Öll viljum við búa við trygga og örugga raforku. Við tökum rafmagni sem aðgengilegum og sjálfsögðum hlut á degi hverjum. Nútímasamfélag krefst þess að raforka sé ávallt til staðar og að afhending hennar sé örugg, til heimila og atvinnulífs. Þannig er dreifing og flutningur raforku til allra byggða landsins talinn sjálfsagður enda nauðsynlegur þáttur í innviðum samfélagsins. Almenn raforkunotkun vex ár frá ári og mun aukast miklu meira í framtíðinni, sérstaklega í ljósi orkuskipta í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Framtíðarsamfélag mun reiða sig enn meira á raforku og örugga afhendingu hennar. Til að anna auknum vexti í raforkunotkun og auka afhendingaröryggið verður strax að styrkja flutningskerfi raforku sem er fyrir löngu komið að þanmörkum.
Byggðarlög við Eyjafjörð hafa um langt skeið búið við skert aðgengi að raforku vegna flutningstakmarkana í gömlu og úreltu byggðalínukerfi. Kerfið er orðið rúmlega 30 ára gamalt og elsti hluti þess, frá Skagafirði til Akureyrar, er 44 ára! Flutningsgetan er einungis 100 megavött sem er aðeins lítill hluti af þeim 2.757 megavöttum sem er uppsett afl í landinu, eða 4%. Kerfið getur ekki lengur afhent næga orku með öruggum hætti eða tekið við nýrri orku og því ekkert svigrúm fyrir aukna rafmagnsnotkun. Óöryggið verður meira og meira sem árin líða. Vandamálið tengist ekki eingöngu Eyjafirði heldur stefnir í orkuskort víða um land á komandi áratugum við óbreytt ástand. Afleiðingarnar fyrir samfélagið við Eyjafjörð eru margvíslegar. Straumleysi er algengara, spennusveiflur tíðari, rafmagnstæki á heimilum skemmast og fyrirtæki verða fyrir beinu tjóni vegna stöðvunar framleiðslu og tjóns á búnaði. Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna og fer vaxandi. Þessa þróun verður að stöðva strax.
Samtengt 1100 MV orkukerfi á Norðurlandi
Sett hefur verið fram áhugaverð og stórtæk hugmynd um uppbyggingu 220 kílóvatta byggðalínu á Norðurlandi frá Fljótsdalsstöð að Blöndustöð. Þetta eru línurnar Kröflulína 3 sem liggur frá Fljótsdalsstöð að Kröflu, Hólasandslína 3 sem liggur frá Kröflu að Rangárvöllum og Blöndulína 3 sem liggur frá Rangárvöllum að Blöndustöð. Í raun er hugmyndin komin til framkvæmda að hluta því nú þegar er vinna hafin við Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3. Blöndulína 3, er aftur á móti á byrjunarreit eftir endalausar deilur um staðsetningu hennar. Innviðauppbygging sem þessi myndi tengja saman fjórar virkjanir á Norðurland sem framleitt gætu um 1100 megavött. Með samtengdu raforkukerfi á Norðurlandi mun raforkuöryggi stóraukast og verður næg orka á svæðinu til framtíðar atvinnuuppbyggingar. Íslendingar eiga að styrkja innviði samfélagsins með öruggu og nútímalegu raforkuflutningskerfi. Stórátak þarf við uppbyggingu og viðhald innviða og við þurfum að forgangsraða í þágu slíkrar uppbyggingar.
Ákall til stjórnvalda
Landsnet hefur verið með áform um uppbyggingu og styrkingu flutningskerfisins og hefur sett fram tillögur í kerfisáætlun. Allar miða þær að því að skila mikilli aukningu í stöðugleika raforku ásamt töluverðri getu til að flytja afl milli landshluta með stuttum línum samanborið við byggðalínuhringinn. Því miður hefur Landsnet hvorki komist lönd né strönd með áætlanir sínar. Ástæðan er fyrst og fremst vegna deilna ýmissa aðila um framkvæmdirnar, þ.e. hvar rafmagnslínurnar eiga að liggja. Í nýlegri skýrslu Samtaka Iðnaðarins um innviði á Íslandi er komið inn á þetta vandamál. Taka má heilshugar undir ráðleggingar sem settar fram í skýrslunni en þær byggir á því að finna einfaldara lagaumhverfi, skýrara ferli fyrir framkvæmdir og að stjórnvöld komi að vali á kostum varðandi uppbyggingu meginflutningskerfisins.
Á meðan staðið er í kærumálum og deilum fyrir dómstólum um nauðsynlegu framkvæmdir innviðauppbyggingar raforkukerfisins heldur byggðalínan áfram að eldast og orkuskortur í Eyjafirði að aukast. Atvinnuuppbygging og atvinnuþróun á svæðinu á sér enga framtíð við þessi skilyrði. Engir möguleikar eru til að ráðast í ný verkefni, stór eða smá, þar sem orkan er af skornum skammti eða er ekki til staðar. Stjórnvöld verða að grípa inn í og stöðva þessa þróun.
Höfundur er framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.