Ég verð seint talin til aðdáenda Sjálfstæðisflokksins og fyrir hvað hann stendur beint og óbeint. Engu að síður völdum við í VG að fara í ríkisstjórnarsamstarf með þeim og Framsókn eftir að reyna allt annað í boði nema hleypa Miðflokknum að. Skárra hefði verið að fara með Sjálfstæðismönnum og Samfylkingu, en þeir síðarnefndu sáu þann kostinn vænstan að sækja sér fylgi til þeirra sem illa mundu una samflotinu. Uppi er því sú staða sem allir þekkja; VG leiðir breiða stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem spannar nærri allt hið pólitíska litróf. Þetta er og hefur reynst mörgum þungbært og sannarlega er erfitt að kyngja mörgum þeim málamiðlunum sem gera þarf. Þar til VG hlýtur hreina meirihlutakosningu verður hins vegar að gera slíkar málamiðlanir ef VG vill yfirhöfuð sitja í stjórn.
Nú verð ég seint talin hlutlaus um þessi mál. Sem varaformaður VG er mitt helsta hagsmunamál að vinna hreyfingunni heilt. Mér finnst sannarlega erfitt að sjá okkar fólk arka fram á vígvöll skoðanaskipta (ekki verður vellinum lýst öðruvísi) með málamiðlanir og jafnvel mál sem ganga gegn stefnu VG vegna þeirra ábyrgðarstaða sem við höfum tekið að okkur. Að þessu leitinu finnst mér reyndar félagar mínir oft heldur fórnfúsir.
Aðalmálið er þó í mínum huga að á einhverjum tímapunkti verðum við að horfast í augu við að alls enginn sátt ríkir í þessu landi um ákaflega stór og mikilvæg mál. Það er enginn sátt um það hvernig stjórnarskráin á að líta út, það er enginn sátt um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, það er enginn sátt um veru okkar í NATO og þátttöku í stríðsbrölti, það er enginn sátt um Palestínu, það er enginn sátt um hvernig haga skuli rekstri skóla, velferðarþjónustu, borgarlínu og svona gæti ég lengi talið. Þessi staðreynd endurspeglast svo í þeim fjölda flokka sem bjóða sig fram til þings og stærstu sveitarstjórna. Þegar við svo göngum í kjörklefann verður til niðurstaða sem birtir eiginlega nákvæmlega þá staðreynd að enginn sérstök sátt ríkir um stærstu málin. Ofan á þetta bætist djúpt vantraust á stjórnmál og stjórnmálafólk sem vellur út úr opnum sárum hrunsins sem virðast illa ætla að gróa.
Við þessar aðstæður kaus VG að fara í ríkisstjórn og leiða hana. Ég sagði þá og segi aftur nú, þetta var ekki það sem ég hefði helst viljað. En það er komin tími á að reyna að skapa sátt í þágu almannahags um stóru málin. Það er komin tími á að taka á stjórn fiskveiða, stjórnarskrá, stríðsbrölti og öðru með sama hætti og við tókum á verðbólgunni; með sátt. Það þýðir að VG slær af en það gera líka Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, oft svo um munar. Ég lít svo á að hver málamiðlun er áfangi í lengri vegferð í skapa samfélag jöfnuðar.
Ég treysti kjörnum fulltrúum VG til að missa ekki sjónar af markmiðum þeirra vegferðar. Ég sé ekki ástæðu til að úthrópa þá sem svikara í hvert sinn sem reynt er að stýra málum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ég verð bara að viðurkenna að mér finnst það ekki sanngjarnt né eðlilegt að ætla að þeir sem starfa fyrir VG hafa allan tímann verið bara laumu hitt eða laumu þetta og kasti svo af sér gærunni nú hver á fætur öðrum. Hvurslags sýn er það eiginlega á fólk, sem jafnvel hefur lagt ævina, æruna og orðsporið undir í að vinna að hugsjónum VG?
Höfundur er varaformaður Vinstri grænna.