Þriðjudaginn síðasta var rifist um osta inn á þingi og stóðu átökin milli þeirra sem vilja opnara Ísland og þeirra sem vilja skella í lás á sem flestum sviðum. Atvinnuveganefnd hafði skilað af sér vandleg unninni tillögu þar sem ólíkir flokkar höfðu náð málamiðlun og til stóð að leyfa örlítið fleiri osta á hillum matvörubúða, örlítið fleiri fjölbreytni og mögulega aðeins lægri verð. En á síðustu stundu snerist einhverjum í meirihlutanum hugur. Það var óneitanlega íronískt. Aðeins fyrr um kvöldið höfðu þingmenn samþykkt ný persónuverndarlög, sem fólu í sér gríðarlega miklar umbætur í neytendavernd. Eftir samþykkt GDPR mega fyrirtæki og framleiðendur á netinu ekki lengur líta að netnotkendur sem sína persónulega eign og selja upplýsingar um þá án samþykkis. Hugmyndin er sú að fyrirtæki sem starfa á netinu þurfi að framleiða einhverja vöru sem neytendur vilja, tekjumódelið sem gengur út á að plata neytendann til að gefa upplýśingar um sig til að selja þriðja aðila á að deyja eða í það minnsta skerðast verulega.
Neytandinn er nefnilega ekki eign fyrirtækisins. Hann er viðskiptavinur. Hlutverk hans er ekki að halda uppi lélegum fyrirtækjum sem bjóða honum ekkert, heldur að verðlauna þá sem svo sannarlega hafa eitthvað upp á að bjóða. Um þetta gátum við öll verið sammála, en gátum það svo ekki þegar það kom að mjólkurafurðum. Þá allt í einu var kaupandinn orðinn eign framleiðandans.
Ímyndum okkur í smástund að hugarfar og pólitísk ítök Rithöfundasambands Íslands væru svipuð og þeirra aðila sem mynda hópinn í kringum Mjólkursamsöluna og Kaupfélag Skagafjarðar. Í dag eru settar takmarkanir á hve mikið af landbúnaðarvörum og hvers konar vörur megi flytja til Íslands. Fullyrt er að íslenskir framleiðendur á hausinn ef við leyfum meira úrval af ostum í búðir, jafnvel þó um sé að ræða osta sem ekki einu sinni er verið að framleiða á Íslandi. Í þessu samhengi er oft talað um íslenska neytendur eins og þeir séu á einhvern hátt eign íslenskra fyrirtækja, og að hagsmunir fyrirtækjana vegi þyngra en valfrelsi okkar sem förum út í búð til að kaupa í matinn. Ímyndum okkur í smástund að rithöfundar litu svipuðum augum á íslenska lesendur.
Hart var deilt um það inn á alþingi nú í nótt hvort leyfa ætti aukningu á þýðingakvóta íslenskra bókaútgefenda. Þingmenn Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar stigu upp í pontu og töluðu fyrir því að leyfð yrði útgáfa á Harry Potter, Game of Thrones og að verslanir Eymundssonar mættu bæta við tíu tonnum af nýlega þýddri bók Jordan Petersson tólf lífsreglur.
Þingmenn Miðflokks, Sjálfstæðisflokks, framsóknar og vinstri grænna lögðust hart gegn þessum tillögum. Sumir höfðu orð á því að meiri innflutningur á erlendum þýðingum heimspekirita kæmi hart niður á útgefendum innlendra fræðirita. Aðrir töluðu um hvernig íslensk furðusagna-útgáfa væru nú fyrst byrjuð að blómstra, en einn þingmanna framsóknar vísaði sérstaklega til skýrslu rithöfundasambandsins frá árinu 2007 „Það er augljóst að útgáfa fyrstu þriggja Harry Potter bókanna hérlendis dró stórlega úr sölu á bókum Andra Snæs Magnasonar, tap hans á útgáfu Harry Potter gæti verið upp á tugi milljóna.“
Auðvitað er dæmið sem ég tek algjörlega absúrd. Meira úrval af þýddum skáldverkum í bókabúðum, sem og bóka á erlendum málum dregur ekki úr lestri á innlendum höfundum. Ef við myndum loka fyrir innflutning á erlendum bókum myndi bóksala dragast saman, færri bókabúðir yrðu til staðar og á endanum myndi fólk lesa minna. Þeir sem hafa lesið Harry Potter eru helmingi líklegri til að fara út í búð og prufa innlendan höfund eins og t.d. Emil Hjörvar Petersen, Hildi Knútsdóttur eða Alexander Dan Vilhelmsson, sem öll eru dæmi um nýja íslenska furðusagnahöfunda sem ólust upp við þær bækur í íslenskri þýðingu.
