Ótalmörg dæmi sveima um samfélagið núna sem sýna okkur að stjórnmálakerfið sem við búum við gengur hreinlega ekki upp.
Davíð Oddsson negldi vandamálið á hnitmiðaðan og hreinskilnislegan hátt á sínum tíma þegar hann sagði:
„Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“
Í nýju stjórnarskránni er boðið upp á kosningakerfi sem er líklegt til þess minnka eða útrýma þessum fáránlega hugsanahætti sem grundvallast í einhvers konar „træbalisma“. Nýleg dæmi höfum við og gömul þar sem fólk berst í andstöðu við sannfæringu sína (og gjarnan í fullkominni andstöðu við hagsmuni almennings) til að verja völd eða flokk.
Þetta gengur ekki lengur.
Kosningakerfið sem við fáum með nýju stjórnarskránni heimilar persónukjör og að kjósendur geti ráðstafað atkvæði sínu með miklu meira frelsi til bæði fólks og flokka. Þá jafnar hún vægi atkvæða á landsvísu sem er mikilvægt mannréttindamál.
Stundum virðist biðin eftir þessum nauðsynlegu umbótum óbærilega löng.
Þá er gaman að eiga daga eins og ég átti á föstudag þar sem ég var í viðtali við dásamlegar og sterkar konur sem eru að búa til heimildarmynd um íslenska náttúru og íslenskt jafnrétti.
Þær eru báðar keppniskonur í brettaíþróttum og hafa barist fyrir jafnrétti innan sinna íþrótta árum saman. Stundum virðist baráttan svo torsótt að þær eru við það að örmagnast. Á slíkri stundu tóku þær ákvörðun um að gera heimildarmynd um Ísland. Landið þar sem sjálfsagt er að vera jafnréttissinni, landið með unaðsfögru náttúruna og landið þar sem ný stjórnarskrá var samin með gegnsæjum hætti af fólkinu í landinu (en ekki útvöldum og sérfróðum körlum í einhverju bakherbergi, eins og vaninn hefur verið í gegnum aldirnar).
Ég gaf þeim eintak af nýju stjórnarskránni á íslensku eftir að viðtalinu lauk. Þetta er falleg lítil bók sem vinur minn lét gera. Framan á kápunni er mynd af gleym-mér-ei blóminu. Vinur minn hefur sennilega fundið á sér þegar hann útbjó þessa útgáfu að biðin yrði löng. Raunar höfum við beðið eftir okkar eiginn samfélagssáttmála frá því löngu fyrir lýðveldisstofnun en eitthvað segir mér að takmarkið sé nær en margir halda núna.
Sú sem fékk bókina (sem sést á meðfylgjandi mynd) var svo barnslega glöð með þessa litlu gjöf að ég varð eiginlega meyr. Auk þess töluðu þær óendanlega fallega um þjóðfélagið okkar. Um kjör Vigdísar Finnbogadóttur, um kvennafrídaginn og stjórnarskrárferlið. Öll þess viðbrögð urðu til þess að ég fann skyndilega samtímis til mikils stolts og botnlausrar reiði.
Það er nefnilega svo að við höfum svo mikið sem vert er að verja hérna upp á Íslandi. Við bjuggum til samfélag sem hefur svo marga frábæra kosti að okkur ber hreinlega siðferðileg og lýðræðisleg skyldi til að laga kerfin sem tefja okkur frá frekari framförum og samkennd.
Við eigum þetta samfélag saman. Enginn einn á meira í því en annar. Fólkið sem er auðugt er háð leikskólakennurum, vegakerfinu og sjúkraliðum. Þetta spilar allt saman, en við spilum einhverra hluta vegna ekki almennilega saman. Að minnsta kosti ekki í stjórnkerfinu okkar. Við kusum fyrsta kvenforseta heims og vorum fyrsta þjóð heims til að semja stjórnarskrá með opnu og gegnsæju ferli.
Við getum ekki látið það viðgangast að stjórnkerfið sem við eigum haldi áfram að hunsa vilja þjóðar til nýrrar stjórnarskrár. Stjórnarskráin nýja mun ekki leysa öll okkar vandamál en ég tel fullvíst að hún muni bæta það til muna hvernig landinu er stjórnað. Ekki síst vegna þess að fólkinu í landinu er þar með gefið tækifæri til að koma að ákvörðunum sem aðeins valdhafar mega möndla með í dag. Þannig geta 10% kjósenda krafist þess að lög sem Alþingi setur fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og sami hluti kjósenda getur einnig haft frumkvæði að því að leggja fram lagafrumvarp á Alþingi.
Við erum ekki vitlaus, sérstaklega ekki þegar við komum saman og vöndum okkur. Ég leyfi mér að efast um að Vigdís hefði nokkru sinni verið kjörin forseti þessa lands ef það hefði verið alfarið á hendi Alþingis að velja okkur forseta árið 1980. Fólkið í landinu hafði hins vegar hugrekki til að ná fram þeirri niðurstöðu. Saman.
Mér finnst vera svo mikið vor og von í lofti þessa dagana.
Þegar útlenskar kjarnakonur koma hingað með stjörnur í augum til að skoða hvernig okkur tókst að ná árangri í fortíðinini er ágætt að staldra við, safna orku og ákveða síðan að við ætlum að ná árangri í framtíðinni. Saman.
Ég skora á alla sem þetta lesa að beita sér í baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá og betra samfélagi á Íslandi.
Höfundur er formaður Stjórnarskrárfélagsins