Hún var einföld auglýsingin sem birtist vegna stofnunar Viðreisnar í Hörpu fyrir tveimur árum. Fólki sem vildi leggja áherslu á frjálslyndi, alþjóðasamvinnu, jafnrétti og heiðarleika í þágu almennings var boðið að koma saman og stofna stjórnmálaflokk.
Lykilstef flokksins frá upphafi hefur verið almannahagsmunir framar sérhagsmunum. Tiltölulega einfalt og skýrt leiðarljós í öllum þeim verkefnum sem við höfum tekið þátt í. Tvö ár eru kannski ekki langur tími en hann getur verið drjúgur tími í pólitík, sér í lagi þegar nýr flokkur fer í gegnum tvennar kosningar og þær þriðju eru á næsta leyti. Þá er mikilvægt, þrátt fyrir samstarf í ríkisstjórn, að stjórnmálaflokkur haldi karaktereinkennum sínum og grundvallarhugsjónum. Og komi sér að verki.
Við komum til dyranna eins og við erum klædd, tölum fyrir áherslum okkar og gerum allt sem í valdi okkar stendur til að skila áþreifanlegum árangri. Á skömmum líftíma höfum við sýnt svo ekki verður um villst, að það getum við. Við nýttum vel tímann sem við vorum í ríkisstjórn og það sama má segja um þá mánuði sem við höfum nú starfað í stjórnarandstöðu. Þegar heildarmyndin er skoðuð getum við í Viðreisn verið stolt af verkum okkar. Sem eru mörg og fjölbreytt þrátt fyrir ungan aldur flokksins. Við höfum talað fyrir almannahagsmunum og boðið sérhagsmunum birginn. Við höfum talað fyrir því að vera virk þjóð á meðal þjóða með öflugri Evrópusamvinnu og við höfum haft hugrekki til að tala fyrir löngu tímabærum breytingum á úreltum valdakerfum í landinu.
Skoðum hluta þessara verkefna síðustu tveggja ára:
- Settum jafnlaunavottun í lög
- Endurskoðuðum peningamálastefnu Íslands með það að markmiði að lækka vexti og minnka sveiflur hjá fjölskyldum og fyrirtækjum
- Settum af stað sáttanefnd um sanngjarna gjaldtöku í sjávarútvegi
- Breyttum skilgreiningu á nauðgun í hegningarlögum
- Opnuðum reikninga stjórnarráðsins
- Lögðum fram aðgerðaáætlun í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu
- Lækkuðum vaxtakostnað um 6 milljarða
- Undirstrikuðum mikilvægi Evrópusamvinnu
- Þrefölduðum fjárveitingar til móttöku flóttamanna.
- Endurskoðuðum búvörusamninga og fengum neytendasjónarmið að borðinu
- Fórum fram á rannsókn á aðkomu ríkisins að byggingu kísilvers
- Lögðum fram þingsályktun um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga með það að sjónarmiði að tryggja að kostnaðaráætlanir ríkisins standist
- Lögðum til endurskoðun á hegningarlagaákvæðum um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífsins
- Lögðum fram skýrslubeiðni um aðkomu hulduaðila að kosningum
Önnur mál sem bíða nú afgreiðslu Alþingis – og reyna á vilja stjórnarmeirihluta:
- Afnám undanþágu MS frá samkeppnislögum
- Endurmat á hvalveiðistefnu Íslands
- Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta
- Breytingar á lögum um mannanöfn
- Breytingar á útlendingalögum til að veita börnum rétt til dvalarleyfis
- Frelsi á leigubílamarkaði
- Brottfall frá kröfu um ríkisborgararétt opinberra starfsmanna
- Sálfræðiþjónusta í opinberum háskólum
- Jafnréttisstefna lífeyrissjóða
- Afnám einkasölu ÁTVR á áfengi
- Betrun fanga
- Hjólaleið milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
- Skattaafsláttur vegna endurgreiðslu námslána
Eins og sést er Viðreisn flokkur allra þeirra sem vilja að unnið sé að almannahagsmunum, frelsi, jafnrétti og gegnsæi í pólitísku starfi. Markmiðin eru réttlátt samfélag, stöðugt efnahagslíf og fjölbreytt tækifæri.
Nú þegar sveitarstjórnarkosningar eru framundan er ég sannfærð um að fólkið okkar sem tekur þátt á listum á 13 stöðum á landinu muni láta verkin tala og hafa þor til að breyta í þágu almannhagsmuna. Það eru okkar karaktereinkenni. Og þannig mun Viðreisn halda áfram að vaxa og dafna líkt og unglingurinn sem fer í gegnum þroskaferli með margvíslegum áskorunum.
Við hlökkum til.
Höfundur er formaður Viðreisnar.