virkjun.
Virkjunin er með háa fallhæð, ríflega 300 m, og því gefur tiltölulega lítið virkjað rennsli mikið afl. Vatnsvegir eru allir í jarðgöngum og vatnshraði í þeim því óvenju lágur, því ekki er ódýrara að grafa göngin þrengri en lámarksstærð. Því er unnt er að stöðva allt rennsli um þá eða auka það á aðeins örfáum sekúndum án þess að það valdi óviðráðanlegum þrýstisveiflum. Vegna þessa yrði hægt að nota Hvalárvirkjun til að stýra tíðni og álagi í raforkukerfinu (regla netið) og bregðast samstundis við miklum álagsbreytingum. Þetta er eiginleiki sem virkjanir með langa vatnsvegi án þrýstijöfnunar hafa alla jafna ekki, en er sérstaklega mikilvægur vegna þess að virkjunin er á landsvæði þar sem flutningskerfið getur auðveldlega slitnað frá landskerfinu og því mikilvægt að til staðar sé nokkuð stór virkjun sem getur tekið upp miklar og snöggar álagsbreytingar og stýrt „eyjunni“ sem myndast við slíkar bilanir. Þessu hlutverki á Vestfjörðum er nú sinnt að hluta með dísilvélunum í Bolungarvík og sérstökum framhjárennslisbúnaði í Mjólkárvirkjun, en rafmagnstruflanir eru þó tíðar vegna bilana á Vesturlínu.
Þrátt fyrir stór lón við Hvalárvirkjun mun nánast enginn gróður eða þykkur jarðvegur fara undir vatn. Nánast allt efni sem þarf til að gera stíflurnar er unnt að taka innan lónstæðanna, sem er nokkuð einstakt hér á landi við stíflugerð. Þá háttar þannig til að landslag er allt mjög mishæðótt og í stöllum og skorið af misdjúpum giljum. Stíflurnar og lónin, þó stór séu, sjást því mjög óvíða að, heldur hverfa fljótt bak við næstu hæð. Þetta er til dæmis allt annað en í tilfelli Kárahnjúkavirkjunar og á Þjórsársvæðinu þar sem landið er sléttara og stíflurnar og lónin sjást mjög víða að sé horft af landinu ofan lónanna. Þá er allt dýralíf mjög fábreytt.
Bætt raforkuöryggi og önnur tækifæri
Ein jákvæðustu áhrif virkjunarinnar eru að hún mun strax bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum nokkuð, því bilun á Vesturlínu á um 120 km langri leið frá Hrútafirði í Kollafjörð mun ekki lengur valda truflunum á Vestfjörðum. Meira máli skiptir þó að með tilkomu virkjunarinnar gerbreytast möguleikar á að tryggja Vestfjörðum sama afhendingaröryggi og öðrum landshlutum með miklu ódýrari hringtengimöguleika frá tengipunkti í Ísafjarðardjúpi inn á Ísafjarðarsvæðið, og nýta þannig að fullu góða stýrieiginleika Hvalárvirkjunar, sem áður var vikið að.
Hvalárvirkjun er þannig lykilinn að viðunandi raforkuöryggi heils landshluta. Hún mun líka hafa mikil áhrif á nærsamfélagið á byggingartíma en einnig auka mjög tækifæri til framtíðar. Sumarfær jeppaslóð mun væntanlega koma yfir Ófeigsfjarðarheiði, og skapa möguleika á einstökum hringakstri úr Djúpi um Árneshrepp. Þá mun vegslóði upp að rótum Drangajökuls auka möguleika á ferðum á hann á öllum árstímum. Stöðugt 15 m3/s rennsli af hreinu og tæru vatni við sjávarmál yrði einstakt á Íslandi og þó víðar væri leitað, og skapar mikla möguleika á frekari nýtingu þessarar fágætu verðmætu auðlindar t.d. í eldi, vatnsútflutningi, eða eitthvað allt annað. Enginn sá Auðlindagarðinn við Svartsengi fyrir þegar farið var að nýta orkuna á því svæði. Erfitt er að sjá að það hafi verðið byggð, eða verði byggð virkjun á Íslandi sem gæti haft jafnmikil jákvæð áhrif á nærsamfélagið og heilan landshluta.
