Frumvarpið er sett fram til að berja í bresti kerfis sem hefur aldrei þjónað þeim tilgangi að skila réttmætum hluta auðlindaarðsins til eiganda fiskimiðanna, þjóðarinnar allrar. Hér hefur verið búið út ógegnsætt flókið kerfi sem þarfnast stöðugra viðbóta og nýrra útfærslna þó margsinnis hafi verið bent á aðrar leiðir sem þjónað geta sama tilgangi mun betur.
Hin augljósa niðurstaða veiðigjaldafrumvarpsins er sú að þegar öll gjöld eru lækkuð skilar sér mest til þeirra stærstu þó reynt sé að telja fólki trú um að aðgerðin sé fyrst og fremst hugsuð til að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Til að koma til móts við rekstur þeirra fyrirtækja sem kunna að eiga í erfiðleikum eru til aðrar mun einfaldari aðgerðir sem þurfa ekki jafnframt að fela í sér eftirgjöf til allra útgerða, stórra og smárra.
Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að bæta hag smærri og meðalstórra útgerða. Til að sýna fram á hinn yfirlýsta vilja þá þyrfti að setja fram í töflu öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Innan hvers fyrirtækis yrði að koma fram hvað hvert og eitt þeirra aflaði af hinum nafngreindu fisktegundum frumvarpsins á síðasta heila fiskveiðiári (2016-2017) margfaldað með kr. á kg samkvæmt fyrri tilhögun.
Síðan þyrfti að margfalda þetta sama magn aftur með þeim fjárhæðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Með slíkum samanburði sæist hvaða fyrirtæki væru að borga meira og hvaða fyrirtæki væru að borga minna og þá fyrst væru komnar forsendur til að segja til um hvort verið væri að hygla litlum og meðalstórum fyrirtækjum eða frekar hinum stærri. Uppsetning slíkrar töflu ætti að vera lítið mál m.v. fyrirliggjandi upplýsingar hjá Fiskistofu og ráðuneytinu en slík framsetning er einfaldlega forsenda þess að hægt sé að fullyrða að þetta sé gert í þágu lítilla og meðalstórra útgerða.
Byggðasjónarmið
Við jafn mikilvæga ákvörðun og hér er stefnt að þá hlýtur fyrst og fremst að verða að horfa til afkomu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar. Um leið og farið er að blanda byggðasjónarmiðum inn í umræðuna þá er ekki lengur verið að horfa á sjávarútveginn sem atvinnugrein heldur er honum ætlað annað hlutverk út frá byggðasjónarmiði. Þegar það er gert þá færist gjaldtaka í sjávarútvegi niður í lægsta samnefnara svo þeim sem lakast standa verði bjargað. En það þýðir jafnframt að þar sem reksturinn gengur vel, að þar verður til hagnaður langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
Hér er alls ekki gert lítið úr byggðasjónarmiðum sem eiga fyllsta rétt á sér. Þegar þurfa þykir mætti t.d. styrkja fyrirtæki í hinum brothættu byggðum með beinum fjárframlögum í stað þess að miða alla gjaldtöku í greininni við rekstur þeirra fyrirtækja sem lakast standa. Þannig gæti gjaldtakan samkvæmt veiðigjaldafrumvarpinu runnið að drjúgum hluta til að styðja við fyrirtæki sem illa væri komið fyrir og yrði það gert samkvæmt fyrirfram mótaðri byggðastefnu.
Opnir ársreikningar
Þegar fyrrgreindur samanburður hefur verið gerður á gjöldunum sem útgerðir greiða fyrir lagabreytingu og eftir hana þá er ástæða til að skoða reikninga einstakra útgerða. Ef kostnaður lítilla og meðalstórra útgerða hefur aukist þá þarf að opna bókhald þeirra, til að kanna af hvaða völdum það er, áður en komið er til móts við þau með einum eða öðrum hætti af hálfu hins opinbera. Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum getur óhófleg arðgreiðsla eða launahækkun til forstjóra og stjórnenda vegið þungt í afkomu fyrirtækisins. Einnig ef fyrirtækið hefur t.d. freistast til að kaupa dýra bifreið undir forstjórann þá sér þess stað í verri afkomu.