Það mætti taka ótal mörg önnur dæmi. Ef við myndum takmarka úrval eða magn framandi bjóra sem flytja mætti inn til Íslands myndi sala Borg brugghús eða Steðja ekki aukast, heldur dragast saman þar sem almennum áhuga á bjórmenningu myndi minnka. Ef við myndum margfalda tolla og minnka innflutning á hrísgrjónum til að selja fleiri innlendar kartöflur, þá yrði minna borðað af íslenskum fisk þar sem verðið á Sushi myndi tvöfaldast.
Auðvitað eru áhrif frjálsar verslunar ekkert alltaf góð. Frjáls samkeppni á sviði sælgætisgerðar hefur almennt aukið sykurneyslu Íslendinga og gert bæði tannlækna, sælgætisframleiðendur og kaupmenn ríka. Sömuleiðis má velta fyrir sér kolefnafótspori við innflutning. En það eru ekki rökin sem við heyrum. Röksemdafærslan snýst alltaf um að íslenskir neytendur tilheyri örfáum einokunarfyrirtækjum sem eru með tangarhald á tveimur af hverjum þremur flokkum sem eru inni á þingi.
Það versta við þetta tangarhald er að þingmenn ganga gegn sinni eigin sannfæringu. Margir í stjórnarmeirihlutanum voru með óbragð í munni, því þeir höfðu nú þegar gert samkomulag við stjórnarandstöðuna um að leyfa meiri innflutning á ostum. Sjálfstæðismenn sáu sig knúna til að koma upp í pontu og minna á að flokkurinn þeirra væri nú samt fríverslunarflokkur, bara fríverslunarflokkur með lítið hugrekki. Aðrir voru bara nokkuð kátir. Miðflokksmenn, vinstri grænir og framsókn sem fyrr um daginn höfðu verið í hárunum á hvort öðru yfir verðtryggingu gátu fagnað saman með bróðurpart þingflokks sjálfstæðismanna. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona samfylkingarinnar úr norðausturkjödæmi fangaði vel stemminguna í frjálsari hluta þingsins þegar hún lýsti sinni tilfinningu í pontu (ég leyfi mér að klippa smá): [...]„Margt hefur verið sagt og margt hefur verið rætt en í stuttu máli get ég ekki annað sagt en að ég hafi orðið fyrir verulega miklum vonbrigðum með málatilbúnað og umfjöllun og umræður, að sumu leyti í öllu falli, í tengslum við þetta mál.[...] En í stuttu máli sagt hefur umræðan verið þannig að ég hreinlega veit ekki hvort meiri hluti nefndarinnar er að koma eða fara, svo oft hefur sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn skipt um skoðun í þessu máli, að maður er pinku hugsi yfir þessum málatilbúnaði öllum saman. [...] Þó að þingmönnum í hliðarsölum finnist það greinilega mjög fyndið og skemmtilegt get ég ekki sagt að ég hafi neitt sérstaklega mikinn húmor fyrir því.“
Ég hef heldur ekki mikinn húmor fyrir því þegar fólk hefur ekki hugrekki til að standa með sannfæringu sinni og kóar með íhaldsöflunum í sínum eigin flokki. Og það var ótrúlegt að horfa upp á það hvernig miðflokkurinn fer með hina framsóknarflokkanna þrjá. Það var ekki augljóst hver réði dagskrá þingsins, Sigmundur Davíð eða Steingrímur J, hver færi með völdin í landinu, Katrín Jakobsdóttir eða Sigmundur, því miðað við þessa niðurstöðu getur stjórnin allt eins tekið fjórða framsóknarflokkinn inn. Ekkert myndi breytast í stefnu stjórnvalda ef Sigmundi Davíð væru réttir lyklarnir að landbúnaðarráðuneytinu og Gunnar Braga afhentur gamli stólinn sinn í utanríkisráðuneytinu. Mögulega væri það þess virði. Það yrði minna um dramatísk upphlaup þegar framsóknarfólkið hreytir ónotum í hvort annað, og frjálsu flokkunum í stjórnarandstöðu gæfist kannski aðeins betri tími til að yfirfara mikilvæga, innflutta sérlöggjöf frá ESB eins og GDPR, og innleiða hana á ábyrgari, fullorðinslegri máta.
Höfundur er varaþingmaður Pírata og sat á þingi daginn sem umræðurnar um tollalögin fóru fram.