Ekki umdeild framkvæmd í Rammaáætlun eða í mati á umhverfisáhrifum
Virkjunin hefur farið eðlilega leið í stjórnkerfinu. Nefnd sérfræðinga í Rammaáætlun 2 og 3 mat Hvalárvirkjun einu vatnsaflsvirkjunina á nýju óvirkjuðu svæði sem bæri að nýta til orkuframleiðslu frekar en verndar. Við lögformlegt umhverfismat sumarið 2016 barst aðeins ein athugasemd og var hún frá Landvernd. Engir lögbundnir umsagnaraðilar sem Skipulagsstofnun lét vinna álit á matinu, sérfræðingar hver á sínu sviði, gerðu athugasemdir við mat virkjunaraðila, um tiltölulega lítil umhverfisáhrif virkjunarinnar.
Miklar betrumbætur á hönnun
Vaxandi andstaða við virkjunina virðist hinsvegar vera innan tiltekins hóps fólks, þrátt fyrir að miklar breytingar hafi orðið á upphaflegum virkjunaráformum, sem allar minnka umhverfisáhrifin. Þannig hefur frárennsli virkjunarinnar verið fært þannig að vatnið skilar sér beint úr frárennslisgöngum út í ós Hvalár langt frá Hvalárfossi, en þegar virkjunin var sett í nýtingarflokk í Rammaáætlun var gert ráð fyrir löngum og djúpum frárennslisskurði alveg við fossinn. Einnig reyndist unnt, með breytingu á hönnun virkjunarinnar, að falla frá um 10 til 20 m háum þrýstijöfnunarturni sem fyrirhugaður var á fjallsbrún. Nú nýlega hefur líka verið ákveðið að lækka hæstu stíflurnar þannig að rúmmál stíflufyllinga minnkar um nær þriðjung.
Aðkomuvegur var í upphafi fyrirhugaður upp Dagverðardal, en þegar frárennslið var fært sunnar var talið eðlilegra að fara með veginn upp hlíðina ofan við mannvirkin. Þegar horft er upp hlíðina er erfitt að ímynda sér annað en að sprengja verði syllu gegnum a.m.k. sum af hinum fjölmörgu klettabeltum í hlíðinni sem blasa við. Eftir nákvæma kortagerð og hönnun vegarins kom hinsvegar í ljós að allstaðar var unnt að þræða veglínuna framhjá klettabeltunum og hvergi verða miklar skeringar eða fyllingar. Vegurinn liggur að mestu eftir nokkuð flötum pöllum ofan klettabeltanna og verður því lítið sýnilegur sé horft upp hlíðina neðanfrá. Sama má segja um munna aðkomuganga og aðkomuhús sem hverfur í hinu stöllótta landslagi. Helstu sýnilegu áhrifin í hlíðinni verður munni strengjaganga sem opnast út í einu klettabeltanna. Þar verða hinsvegar engin mannvirki og munninn getur því litið út svipað og hvert annað hellisop.
Innviðir efldir samfara virkjun
Virkjanaaðilinn hefur ákveðið að koma upp aðstöðu fyrir ferðaþjónustu með gestastofu þannig að auðveldara verði fyrir heimamenn að nýta sér tækifæri sem virkjunin gefur. Einnig standa yfir viðræður við Orkubú Vestfjarða um að virkjunaraðilinn komi að lagningu þriggja fasa öflugrar rafmagnstengingar og ljósleiðara frá Hólmavík í Norðurfjörð sem yrði framlengd í Ófeigsfjörð þannig að verktakinn geti nýtt sér tenginguna á byggingatíma til að þurfa ekki að framleiða rafmagn með díselvélum. Þarna gætu farið saman hagsmunir nærsamfélagsins, virkjunaraðilans, dreifiveitunnar og orkuframleiðandans, auk umhverfisins vegna minni olíunotkunar.
Það er ánægjulegt að frekari þróun virkjana leiði til þess að áhrif þeirra á umhverfið minnki í hverju skrefi eins og gerst hefur með Hvalá. Oftar er það á hinn veginn, þ.e. að bæta þarf við mannvirkjum og valda meira raski eftir því sem málin þróast frá fyrstu hugmyndum.