Því aðeins að fyrirtækin verði reiðubún að sýna ársreikninga sína ættu þau að fá notið nokkurra ívilnana því það er varla tilgangur veiðgjaldafrumvarpsins að auðvelda einstökum fyrirtækjum að auka á óhóf í rekstri þeirra.
Skattaspor
Eitt af því sem greinargerð frumvarpsins gerir að umfjöllunarefni er hið svokallaða „skattaspor“ íslensks sjávarútvegs. Þessu hugtaki hefur verið beitt oftsinnis áður í þágu málstaðar þeirra sem nú gera út á Íslandsmiðum og sækja í sameign þjóðarinnar. Þá eru talin upp þau opinberu gjöld sem fyrirtækin greiða, að mestu skattar og gjöld sem öll fyrirtæki á Íslandi greiða, sjávarútvegsfyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.
Vegna umfangs sjávarútvegsins í landsframleiðslunni þá eru þetta háar fjárhæðir og sér Deloitte og hagsmunasamtök útgerðanna um að tíunda þetta reglulega eins og að hér sé um einhverskonar ölmusu að ræða sem sjávarútvegurinn af góðsemi einni saman greiðir í ríkissjóð.
En „skattaspor“ má skoða með ýmsu móti. Þannig má til sanns vegar færa að „skattaspor“ hjóna með tvö börn á skólaaldri sé hlutfallslega stærra heldur en „skattaspor“ sjávarútvegsins. Hjónin þurfa að greiða beina skatta af launum sínum auk óbeinna skatta af öllum keyptum vörum til heimilisins til að fæða og klæða börn sín og þau sjálf. Hlutfallslegur kostnaður þeirra af opinberum gjöldum er síst minni heldur en sá kostnaður sem sjávaútvegurinn greiðir hinu opinbera.
Gallaðar aðferðir
Ljóst má vera að sú aðferð sem notuð er til að láta eiganda fiskveiðiauðlindarinnar, þjóðina, njóta arðsins af auðlindinni er meingölluð. Um það eru flestir sammála. Það eitt ætti að nægja til þess að leitað yrði annarra og nýstárlegri leiða til að sneiða hjá vandræðagangi sem þeim frumvarp þetta ber vott um. Nokkuð er vitnað til endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte og talna sem frá þeim koma en hafa verður í huga að greiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til Deloitte nema tugum milljóna á ári hverju og hafa gert í mörgt ár og er sjávarúvegurinn sem heild einstaki mikilvægasti viðskiptamaður Deloitte á Íslandi. Taka verður undir niðurlag 4. kafla greinargerðar með lagafrumvarpinu þar sem segir:
„Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.“
Þetta eru orð að sönnu. Fyrst mikið er vitnað til Deloitte í greinargerðinni væri ekki úr vegi að fá sérfræðinga Deloitte til að upplýsa hvernig þeir myndu í ljósi sinnar sérfræðiþekkingar og menntunar leysa þetta vandamál sem lýtur að innheimtu gjalds af takmarkaðri auðlind og hér hefur verið lýst. Svar þeirra þyrfti að byggjast á hreinskilni og mætti ekki vera markað því að þeir eiga stærstan hluta afkomu sinnar undir þjónustu við sjávarútvegsfyrirtækin.
Án þess að vilja blanda mér í „þingtæknileg“ atriði málsins þá hlýt ég einnig að taka undir með Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra sem sagði 2013:
„Á lokasprettinum er samkomulag um þinglok sett í uppnám með tillögum meirihluta atvinnuveganefndar um að gefa enn í varðandi gjafir til útgerðarinnar. Á einum degi, án röksemda, án útreikninga, án skýring á að fella niður veiðigjald á kolmunna sem nemur 459 milljónum króna. Stjórnarmeirihlutinn sendir sprengju inn í viðkvæma stöðu. – Enn er málið óleyst.“
Þau orð sýnast mér gilda enn í dag.
Höfundur er hagfræðingur.