Hóphugsun getur verið lævís, ekki hvað síst í pólitísku starfi. Í henni getur meðal annars falist að réttmæt gagnrýni er látin sem vind um eyru þjóta sé hún óþægileg og samræmist ekki sjálfsmynd eða heimsmynd þess hóps sem um ræðir. Getur verið að hugmyndir borgarstjórnarmeirihlutans um stórkostlega fjárfestingu í samgönguinnviðum gangi út frá óraunhæfri forsendu um það að hægt verið að töfra fram 200 milljarða til að losa um byggingarland í Vatnsmýrinni og 21 milljarð til að losna við Miklubraut af yfirborði jarðar?
Borgarlína er hönnuð út frá forsendum aðalskipulags um þétta byggð í Vatnsmýri sem þurfi að þjóna með hágæða almenningssamgöngukerfi. Þessi hönnunarforsenda endurspeglast í því að allar leiðir línunnar liggja niður á BSÍ. Í dag er BSÍ staðsett á óvistlegri umferðareyju, 56 m frá norðurenda Reykjavíkurflugvallar, við hliðina á ógnarstórri bensínstöð. Til þess að koma helstu leggjum Borgarlínunnar niður að BSÍ þarf að skapa pláss fyrir hana frá Kringlu og meðfram Klambratúni, en það verður ekki gert nema með því að setja núverandi götu í jarðgöng við ærinn tilkostnað.
Raunhæfara væri að aðlaga sig þeim veruleika að 350 þúsund manna samfélag hefur ekki efni á að eyðileggja flugvöll sem kostar 200 milljarða að koma á nýjan stað. Hugsum því Borgalínu upp á nýtt út frá þeirri forsendu að framtíðar þungamiðja borgarinnar verði á milli Kringlumýrarbrautar og Ártúnsbrekku. Búum til nýjan miðbæ í austurborginni á stærsta og veðursælasta landmassa Reykjavíkur. Ekki bíllausa miðborgarbyggð úti á hafi fyrir opnum norðan garranum og ekki miðborgarbyggð á flugvallarstæði sem kosta mun fáheyrða fjármuni að losa um.
Hinn nýi Laugavegur liggi frá Hlemmi upp í nýja Vogabyggð í vegstæði Suðurlandsbrautar. Þétting byggðar upp að Laugardalnum, sem verði miðborgargarðurinn. Borgarlína verði m.a., ólíkt því sem nú er áformað, lögð eftir Sæbraut þar sem stór landflæmi bíða frekari þróunar. Atvinnu- og íbúðauppbyggingu verði flýtt við Kringlu, í Skeifu, við Borgartún/Kirkjusand og meðfram Miklubraut. Nýr Stjórnarráðsreitur verði skipulagður á Veðurstofulóðinni eða á Keldum. Vesturbærinn verði sjötta úthverfi Reykjavíkur og miðborgin færist austar, nær hinum úthverfunum.
Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.