Síðustu misseri hefur mygla verið mikið til umræðu og stundum hefur umfjöllun verið það mikil að einhverjum kann að þykja nóg um.
Hins vegar hverfa vandamálin ekki.
Við verðum að ræða þessi vandamál opinskátt og á vísindalegum grunni, gangast við þeim og vinna í að leysa þau á skynsamlegan hátt og fá fagstéttir til að vinna saman án fordóma og öfga. Umræðan hefur stundum orðið öfgakennd upp á síðkastið á báða bóga, enda eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir marga.
Öfgar í báðar áttir
Fullyrðingar um að nágrannalönd okkar takmarki ekki notkun á rýmum eða húsnæði þegar upp komi rakaskemmdir eiga ekki við rök að styðjast. Það er lögð rík áhersla á að takmarka eins og unnt er viðveru fólks nálægt rakaskemmdum, í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Mikilvægt er að fara sem fyrst í vandaðar viðgerðir þar sem viðurkenndum verkferlum er fylgt eftir til þess að lágmarka áhrif á heilsu fólks. Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða þar sem eru rakaskemmdir í byggingum.
Á hinn bóginn eru uppi öfgafullar umræður þar sem farið er fram á að rífa þurfi nýleg hús. Einnig ber við að húsnæði sem fær eðlilegt viðhald vegna rakaskemmda sé dæmt ónýtt að óþörfu, fái neikvæðan stimpil. Það er jákvætt að byggingar fái viðhald vegna rakaskemmda.
Öfga og fordóma má minnka með fræðslu og þekkingarleit.
Rakaskemmdir og mygla
Myglusveppir eru nauðsynlegir úti í náttúrunni og mikilvægir í hringrás hennar, en fæst okkar vilja búa undir sama þaki og þessi vágestur. Enda hefur óyggjandi verið sýnt fram á að tengsl eru á milli heilsubrests og viðveru í rakaskemmdu húsnæði. Þó er ekki alveg víst hvaða þátt myglan spilar og hvort það sé aðal- eða aukahlutverk. Enda koma þar inn í dæmið uppgufun frá rökum byggingarefnum, aðrar lífverur og afleiðuefni..
Myglugró sem myglusveppir framleiða eru loftborin og finnast víða. Þau lenda oft undir gólfefnum, innréttingum, innan í sökklum, veggjum og í þakrými. Þar bíða gróin þar til að þau fá nægilegan raka til þess að vaxa upp í myglusvepp.
Gró þurfa mismunandi aðstæður, æti og rakamagn til þess að verða að myglusvepp, það fer eftir tegundum.
Rakabúskapur og kröfur okkar um þægindi
Svo lengi sem við notum vatn í okkar híbýlum má búast við að einhvers staðar nái að myndast mygla og rakasæknar örverur þrífist. Sem dæmi má nefna í þéttiefni í kringum bað eða sturtur, í niðurföllum, meðfram rúðum, svo eitthvað sé nefnt.
Þannig að það er um tvennt að velja, hætta að nota vatn við heimilisbúskap eða að læra að hegða okkur í samræmi við þau þægindi sem við kjósum. Hegðun okkar skiptir miklu máli.
Loftraki er ekki alls ráðandi um hvort að mygla nái að vaxa eða ekki, en með því að halda niðri loftraka náum við að minnka líkur á rakaþéttingu á köldum flötum.
Raki í byggingarefnum eins og þegar gifsplötur blotna eða rör leka innan í vegg kemur einungis fram á sérstökum snerti- eða efnisrakamælum og hefur ekki endilega áhrif á loftraka.
Mygla nær að vaxa upp í byggingarefni þar sem tiltækur raki er í nægilegu magni í nógu langan tíma, eins og til dæmis er til staðar eftir vatnstjón eða viðvarandi leka.
Hollráð húseiganda
VIÐHALD
Reglulegt og gott viðhald og eftirfylgni t.d. með ástandi lagna, útveggja, glugga, þakrenna og þaks.
Skoða reglulega þéttingar með gluggum og hurðum.
Kanna ástand þakrenna og drenlagna.
Mála reglulega og vatnsverja þar sem þarf.
Fylgjast með þéttiefnum í votrýmum, endurnýja eða vatnsverja reglulega.
VIÐBRAGÐ VIÐ LEKA & VATNSTJÓNUM
Bregðast við vatnstjónum. Opna inn í byggingarhluta og hefja þurrkun eins fljótt og mögulegt er. Venjulega er það til lítils árangurs gegn myglu að láta þorna án frekari afskipta.
Þurrka upp raka við rúður og vatn eftir bað og sturtuferðir.
Þurrka upp vatn við rúður á köldum vetrardögum.
RAKAÁLAG
4 manna fjölskylda gefur frá sé 40-60 lítra af vatnsmagni á viku við venjulegt heimilishald.
Gott er að hafa loftrakamæli á hverju heimili þannig að íbúar geti fylgst með og lært af hegðun sinni hvenær rakaálag eykst, loftraki hækkar.
Rakaálag eykst við eftirfarandi iðju: sturtu og baðferðir, þurrkun á þvotti, matseld og viðveru fólks í húsnæði.
Loftraki innandyra á Íslandi liggur á milli 20-40% að vetrarlagi og eitthvað hærra á sumrin en ætti að jafnaði ekki að fara mikið yfir 55%.
LOFTSKIPTI
Til þess að minnka uppsöfnun á raka, efnum og gróum innandyra er mælt með því að skipta um loft innandyra reglulega.
Hægt er að fá mæla í dag á viðráðanlegu verði sem nema koltvísýring CO2 og VOC (rokgjörn lífræn efni) sem gefa vísbendingar um lofgæði og loftskipti.
Opna glugga, helst upp í vind og láta gusta í gegnum húsnæðið.
Svefngæði aukast við aukin loftskipti og því ætti ávallt að vera amk rifa á svefnherbergisglugga.
ÞRIF
Þar sem ryk nær að liggja fyrir og raki þéttist eða vatn lekur eru meiri líkur á að mygla nái að vaxa upp og nýta sér ryk sem æti.
Því lakari sem þrif eru því meira magn af loftbörnum ögnum í innlofti, ryk, gró og aðrar agnir.
Ryksugun eða rykhreinsun með HEPA síum getur bætt loftgæði innandyra. HEPA síur fanga smáar agnir og gott er að velja H12 eða H13.
Sumarið er tíminn
Yfir sumartímann er tilvalið að skoða vel þéttingar, málningu og fá úttekt vegna viðhalds og forgangsraða aðgerðum. Byggingar þyrftu í raun að fara í gegnum ástandsskoðun árlega eins og bifreiðar þar sem húseigandi fær upplýsingar ástand, næstu skref varðandi viðhald, ráðgjöf fagmanns um viðgerðir og útfærslur ef þörf er á. Fyrirbyggjandi viðhald er góð fjárfesting.
Á mínum ferli við skoðanir á byggingum síðustu 12 ár finnst mér bagalegast að koma að þar sem kostnaðarsamar aðgerðir hafa verið framkvæmdar án faglegs álits, án þekkingar um rakaöryggi og virkni bygginga, undirbúningi er ábótavant og viðgerðir bera ekki tilætlaðan árangur. Það er mikilvægt að vanda vel til verks í upphafi.
Það er kostnaðarsamt að spara aur fyrir krónu.
Gangi ykkur vel með viðhaldið í sumar.
Höfundur er fagstjóri hjá Eflu.