Frelsi, jafnrétti, umburðarlyndi og samkennd eru þræðir sem þarf að flétta saman af kunnáttu og alúð til þess að úr verði sterk taug sem hægt er að ríða úr þéttriðið net góðs frjálslynds samfélags. Árangur næst ekki nema raddir þessara sjónarmiða sé sterkar. Viðreisn gegnir hér lykilhlutverki.
Frjálslyndur og alþjóðasinnaður
Viðreisn hefur markað sér sess sem frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Hann byggir stefnu sína og störf á jafnrétti og hugmyndafræði frjálslyndis. Leiðarstefin í stefnu flokksins eru frjálslyndi og jafnrétti, réttlátt samfélag, efnahagslegt jafnvægi og alþjóðleg samvinna. Á þessum grundvelli vinnur Viðreisn að því að skapa réttlátt samfélag þar sem almannahagsmunir ganga framar sérhagsmunum og allir einstaklingar, heimili og fyrirtæki njóta jafnræðis.
Snarpur og knár
Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn var stofnaður 24. maí 2016. Á þessum tveimur árum hefur flokkurinn tekið þátt í tvennum kosningum til Alþingis, átt sæti í ríkisstjórn eftir fyrri kosningarnar, en verið í stjórnarandstöðu í kjölfar þeirra seinni. Óhætt er að fullyrða að ráðherrar og þingmenn Viðreisnar hafi sinnt störfum sínum af alúð og náð að setja mark sitt á stjórnmálin á vettvangi ríkisstjórnar og þings. Það hefur tekist með skýrri stefnumörkun, lifandi flokksstarfi og óþreytandi flokksfólki og starfsmönnum. Á sama tíma hefur flokkurinn sjálfur tekið á sig fullskapaða mynd sem alvöru stjórnmálaflokkur með öllum þeim innviðum og skipulagi sem þarf til.
Viðreisn í nærsamfélaginu
Nýr kafli í tveggja ára sögu Viðreisnar verður skrifaður þann 26. maí. Þá tekur flokkurinn í fyrsta sinn þátt í sveitarstjórnarkosningum og kemur við sögu á tólf stöðum. Viðreisn býður fram eigin lista í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Reykjavík. Í Kópavogi er sameiginlegur listi með Bjartri framtíð, í Árborg sameiginlegur listi með Pírötum og óháðum, á Seltjarnarnesi er sameiginlegt framboð með Neslistanum. Í Reykjanesbæ, Stykkishólmi, Akureyri, Garðabæ, Ísafjarðarbæ og í Fjallabyggð kemur Viðreisnarfólk að framboði bæjarmálalista af ýmsu tagi.
Á öllum þessum stöðum hefur gott og hæft fólk valist til forystu. Fólk sem óhætt er að teysta til góðra verka. Áherslur milli sveitarfélaga eru auðvitað mismunandi enda aðstæður og úrlausnarefni oft af ólíkum toga. Leiðarstefin í stefnu Viðreisnar eru alls staðar undirliggjandi og móta málefnin sem sett eru á oddinn á hverjum stað.
Úrslit kosninga skipta máli
Frjálslynt samfélag byggt á frelsi, jafnrétti, umburðarlyndi og samkennd verður ekki til af sjálfu sér. Slíkt samfélag verður ekki til nema þeir sem aðhyllast þessi sjónarmið taki höndum saman um að vinna þeim framgang. Gildir þá einu hvort kosið er til Alþingis eða sveitarstjórna. Stefna Viðreisnar er skýr og Viðreisnarfólk hefur bæði getu og vilja til þess að vinna hörðum höndum að því að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd til góðs fyrir okkur öll. Til þess að svo megi verða þarf fulltingi kjósenda á kjördag.