Skrif Snorra eru yfirveguð og kurteis og hann reynir að rökstyðja mál sitt og er því sjálfsagt að svara aðfinnslum hans. Snorri á líka heiður skilið fyrir að vera eini maðurinn í heiminum sem skilaði inn athugasemdum og ábendingum við umhverfismat Hvalárvirkjunar fyrir tæpum tveimur árum, reyndar sem starfsmaður Landverndar.
Raforkuöryggi Vestfjarða
Snorri telur að betra sé að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum „ t.d. með smávirkjun eða vindorkugarði í Ísafjarðardjúpi. Það er engin ástæða til að fórna stórkostlegri náttúru Árneshrepps og víðernum Ófeigsfjarðarheiðar, byggja tengivirki og leggja í gríðarlegar línu- og sæstrengslagnir fyrir raforkuöryggi Vestfirðinga“.
Þarna greinir okkur mikið á. Ég tel reyndar að þessar hugmyndir Snorra styðji mjög vel við hversu skynsamlegt er að virkja Hvalá. Vindmyllur eru 100 til 150 m háar og þarf fjölda þannig mannvirkja til að tryggja orkuöryggi þ.e.a.s þegar ekki er logn. Smávirkjanir eru að jafnaði með stöðvarhúsi á yfirborði og vatnsvegum, annaðhvort mjög sýnilegum á yfirborði (td. Mjólkárvirkjun) eða niðurgrafnar pípur. Það þarf margar smávirkjanir til að tryggja orkuframleiðslu til Vestfirðinga og þeirri auknu notkun sem margir vonast eftir að fylgi í kjölfarið. Það þarf líka að flytja orku frá þessum orkuverum, og tvöfalt öflugri línu þarf til að flytja jafnmikla orku frá vindorkugarði miðað við vatnsaflsvirkjun.
Þá bendir Snorri líka á skýrslu METSCO sem Landvernd lét gera. Þar er áætlað að jarðstrengjavæðing hluta Vesturlínu, frá Geiradal að Ísafirði, kosti um 20 milljarða króna. Það sýnir að slík lausn er meira en stærðargráðu frá því að vera valkostur og aftur rökstuðningur frá Landvernd fyrir að Hvalárleiðin er raunhæfasta, fljótlegasta, og líklegasta leiðin að meira raforkuöryggi.
Óskert víðerni
Snorri misskilur því miður hvað ég átti við með að áhrif skerðingar Hvalárvirkjunar á víðerni séu „mild“. Ég var ekki að tala um fermetra samkvæmt opinberri skilgreiningu. Í skilgreiningunni er gert ráð fyrir að lón sem mynduð eru með grjótgarði við útrennsli náttúrulegra vatna, jarðgangamunnar og óuppbyggðir vegir með óbundnu slitlagi hafi sömu áhrif (skerða víðerni umhverfis sig í 5 km radíus) og t.d. 150 m háir vindorkugarðar eða háspennulínur. Að mínu áliti eru áhrif fyrrnefndra mannvirkja „mild“ miðað við síðarnefndu mannvirkin, nánast eins og svart og hvítt. Þarna hefði ég mátt útskýra betur í hverju mild áhrif skerðingar víðerna felst. Enginn ágreiningur er um hlutfallslegan fjölda fermetra samkvæmt skilgreiningu yfirvalda.
Mikil eða lítil umhverfisáhrif
„Orð Þorbergs um „tiltölulega lítil umhverfisáhrif virkjunarinnar“ eru röng“. Þarna var ég að vitna í umhverfismat virkjunaraðilans og álit allra þeirra lögbundnu umsagnaraðila sem unnu álit á matskýrslunni að beiðni Skipulagsstofnunnar. Snorri telur að álit Skipulagsstofnunar sé „nánast samfelldur áfellisdómur yfir framkvæmdinni og því ber að hætta við hana“. Þar er ég alls ekki sammála, þótt vissulega meti Skipulagsstofnun áhrif virkjunarinnar á vatnafar og ásýnd, „verulega neikvæð“ en ekki „talsverð neikvæð“ eins og þeir aðilar sem ég var að vitna til. Þetta er reyndar sama einkunn og Skipulagsstofnun hefur gefið öllum virkjunum yfir 10 MW að stærð sem farið hafa í mat á umhverfisáhrifum hér á landi. Engu að síður hafa þó sumar þeirra þegar verið byggðar, t.d. Þeistareykjavirkjun.
Virkjun eða þjóðgarður
Snorri telur að „ekkert sem bendir til að Hvalárvirkjun muni hafa jákvæð áhrif á byggð í Árneshreppi til lengri tíma ... Aftur á móti gæti þjóðgarður eða álíka verndarsvæði haft veruleg jákvæð áhrif eins og bent var á hér að framan.“ Þarna er fullyrðing á móti fullyrðing og mikil kokhreysti að halda að önnur sé hreinlega röng en hin þá rétt. Það má þó benda á að enginn er að fara að gera þjóðgarð á þessu svæði, og slíkt tæki áratugi í undirbúningi og samninga við landeigendur. Þess utan kemur virkjun alls ekki í veg fyrir að þarna verði gerður þjóðgarður standi vilji manna til þess.
Hagnaður eða ekki
Snorri virðist telja sig betri spámann en jafnvel mestu sérfræðingar á orkumarkaði því hann lýkur grein sinni með eftirfarandi fullyrðingu. „Þessir aðilar (HS-Orka) munu hagnast verulega á framkvæmdinni“. Þessi framkvæmd er eins og allar aðrar framkvæmdir háð mikilli óvissu og áhættu. Aðalóvissan er væntanlega þróun rafmagnsverðs í framtíðinni. Fram til um 2014 voru engir fjárfestar tilbúnir að leggja áhættufjármagn í undirbúning þessarar framkvæmdar og er niðurstaðan um hagkvæmni engan veginn að fullu ljós ennþá. En þessi fullyrðing Snorra um fjárhagslega afkomu gefur til kynna að honum hætti til að fullyrða um hluti sem hann hefur enga möguleika á að geta sagt til um með neinni vissu.Sem betur fer sýnist mér að ekki hafi verið um neinar rangfærslur að ræða hjá mér í grein minni. Í tveimur tilfellum virðist Snorri hafa misskilið það sem átt var við og í hinum tveimur atriðunum erum við bara ósammála um hvernig mál munu þróast í framtíðinni fyrir byggð, sem við báðir viljum væntanlega að geti haldist sem blómlegust og vaxið. Þar er ekkert rangt eða rétt en menn bara benda á upplýsingar og hliðstæður og rökstyðja sitt mál af bestu getu. Það er svo annarra að dæma um hvaða leið þeir telji líklegasta til farsældar framtíðar, nærsamfélagsins og landshlutans.