Fossar og víðerni fá að njóta sín
Er þá ekkert neikvætt við virkjunina? Jú vissulega. Rennsli minnkar í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará, en verður þó við ós þeirra um þriðjungur af því sem það var fyrir virkjun. Rennsli ánna er síbreytilegt milli árstíða og ára og eftir miðjan júlí, þegar flestir ferðamennirnir eru á svæðinu, er rennslið alla jafna orðið mjög lítið. Langstærstu flóðin sem koma á haustin verða hinsvegar nær óbreytt, enda lónin þá orðin full. Ekkert hverfur því eða verður eyðilagt, en vissulega verður rennsli neðan lónanna oft verulega minna eftir virkjun en fyrir. Virkjunaraðilinn hefur hinsvegar kynnt áform um að hleypa rennsli á fossinn Drynjanda og hugsanlega Eyvindarfjarðará nokkrum sinnum yfir sumarið verði eftirspurn eftir því. Með þessu móti gefst tækifæri til að sjá fossana við mismikið rennsli og eftir miðjan júlí yrði mesta „stýrða“ rennslið miklu meira en það er við náttúrulegar aðstæður á þeim tíma. Rjúkandi og sérstaklega Drynjandi eru mjög óaðgengilegir fossar og mjög fáir gera sér ferð að þeim því land er erfitt og hættulegt yfirferðar og fjölbreytni langra gönguferða að þeim mjög lítil. Það er mín skoðun að þessir fossar verði þess vegna aldrei vinsælir fyrir hinn almenna ferðamann. Verði hinsvegar virkjað yrði Drynjandi miklu aðgengilegri frá aðkomuveginum og oft með miklu meira rennsli á mesta ferðamannatímanum síðsumars meðan á fossarennslinu stendur, þó vissulega geti vitneskja um tilbúið, stýrt rennsli haft áhrif á upplifun sumra. Húsárfoss er mest áberandi og sýnilegasti fossinn í Ófeigsfirði, og að margra mati sá fallegasti, breytist ekki við virkjun.
Stærð óskertra víðerna minnkar samkvæmt opinberri skilgreiningu. Það er þó erfitt að skilja að það sé mikilvægt markmið að halda slíkum jaðarvíðernum sem aldrei hafa verið nýtt til neins sem stærstum. Hefur slík fermetratalning eitthvert raunverulegt gildi? Skerðingin á víðernum er auk þess mjög mild, og fæstir myndu, eftir virkjun, upplifa þetta svæði öðruvísi en sem óskert víðerni. Andstaðan við Hvalárvirkjun virðist í hugum margra vera eins og trúarbrögð, byggð á ímynduðum áhrifum en raunveruleg áhrif virðast ekki skipta neinu máli.
Tafir yrðu áfall fyrir þróun raforkumála á Vestfjörðum
Að framansögðu er ljóst í mínum huga að Hvalárvirkjun er mjög skynsamleg virkjun bæði tæknilega, umhverfislega og ekki síst vegna jákvæðra áhrifa á nærsamfélagið og heilan landshluta, sem berst í bökkum. Virkjunin yrði langstærsta og tæknilega fullkomnasta og rekstrarlega öruggasta virkjunin á Vestfjörðum og nýr tengipunktur mun gera kleyft, kjósi menn svo, að reisa fjölda annara minni virkjana í Djúpinu, sem ekki verður séð að verði reistar án tilkomu Hvalárvirkjunar. Unnið hefur verið að undirbúningi virkjunarinnar í rúm 10 ár. Verði ferlið stöðvað, eða tafið verulega, núna á lokametrunum er óvíst að virkjunin muni verða reist í náinni framtíð. Það yrði mikið áfall fyrir þróun raforkumála á Vestfjörðum og hætt er við að landshlutinn myndi sitja uppi með annarsflokks raforkukerfi í áratugi sem myndi hefta atvinnuuppbyggingu.
Í andstöðu við alþjóðasamfélagið?
Verði Hvalárvirkjun ekki reist er alls óvíst hvort fleiri stórar eða meðalstórar vatnsaflsvirkjanir verði reistar á Íslandi, því að mínu mati er vafasamt að til sé virkjanakostur sem hafi jafn lítil neikvæð áhrif allavega miðað við þau jákvæðu. Það yrði áfall fyrir starfsemi sem byggir á umhverfisvænni orkuframleiðslu og nýtingu hennar og hefði neikvæð áhrif á lífskjör komandi kynslóða á Íslandi. Það er einnig í andstöðu við hvatningu alþjóðasamfélagsins um að þróa umhverfisvæna endurnýjanlega orku til að minnka brennslu kola og olíu samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Ábyrgð þeirra sem um þessi mál fjalla og taka ákvarðanir er því mikil.
Höfundur er verkfræðingur hjá Verkis hf.