„Það er ekki séns að ég ræði þetta við þig ef þú ætlar að fara að blanda feðraveldinu inn í þetta!“
Í bókinni The Big Push eftir femínísku fræðikonuna Cynthiu Enloe gerir hún sigur Trump í bandarísku forsetakosningunum að umfjöllunarefni. Hún fjallar ítarlega um þann gífurlega samstöðukraft kvenna sem fékk eld til að brenna í brjóstum okkar allra í Kvennagöngunni (1) í Washington síðastliðinn janúar. Þar gengu 500.000 til 680.000 konur og karlar gengu í nýársfrostinu til að mótmæla embættistöku Donald Trumps. Víðsvegar um heiminn fóru fram systra göngur, alls 673 með áætluðum 4.9 milljónum mótmælendum.
Mótmælin tóku á sig margar birtingarmyndir allt frá því að fjalla um ákvörðunarrétt kvenna yfir líkama sínum yfir í að tala fyrir málefnum innflytjenda og gegn uppgangi fasisma. Skiltin og mótmælin voru fjölbreytt en nánast enginn benti á feðraveldið (e. patriarchy) sem illmennið.
Feðraveldið er nefninlega bannorð, eins og Voldemort. Fólk óttast að tala um það en ef við nefnum það ekki sínu rétta nafni styrkist það. Það þrífst á því að allt þyki vera í lagi eins og það er. Það þrífst á klisjum eins og „konur eru konum verstar“ og „konum er ekki treystandi til að taka ákvarðanir, þær gætu verið á túr.“ Ef þú minnist á feðraveldið ertu risaeðla eða rauðsokka, búin að missa marks og ómarktæk. Það sem femínistar hins vegar sjá, lesa og finna með hverri frumu í líkama sínum er að feðraveldið iðar af lífi. Það fær aukinn kraft í hvert sinn sem reynt er að þagga niður í okkur og í hvert sinn sem kyrjað er „saklaus uns sekt er sönnuð.“
Kvennahreyfingin getur ekki sætt sig við óbreytt ástand. Við erum ekki sáttar við að stöku sinnum komist konur að með því skilyrði að þær hafi ekki hátt um feðraveldið. Við ætlum ekki að sætta okkur við sæti við borðið, við ætlum að henda þessu borði og smíða nýtt. Við ætlum að hrista upp í karllægri umræðu um borgarlínur og útsvarslækkanir. Okkur finnst ekkert yfir gagnrýni hafið, ekki grundvallarreglur réttarríkisins og ekki sú orðræða að maður sé talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð.
Þegar rýnt er í þessa meginreglu sakamálaréttarfars er ljóst að tvö meginsjónarmið eru lögð til grundvallar sem geta óneitanlega strítt hvert gegn öðru. Annars vegar er það að vernda mannréttindi þeirra einstaklinga sem sakaðir eru um refsivert athæfi gegn yfirburðum ríkisvaldsins og koma í veg fyrir að saklaus maður verði fundinn sekur. Hins vegar að vernda hagsmuni brotaþola og stuðla að réttaröryggi allra borgara með því að upplýsa um afbrot. (2) Síðarnefnda sjónarmiðið er öllu nýrra af nálinni eins og sést m.a. á því að fyrsta löggjöfin á Íslandi sérstaklega til verndar brotaþola er frá 1999 og hefur ekki mikið breyst síðan þá. Í skrifum um sakamálaréttarfar er sakborningum oft lýst sem einstaklingum sem standa höllum fæti í samfélaginu og eru í veikri stöðu gagnvart ríkisvaldinu. Þeir megi sín lítils og því er þeim búin ýmis réttarfarshagræði til að tryggja að ekki sé vegið að mannréttindum þeirra. (3)
Frasanum „saklaus uns sekt er sönnuð“ sem er lögfest regla í sakamálaréttarfari er hins vegar kastað hægri og vinstri í umræðum kommentakerfanna sem náttúrulögmáli og oftast í þeim tilgangi að þagga niður raddir kvenna sem tjá sig um kynbundin ofbeldismál. Hann þýðir nefnilega að fórnarlambið sé lygari þar til annað fáist sannað. Í verstu tilvikunum leiðir það til meiðyrðamála að kona tjái sig um reynslu sína og er þess iðulega krafist að hún hafi haldbær gögn máli sínu til stuðnings, ella brjóti hún gegn samfélagssáttmálanum. Lög og reglur hafa vafalaust áhrif á viðhorf okkar og skoðanir en er ekki full langt gengið gera sömu kröfur til brotaþola, hins almenna borgara og við gerum til ákæruvaldsins?
