Sú sérkennilega staða kom upp á Alþingi í gær að þingmenn Miðflokksins börðust með kjafti og klóm fyrir því að þeirra eigin frumvarp yrði fellt í þingsal. Þegar líður að þinglokum semja flokkarnir sín á milli; hvaða stjórnarmál ná í gegn og hvernig fer með mál stjórnarandstöðunnar. Að þessu sinni var samið um að eitt mál frá hverjum flokki stjórnarandstöðunnar kæmist áfram til þinglegrar meðferðar. Í þinglegri meðferð felst ekkert annað en fullnaðarafgreiðsla, atkvæðagreiðsla um málið, frávísun eða máli er vísað áfram, t.d. til ríkisstjórnar.
Mál Miðflokksins lýtur að því að verðtryggingin verði tekin úr húsnæðislið vísitölu neysluverðs. Risastórt mál og ákvörðun sem hefur mikil fjárhagsleg áhrif í för með sér. Þegar sambærilegt mál kom fram fyrr á þessu þingi, en fyrsti flutningsmaður þess var Willum Þór Willumsson, þingmaður Framsóknarflokksins, snérist það enda um að skipa starfshóp sérfræðinga sem mundi meta kosti og kalla svo viðamikillar breytingar. Já, þú last rétt; eins mál var fyrir þinginu fyrr í vor og var reyndar samþykkt samhljóð í þingsal 8. maí sl., m.a. af öllum þingmönnum Miðflokksins nema Önnu Kolbrúnu Árnadóttur sem var með fjarvist.
Sjálfur greiddi ég atkvæði með tillögu Willums, enda finnst mér sjálfsagt mál að kanna kosti og galla jafn umfangsmikillar breytingar. Skynsamlegt væri því að gera slíkt hið sama með tillögu Miðflokksins og fá svör sérfræðinganna. Það taldi enda meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar sem afgreiddi málið út úr nefnd föstudaginn 8. júní með tillögu um að því yrði vísað til umræddrar sérfræðinganefndar. Minnihlutann skipaði einn nefndamaður, Þorsteinn Sæmundsson, sem vildi samþykkja málið, auk áheyrnarfulltrúa. Málið komst svo á dagskrá þingsins mánudaginn 11. júní og þar mælti framsögumaður meirihlutans fyrir sinni tillögu og minnihlutans fyrir sinni.
Daginn eftir, í gær, stóð svo til að ljúka þinginu í samkomulagi. Örfáum mínútum fyrir þingfund kvað hins vegar við nokkuð annan tón hjá Miðflokksmönnum og fundu þeir þeirri málsmeðferðartillögu meirihlutans, sem legið hafði fyrir síðan á föstudag og rædd í þaula á mánudagskvöld, allt til foráttu og kröfðust þess að forseti Alþingis hlutaðist til um að þessu yrði breytt og gengið til atkvæða um málið. Og það var alveg sama hve oft það var tiltekið að meirihluti væri fyrir hinni leiðinni og hún væri hluti af samkomulagi um þinglok; Miðflokkurinn krafðist þess reglulega, mjög reglulega, í pontu að önnur málsmeðferð yrði viðhöfð.
Það er ótrúlega sérstakt viðhorf að vilja frekar að málið sitt sé fellt í þingsal en að áfram sé að því unnið. Meirihluti þingmanna kaus á endanum með því að málið yrði skoðað og metið af sérfræðingum, enda töldu voru margir ekki til í að taka jafn stóra og afdrifaríka ákvörðun að ekki betur athugðu máli. Miðflokkurinn vildi hins vegar svipta aðra þingmenn þeim rétti sínum að kjósa um að vísa málinu til frekari úrvinnslu; þingheimur yrði einfaldlega að segja já eða nei. Að lokum, eftir ótal margar ræður, var samþykkt með 43 atkvæðum gegn 12, 5 greiddu ekki atkvæði.
Sú spurning hlýtur að vakna hvað flokknum hafi gengið til? Flokkur sem vill frekar drepa eigin mál en koma þeim til frekari vinnslu getur varla verið mjög áfram um inntak málsins. Hann er staddur í leikriti sem gengur út á að láta sjálfan sig líta vel út, en aðra illa. Slíkur flokkur er ekki að hugsa um hag þeirra sem málið varðar, aðeins eigin hag.