Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG skrifaði pistil á Kjarnanum í gær og virðist í töluverðri geðshræringu yfir atburðum síðasta dags þingsins.
Hann fer með staðlausa stafi um samkomulag sem gert var af stjórnarandstöðu við stjórnarmeirihlutann á Alþingi um frumvarp Miðflokksins um að húsnæðisliður hverfi úr vísitöluútreikningi.
Nú skal það upplýst að samkomulag um afgreiðslu mála er gert annað hvort milli formanna eða þingflokksformanna flokkanna. Kolbeinn Óttarsson Proppé er hvorki formaður né þingflokksformaður VG. Hann var því ekki aðili að samkomulagi flokkanna á Alþingi. Hið rétta í málinu er að á ákveðnum tímapunkti stóð stjórnarandstöðuflokkum til boða að fá eitt mál afgreitt sem var mikil rausn af hálfu stjórnarflokkanna,eða hitt þó heldur. Miðflokkurinn ákvað að velja frumvarp til laga um að húsnæðisliður hverfi úr vísitölureikningi verðtryggðra lána.
Niðurstaða í því máli skiptir hundrað þúsund heimili í landinu verulegum upphæðum eða t.d. um 118 milljörðum króna síðustu fimm ár. Miðflokkurinn taldi því nauðsynlegt að skýr afstaða flokkanna á Alþingi varðandi þetta hagsmunamál kæmi fram, enda höfðu stjórnarflokkar sumir gefið skýr loforð um verðtryggingu fyrir kosningar og þetta því kærkomið tækifæri til að standa við þau loforð.
Sérstaklega í ljósi þess að í fyrstu umræðu um málið tóku nánast engir aðrir þátt en þingmenn Miðflokksins og Flokks Fólksins.
Það verður þó að geta um ræðu Kolbeins Óttarssonar Proppé við aðra uiræðu um málið þar sem hann lýsti því yfir að hann skildi hvorki upp né niður og trúi ég þingmanninum.
Það sem er merkilegt við grein þingmannsins er að hann telur sig hafa haft vissu fyrir því að mál Miðflokksins yrði fellt í atkvæðagreiðslu. Það er útaf fyrir sig merkilegt ef stjórnarmeirihlutinn hefur verið ráðinn í því að fella málið áður en það kom fram.
Rétt er að geta þess að frumvarpið var i meðferð efnahags- og viðskiptanefndar frá því 8. mars þar til það var loks rifið út úr nefnd á hlaupum 8. júní.
Miðflokkurinn leggur ekki fram mál hvorki þetta eða önnur til ,,að láta fella þau.“ Flokkurinn leggur fram hins vegar augnamiði að bæta kjör lands og lýðs og treystir á að aðrir flokkar séu sama sinnis. Í tilfelli málsins um að húsnæðisliður hverfi úr vísitöluútreikning trúði þingflokkurinn á skynsemi og djörfung þingheims auk þess að flokkurinn trúði því að ríkisstjórnarflokkarnir sér í lagi forystuflokkurinn bæru þann hug í garð hundraðþúsund heimila í landinu að þeir treystu sér til að afgreiða málið eða að lágmarki að láta uppi skoðun sína á því sérlega þeir sem stærst loforð gáfu fyrir nýliðnar kosningar. Þetta álit Miðflokksins reyndist rangt. Meirihlutaflokkarnir á Alþingi þorðu ekki að láta uppi skoðun sína á þessu máli. Ekki Samfylkingin heldur. Framsóknarflokknum tókst á síðasta degi þings að svíkja tvö helstu kosingamál sín um verðtryggingu og staðsetningu nýs þjóðarsjúkrahúss áður en klukkan sló þrem sinnum. Minnir ögn á Pétur sem sveik frelsarann þrisvar áður en haninn gól tvisvar. Nú er búið að senda verðtryggingarmálið i kaldan faðm fjármálaráðherra þar sem það króknar, enda hefur hann áður sýnt að hann er gersamlega áhugalaus um afnám verðtryggingar, hvort sem er í skrefum eða alfarið. Sú töf sem nú verður á lausn málsins verður heimilum landsins dýr. Ætla má að meðan málið er ,,til skoðunar í nefnd“ hækki lán almennings og fyrirtækja um nokkra tugi milljarða, m.a. í boði VG, flokksins sem þorir ekki að taka afstöðu með skuldugum heimilum gegn gróðaöflunum.
Þorir ekki að standa með heimilum landsins og ekki í fyrsta sinn. Það er ekki að undra að Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG skilji hvorki upp né niður.