Í rannsókn Hildar Fjólu Antonsdóttur, Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að úrbótum, er m.a. lagt til að „kanna nánar hvað veldur því að „venjulegir menn“ eru í meirihluta sakborninga í málum sem tilkynnt eru til lögreglu en hlutfallslega fáir í hópi ákærðra.“ Í rannsókninni er haft eftir rannsóknarlögreglumanni að þessi brotaflokkur sé sérstakur í ljósi þess að ólíkt öðrum afbrotum, eins og þjófnaði og innbrotum séu gerendur af öllum stéttum samfélagsins. Verjandi benti á að það sé áberandi hvað sakborningar í kynferðisbrotamálum séu sjaldan með sakaferil fyrir og hvað þetta eru venjulegir menn. (4)
Réttarkerfið okkar er hannað til að takast á við afbrot þeirra sem skera sig úr norminu og eiga oft undir högg að sækja. Sakborningar í kynferðisbrotamálum eru hins vegar upp til hópa „venjulegir menn“. Getur verið að venjulegir menn séu sakborningar í nauðgunarmálum því við búum við ákveðna nauðgunarmenningu þar sem gert er ráð fyrir því að nei geti þýtt já og að mörkin milli samþykkis, þvingaðs samþykkis og nauðungar séu á einhver hátt „blörruð?“ eins og skáldið sagði.
Mismunun getur bæði verið bein og óbein og því má velta upp hvort að réttarkerfið okkar sé í stakk búið til að takast á við mál þar sem orð getur staðið gegn orði, hvort við þurfum að leita annara leiða til að takast á við þess konar mál, eða setja miklu, miklu meira púður í að fræða fólk um samþykki og mörk. Eitt er þó ljóst að konur geta ekki búið við þær hótanir að fá ekki að lýsa reynsluheimi sínum án þess að vera með úrskurð dómara í höndunum eða játningu.
Að því sögðu viljum við skilja við ykkur með tilvitnun í sératkvæði Yudkivska dómara Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Carvalho Pinto De Sousa Morais v. Portugal nr. 17484/15. 25. júlí 2017:
„Því meira jafnrétti sem lögin veita, því erfiðara verður að skynja og skilgreina kynbundna mismunum, akkúrat vegna þess að rætur staðalímynda um „hefðbundin“ hlutverk karla og kvenna liggja svo djúpt. …á meðan konur eru enn hlutverksbundnar er aragrúinn allur af lögum og réttarheimildum sem ætlað er að tryggja jafnrétti kynjanna einungis orðin tóm til verndar réttindum og frelsi kvenna. Sé þetta viðhorf ekki gagnrýnt mun raunveruleg mismunun aldrei verða upprætt.
…ef okkur er alvara með að ná markmiðum um jafnrétti kynjanna verður við að helga meiri orku í að uppræta fordóma og staðalímyndir um konur og karla. Við verðum að hætta að styðjast við misvísandi hugmyndir um hvernig konur eigi og eigi ekki að vera eða gera, einungis á grundvelli þess að þær eru konur…. Í því felst krafan um jafnrétti, sem er grundvöllur mannréttinda.“ (5)
Höfundar eru frambjóðendur Kvennahreyfingarinnar.
Heimildir:
1. Stjörnurnar létu heyra í sér í kvennagöngunni.
2. Eiríkur Tómasson: Meginreglur opinbers réttarfars, 2. útgáfa, Reykjavík 2002.
3. Grein þessi er byggð á óbirtri rannsókn á Réttarstöðu kvenna sem brotaþolar kynbundis ofbeldis í ljósi femínískra lögfræðikenninga eftir Evu Huld Ívarsdóttur og Ingibjörgu Ruth Gulin. Rannsóknin var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2017.
4. Hildur Fjóla Antonsdóttir: Viðhorf fagaðila til meðferðar nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og tillögur að
úrbótum. EDDA – öndvegissetur, unnið í samvinnu við innanríkisráðuneytið, Reykjavík 2014.
5. Þýðing Eva Huld Ívarsdóttir.